Tómas af Aquino: Um lög

Tómas af Aquino var einn mesti hugsuður kirkjunnar á miðöldum og jafnframt einn merkilegasti heimspekingur vesturlanda fyrr og síðar og ná áhrif hans langt út fyrir raðir kristinna manna. Um lög er sá hluti af höfuðritverki Tómasar, Summa Theologiæ, sem fjallar um eðli laga og er enn í dag grundvallarrit bæði í lögfræði og heimspeki.

Í ritinu veltir Tómas því m.a. fyrir sér hvort lögum sé ætíð skipað til almannaheilla, hvort til séu eilíf lög, hvort til séu lög lostans og hvort lög manna skuldbindi samvisku manna. Í heimspeki sinni styðst Tómas mjög víða við verk Aristótelesar, ekki síst siðfræði hans. Það var fyrst og fremst fyrir tilstilli Tómasar að Aristóteles varð heimspekingur kirkjunnar á miðöldum. Fyrir tíma Tómasar höfðu kristnir hugsuðir, t.d. Ágústínus kirkjufaðir, einkum litið til Platons en haft litlar mætur á Aristótelesi.
Garðar Gíslason hæstaréttardómari skrifar ítarlegan og fróðlegan inngang að bókinni þar sem hann segir frá ævi Tómasar og gerir grein fyrir meginhugmyndum hans um eðli laga. Þýðandi er Þórður Kristinsson kennslustjóri HÍ.

Nordic Historical National Accounts. Proceedings of Workshop VI, Reykjavík 19-20 September 2003

Ritið Nordic Historical National Accounts hefur að geyma 13 greinar frá ráðstefnu um sögulega þjóðhagsreikninga sem haldin var í september 2003 af Sagnfræðistofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Ritið gefur góðan þverskurð af þeim fjölbreytilegum rannsóknum sem stundaðar eru á sögulegri þróun þjóðarframleiðslu og annarra hagstærða á Norðurlöndum.

Í september 2003 var haldin ráðstefna um sögulega þjóðhagsreikninga á vegum Sagnfræðistofnunar og Hagfræðistofnunar í Háskóla Íslands. Ritið Nordic Historical National Accounts hefur að geyma 13 greinar frá ráðstefnunni og gefur góðan þverskurð af þeim fjölbreytilegum rannsóknum sem stundaðar eru á sögulegri þróun þjóðarframleiðslu og annarra hagstærða á Norðurlöndum. Fjallað er bæði almennt um framlag þjóðhagsreikninga til hagvaxtar og afmörkuð efni s.s. áætlanir á hagstærðum, rætur hagvaxtar og aðferðafræðileg álitamál. Ritið er gefið út af Sagnfræðistofnun.
Höfundar greina eru eftirtaldir hagsögufræðingar og hagfræðingar frá Norðurlöndum og Hollandi: Jan-Pieter Smits, Niels Kærgård, Ola Grytten, Peter Vikström, Jari Kauppilla, Elisabeth Bjorsvik, Johanna and Seppo Varjonen, Carl-Axel Nilsson, Magnus Lindmark, Sveinn Agnarsson, Guðmundur Jónsson, Ragnar Árnason, Jukka Jalava og Pirkko Aulin-Ahmavaara.

Helgi Skúli Kjartansson og Steinþór Heiðarsson: Framtíð handan hafs

Hér fjalla Helgi Skúli Kjartansson og Steinþór Heiðarsson um flest það sem tengist versturferðum Íslendinga til Ameríku um aldamótin 1900. Saga ferðanna er rakin og hún meðal annars borin saman við vestuferðir annarra Evrópuþjóða.

Í lögfræðiþætti Ísafoldar 1891 spyr maður hvort það hafi verið rétt af sveitarstjórn sinni að senda konu sína og börn til Ameríku “án míns vilja og vitundar, af þeirri ástæðu, að henni hafði verið lagt af sveit lítils háttar, meðan ég var að stunda atvinnu í öðrum landsfjórðungi, mér og mínum til framfæris …”
Frá þessu og ótalmörgu öðru varðandi fólksflutninga Íslendinga til Ameríku á áratugunum í kringum 1900 er sagt í bókinni. Hér er saga íslensku vesturferðanna rakin og borin saman við vesturfarasögur annarra Evrópuþjóða. Lýst er störfum umboðsmanna skipafélaga, sem störfuðu að því að hvetja fólk til vesturfarar. Rætt er um fargjöld, farartíma, umræður og löggjöf um ferðirnar. Fjöldi íslenskra vesturfara er áætlaður nákvæmlega út frá heimildum, bæði af landinu í heild og úr einstökum héruðum. Rætt er um hvers konar fólk fór einkum vestur, hvers vegna það kaus að leggja upp í svo langa ferð og hvaða afleiðingar fólksflutningarnir höfðu á samfélag Íslendinga.