Málþing í Snorrastofu: Þjóðlendumál og eignarréttur, laugardaginn 8. mars kl. 13:00

Fræðimenn og lögmenn hafa framsögu um eignarrétt og landnám í sögulegu ljósi. Rætt verður um kirkjueignir á fjalllendi og afrétti og um heimildagildi Landnámu. Þá verður einnig fjallað um framkvæmd laga um þjóðlendur á Íslandi og hvort dómstólar hafi breytt inntaki eignarréttar á síðari hluta 20 aldar.
Einnig verður fjallað um lagaframkvæmdina með hliðsjón af eignarréttarvernd Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómsstólsins. Að loknum framsögum og fyrirspurnum verða pallborðumræður með fulltrúum stjórnmálaflokka.

Dagskrá
13.00 Málþingið sett
Ávarp: Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri
 
Fyrsti hluti: Eignarréttur í sögulegu ljósi
Einar G. Pétursson prófessor Árnastofnun: Kirkjueignir á fjalllendi
Sveinbjörn Rafnsson prófessor HÍ: Heimildagildi Landnámu
Umræður  og fyrirspurnir
 
Annar hluti: Þjóðlendulögin og eignarrétturinn
Friðbjörn Garðarson lögmaður: Breyttu dómstólar inntaki eignarréttar á landi á síðari hluta 20. aldar?
Ólafur Björnsson hrl.: Framkvæmd laga um þjóðlendur á Íslandi
Davíð Þór Björgvinsson dómari: Lagaframkvæmd á Íslandi með hliðsjón af eignarréttarvernd MSE og Mannréttindadómsstóls
Umræður og fyrirspurnir
Þriðji hluti: Pallborðumræður
Fulltrúar stjórnmálaflokkanna. Umræður athugasemdir og fyrirspurnir.
Það eru Snorrastofa, Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál (RSE) og Búnaðarsamtök Vesturlands sem standa fyrir málþinginu sem hefst kl.13.00 og fer fram í Reykholtskirkju.
Aðgangur er öllum opinn og eru áhugamenn um þetta mál hvattir til að mæta

Fátækt og ríkidæmi Íslendinga í ljósi þjóðarauðs, Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar H.Í., flytur erindi í málstofu í hagsögu 5. mars kl. 16:00

Erindi Gunnars er flutt í málstofu í hagsögu á vegum kennara í sagnfræði og hagfræði. Málstofan er í stofu 101 í Árnagarði, og hefst kl. 16.00.
Allir velkomnir!

Um efni erindisins segir Gunnar: Ósjaldan er því haldið fram að Íslendingar séu rík þjóð. Er þá yfirleitt vísað til þess að landsframleiðsla á mann sé hærri en hjá flestum öðrum. Gallinn er sá að fyrrnefndur mælikvarði, verg landsframleiðsla á mann, segir ekki nema hluta sögunnar þegar verið er að meta ríkidæmi þjóða. Mælikvarðinn segir lítið um mikilvæg atriði eins og það hvernig við framleiðum eða hver framleiðslan var í fortíðinni eða verður í framtíðinni. Í erindinu er fjallað um þessa þætti og hvaða áhrif þeir hafa á stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.

Aldursgreining fornleifa útfrá eldgosum og gjóskulögum. Fyrirlestur á Landnámssýningunni Aðalstræti 16 4. mars kl. 17

Þriðjudaginn 4. mars kl. 17 flytur Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur fyrirlestur á Landnámssýningunni í Aðalstræti 16. Fjallað verður um eldvirkni á Íslandi, gjóskugos og hvernig nota má gjóskulög, sem tengjast ársettum eldsumbrotum, til þess að aldursákvarða t.d. fornminjar eða jarðlög.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Þriðjudaginn 4. mars kl. 17 flytur Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur fyrirlestur á Landnámssýningunni í Aðalstræti 16. Fjallað verður  um eldvirkni á Íslandi,  gjóskugos og hvernig nota má gjóskulög, sem tengjast ársettum eldsumbrotum, til þess að aldursákvarða t.d. fornminjar eða jarðlög.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Tilvist, trú og tilgangur eftir dr.dr. Sigurjón Árna Eyjólfsson

Meginþema bókarinnar eru áleitnar spurningar sem mannkyn hefur glímt við:
Er Guð til? Hver er tilgangur lífsins?
Guðfræðingar hafa um aldir leitað í smiðju til heimspekinnar til þess að skýra samband Guðs og manns. Í þessari bók er fjallað um nokkrar helstu kenningar um tilvist Guðs, allt frá guðssönnunum Anselms frá Kantaraborg til guðsafneitunar Nietzsches.
Lýst er tengslum guðfræði og heimspeki, inntak trúarhugtaksins er útskýrt, auk þess sem fjallað er um þá tilvistartúlkun sem löngum hefur sett mark sitt á evangelísk-lútherska guðfræði.

Efnisskipan bókarinnar, trú, tilvist og loks tilgangur – er í samræmi við það sjónarmið guðfræðinnar að öll íhugun hennar sé í raun eftir á, eða í ljósi trúarinnar. Frumforsenda hennar er að Guð sé sá sem veki trúna og að í sambandi við hann öðlist líf mannsins tilgang.
Dr. dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson er héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og stundakennari við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi í guðfræði við Háskólann í Kiel og frá guðfræðideild H.Í. Sigurjón hefur áður sent frá sér viðamiklar bækur um guðfræðileg málefni sem Bókmenntafélagið gaf einnig út: Þetta eru bækurnar Guðfræði Marteins Lúthers, Kristin siðfræði í sögu og samtíð og Ríki og kirkja – uppruni og þróun þjóðkirkjuhugtaksins. Þá hefur Sigurjón ritað inngang að Lærdómsritunum Um ánauð viljans eftir Martein Lúther og Um holdgun Orðsins eftir Aþanasíus frá Alexandríu.

Varðveisla texta: hvað er það? Hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélags Íslands í Þjóðminjasafninu 26. febrúar klukkan 12:05

26. febrúar klukkan 12:05 flytur Már Jónsson fyrirlesturinn Varðveisla texta: hvað er það? í Þjóðminjasafni Íslands. Fyrirlesturinn er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands. Varðveisluhugtakið verður tekið til umræðu og er fullyrt að það feli ekki eingöngu í sér vörslu eða gæslu á menningarlegum og sögulegum verðmætum, svo sem til að forðast skemmdir eða glötun

26. febrúar klukkan 12:05 flytur Már Jónsson fyrirlesturinn Varðveisla texta: hvað er það? í Þjóðminjasafni Íslands. Fyrirlesturinn er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands. Varðveisluhugtakið verður tekið til umræðu og er fullyrt að það feli ekki eingöngu í sér vörslu eða gæslu á menningarlegum og sögulegum verðmætum, svo sem til að forðast skemmdir eða glötun.
Enn mikilvægara er að þekkingu um og skilningi á þessum verðmætum sé veitt til samtímans. Dæmi um slíkt geta verið endurgerð húsa, sýningar af ýmsu tagi eða brýr og slóðar sem auðvelda
göngu að torveldum sögustöðum. Í erindinu verða færð rök fyrir því að vönduð varðveisla á textum frá fyrri öldum felist jafnt í vönduðum geymslum með réttu rakastigi og nákvæmri skráningu,
en ekki síst í öflugri útgáfu í almanna þágu, jafnt í viðamiklum og metnaðarfullum ritröðum sem og á handhægum bókum til afþreyingar og uppfræðslu.
Már Jónsson er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.
Frekari upplýsingar veitir Guðbrandur Benediktsson, varaformaður Sagnfræðingafélags Íslands
www.sagnfraedingafelag.net

Fornleifar í miðbæ Reykjavíkur – Fyrirlestraröð á Landnámssýningunni Aðalstræti 16, vormisseri 2008

Minjasafn Reykjavíkur gengst á næstunni fyrir fyrirlestraröð um fornleifar í miðbæ Reykjavíkur. Sérfræðingar í ýmsum fræðigreinun fjalla um Reykjavík við landnám út frá ólíkum sjónarhornum. Fyrirlestrarnir verða haldnir á Landnámssýningunni Reykjavík 871±2 í Aðalstræti 16 þar sem nýlega fannst rúst af skála frá 10. öld. Skálinn hefur verið forvarinn og er til sýnis á sínum upphaflega stað og gestir geta fræðst um fortíðina með aðstoð nýjustu margmiðlunartækni.
Mjöll Snæsdóttir fornleifafræðingur ríður á vaðið og heldur fyrsta fyrirlesturinn þriðjadaginn 22. janúar kl.17.00 og nefnist hann: Hvernig var lífið í Aðalstræti á landnámsöld?

Aðrir fyrirlestrar verða sem hér segir:
Þriðjudaginn 5. febrúar:         Hvar er að finna fornleifar í Kvosinni? Væntanlegar rannsóknir.
                                                    Anna Lísa Guðmundsdóttir deildarstjóri fornleifadeildar  Minjasafns Reykjavíkur.
Þriðjudaginn 19. febrúar:      Landkostir við upphaf byggðar.
                                                   Árni Einarsson líffræðingur. 
Þriðjudaginn 4. mars:             Aldursgreining fornleifa útfrá gjóskulögum og eldgosum.
                                                    Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur.
Þriðjudaginn 18. mars:          Kitlandi frásögn um fortíðina. Landnámsýningin Reykjavík 871±2.
                                                   Hjörleifur Stefánsson arkitekt, verkefnisstjóri sýningarinnar
Þriðjudaginn 1. apríl:             Hvað vitum við helst um Reykvíkinga á 9. og 10. öld? Ritaðar heimildir og niðurstöður fornleifarannsókna.
                                                   Helgi Þorláksson sagnfræðingur.
Þriðjudagur 15. apríl:             Hvernig er hægt að varðveita torfrúst frá 10. öld?
                                                   Per Thorling Hadsund forvörður, Nordjyllands Historiske Museum.
Allir fyrirlestrarnir hefjast kl.17.00

Sérfræðileiðsögn Árna Björnssonar þjóðháttafræðings í Þjóðminjasafni Íslands, 19. febrúar kl. 12:05

Íslenskir dýrlingar – Ausið úr viskubrunnum í Þjóðminjasafni Íslands – Sérfræðileiðsögn Árna Björnssonar þjóðháttafræðings þriðjudaginn 19. febrúar klukkan 12:05
Þriðjudaginn 19. febrúar klukkan 12:05 verður ,,ausið úr viskubrunnum” í Þjóðminjasafni Íslands en þá verður Árni Björnsson þjóðháttafræðingur með leiðsögn um grunnsýninguna. Árni mun kynna gesti sérstaklega fyrir myndum af íslenskum dýrlingum í safninu.

Árni veltir fyrir sér ýmsum spurningum um dýrlinga, svo sem hvernig þeir voru valdir, hvort samkeppni hafi verið milli þeirra innbyrðis og hvaða hlutverki þeir gegndu. Þá er einnig umhugsunarefni hvers vegna íslensku dýrlingarnir voru ekki viðurkenndir af páfanum. ,,Voru dýrlingar arftakar gamalla skurðgoða?“ spyr Árni Björnsson. ,,Voru þeir tekjulind? Hvernig litu dýrlingar út í lifanda lífi og hvaða menjar hafa lifað um þá fram á okkar daga?“ Loks mun Árni í leiðsögn sinni fjalla um jarteinasögur og hlutverk þeirra.
Trú á dýrlinga skipaði frá upphafi kristni í landinu mikilvægan sess í trúarlífi Íslendinga. Í Kristinna laga þætti segir meðal annars að menn skuli trúa á Guð einan og ,,á helga menn til árnaðarorðs sér og blóta eigi heiðnar vættir.” Fólk mátti trúa á og tilbiðja Guð en ákalla dýrlinga. Ef til vill hafa þeir að einhverju leyti tekið við hlutverki goðmagna og vætta. Dýrlingarnir nutu mikilla vinsælda meðal almennings og með tímanum eignuðust Íslendingar líka sína eigin dýrlinga, Jón Ögmundsson, Þorlák helga og Guðmund góða.
Sérfræðileiðsagnir Þjóðminjasafnsins, Ausið úr viskubrunnum, eru haldnar annan hvorn þriðjudag í hádeginu. Sérfræðingar bæði innan safns og utan taka þá fyrir afmarkaða hluta grunnsýningarinnar og sérsýninga í samræmi við sérfræðiþekkingu sína. Leiðsagnirnar eru ætlaðar almenningi og ættu allir að hafa gaman af.
Fólk er hvatt til að fjölmenna næstkomandi þriðjudag og hlusta á Árna Björnsson tala um íslenska dýrlinga.

"Hvað er að heyra? Varðveisla munnlegra" – Hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélags Íslands 12. feb.

Unnur María Bergsveinsdóttir verkefnastjóri hjá Miðstöð munnlegrar sögu flytur erindi í hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðinga Íslands þriðjudaginn 12. febrúar. Fyririlesturinn verður að vanda fluttur í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands að Suðurgötu kl. 12:05-12:55.
Fyrirlestur sinn nefnir Unnur “Hvað er að heyra? Varðveisla munnlegra heimilda

Unnur María Bergsveinsdóttir, verkefnastjóri hjá Miðstöð munnlegrar sögu, flytur Hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélags Íslands þriðjudaginn 12. febrúar. Fyrirlesturinn nefnir hún ” Hvað er að heyra? Varðveisla munnlegra heimilda”.
Munnleg saga hefur í seinni tíð hlotið fulla viðurkenningu sem sagnfræðileg aðferð og nýtur sívaxandi vinsælda meðal þeirra sem fást við samtímasögu. Enn sem komið er er bein íhlutun fræðimannsins í tilurð þeirrar heimilda sem hann fæst við þó sterkt einkenni aðferðarinnar, sér í lagi hér á Íslandi. Þetta má að miklu leyti rekja til þeirrar staðreyndar að varðveisla munnlegra heimilda einkennist enn í dag, hérlendis sem erlendis, af bæði óvissu hvað verklagi viðvíkur og skorti á samræðu um ýmis grunnatriði. Þetta veldur því að munnlegar heimildir eru í mörgum tilfellum lítt aðgengilegar öðrum en þeim sem þær skópu. Umfjöllunarefni erindisins eru þær spurningar sem varðveisla munnlegra heimilda vekur auk þess sem skyggnst verður í geymslur íslenskra safna og spurt, hvað er að heyra?
Vakin er athygli á vefsetri Miðstöðvar munnlegrar sögu þar sem má m.a. finna upplýsingar um starfsemi og markmið miðstöðvarinnar. Slóðin er www.munnlegsaga.is/ .
Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.
Frekari upplýsingar um hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands veitir
Guðbrandur Benediktsson
Varaformaður Sagnfræðingafélags Íslands
www.sagnfraedingafelag.net

"Bænarskrár leiguliða til Alþingis 1845-1874 og afdrif þeirra", 6. feb.

Árni Daníel Júlíusson flytur erindi í málstofu í hagsögu miðvikudaginn 6. febrúar sem hann nefnir “Bænarskrár leiguliða til Alþingis 1845-1874 og afdrif þeirra.”
Málstofan er í stofu 101 í Árnagarði og hefst kl. 16.00.
Allir velkomnir!

Árni Daníel Júlíusson flytur erindi í málstofu í hagsögu miðvikudaginn 6. febrúar sem hann nefnir “Bænarskrár leiguliða til Alþingis 1845-1874 og afdrif þeirra.”
Málstofan er í stofu 101 í Árnagarði og hefst kl. 16.00.
Allir velkomnir!

Hvar er að finna fornleifar í Kvosinni? Væntanlegar rannsóknir, 5. febrúar

Þriðjudaginn 5. febrúar kl. 17 flytur Anna Lísa Guðmundsdóttir deildarstjóri fornleifadeildar Minjasafns Reykjavíkur fyrirlestur á Landnámssýningunni í Aðalstræti 16. Fyrirlesturinn nefnist Hvar er að finna fornleifar í Kvosinni? Væntanlegar rannsóknir.
Fjallað verður um hvar enn gætu leynst fornleifar í jörðu, allt frá landnámsminjum til tuttugustu aldar minja.

Vegna mikilla framkvæmda eru fá  svæði eftir í miðbæ Reykjavíkur þar sem enn er fornleifa að vænta. Á næstu
árum þarf þó fyrirsjáanlega að rannsaka lóðirnar á horni Tjarnargötu og  Vonarstrætis og Tjarnargötu og Kirkjustrætis vegna fyrirhugaðra bygginga þar.
Einnig verður vikið að því hvað heimildir segja okkur um Reykjavík á síðmiðöldum og fjallað um yngri minjar á svæðinu, en samkvæmt þjóðminjalögum teljast minjar 100 ára og eldri til fornleifa.