Málstofa í hagsögu

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði,flytur erindi á málstofu í hagsögu miðvikudaginn 26. nóvember 2008 sem nefnist: Kjör hinna bágstöddustu á Íslandi í samanburði við önnur lönd 1994-2004
Málstofan verður í stofu 303 í Árnagarði og hefst kl. 16.00.
Allir velkomnir!

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði,flytur erindi á málstofu í hagsögu miðvikudaginn 26. nóvember 2008 sem nefnist: Kjör hinna bágstöddustu á Íslandi í samanburði við önnur lönd 1994-2004 Málstofan verður í stofu 303 í Árnagarði og hefst kl. 16.00. Allir velkomnir!

Ímyndir Íslands

INOR (Rannsóknaverkefnið Ísland og ímyndir Norðursins) og Reykjavíkurakademíunnar boða til fyrirlestrar miðvikudaginn 26. nóvember á milli kl. 20:00-22:00 í Reykjavíkurakademíunni Hringbraut 121, 4. hæð.
Að þessu sinni verða efni kvöldsins Ísland og ímyndir norðursins á 18. og 19. öld.
Fyrirlesarar kvöldsins eru Clarence E. Glad og Gylfi Gunnlaugsson. Í fyrirlestri sínum mun Clarence fjalla um klassísk áhrif á sjálfsmyndir Íslendinga á 19. öld en Gylfi mun ræða um ímynd norrænnar fornaldar í evrópskum bókmenntum á síðari hluta 18. aldar og möguleg áhrif hennar á viðhorf ís lenskra menntamanna og skálda til menningararfsins.

Ímyndir Íslands. Fyrirlestraröð INOR (Rannsóknaverkefnið Ísland og ímyndir Norðursins) og ReykjavíkurAkademíunnar, miðvikudaginn 26. nóvember 2008 kl. 20:00-22:00 í ReykjavíkurAkademíunni Hringbraut 121, 4. hæð. Ísland og ímyndir norðursins á 18. og 19. öld. Fyrirlesarar: Clarence E. Glad og Gylfi Gunnlaugsson. Í fyrirlestri sínum mun Clarence fjalla um klassísk áhrif á sjálfsmyndir Íslendinga á 19. öld en Gylfi mun ræða um ímynd norrænnar fornaldar í evrópskum bókmenntum á síðari hluta 18. aldar og möguleg áhrif hennar á viðhorf ís lenskra menntamanna og skálda til menningararfsins. Athugasemdir og viðbrögð Gottskálk Þór Jensson.

Bókabylting 18. aldar: Fræðastörf og bókaútgáfa upplýsingarmanna, eftir Aðalgeir Kristjánsson

Bókabylting 18. aldar fjallar um þá miklu grósku sem var í fræðastarfi og útgáfu bóka um íslenska menningu og náttúru á tíma upplýsingarstefnunnar. Sagt er frá þeim mönnum og samtökum sem gerðu íslenskar fornbókmenntir aðgengilegar fyrir hinn menntaða heim og veittu erlendum menningarstraumum til íslensku þjóðarinnar með fræðiritum og þýðingum á heimsbókmenntum.

Í öðrum hluta bókarinnar er gerð grein fyrir rannsóknum á náttúru og landshögum
og ber þar hæst Ferðabók Bjarna Pálssonar og Eggerts Ólafssonar sem er ómetanleg
heimild um Ísland á 18. öld. Einnig er getið rannsókna Ólafs Olaviusar og Þórðar
Thoroddi.
Á síðari hluta aldarinnar hljóp mikill vöxtur í rannsóknir á íslenskum handritum og
útgáfu þeirra og er sú saga rakin í þriðja hlutanum. Erlendir áhugamenn um íslenskan
menningararf áttu yfirleitt frumkvæðið en það voru íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn
sem helst sinntu útgáfustarfinu. Ítarlega er sagt frá mesta sagnfræðiriti þessa tímabils,
Kirkjusögu Finns biskups Jónssonar.
Aðalgeir Kristjánsson er cand. mag. Í íslenskum fræðum og starfaði lengstum sem
skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands. Eftir Aðalgeir liggja fjölmörg rit, m. a. Brynjólfur
Pétursson. Ævi og störf (1972), Endurreisn Alþingis og þjóðfundurinn (1993) og Nú heilsar þér á
Hafnaslóð. Ævir og örlög í höfuðborg Íslands 1800–1850 (1999).
Bókabylting 18. aldar er 44. bindið í Ritsafni Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands og er gefið út af Háskólaútgáfunni. Ritið er 166 blaðsíður.

Rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða

Næsta rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða, fimmtudaginn 13. nóvember kl. 20 í húsi Sögufélagsins, Fischersundi 3. Þar flytur Davíð Ólafsson M.A. í sagnfræði erindið Handrit á heimsmælikvarða.
Allir velkomnir.

Menningarsaga Íslendinga á síðari öldum býr yfir mörgum áhugaverðum þverstæðum.
Ein er sú að þrátt fyrir staðgóða vitneskju um almenna útbreiðslu læsis frá og
með miðri 18. öld og landlægann áhuga á fornsögum og kveðskap höfðu Íslendingar
allajafna mjög takmarkaðann aðgang að prentuðu veraldlegu lesefni fram á síðustu
áratugi 19. aldar. Þess í stað var vinsælu lesefni, s.s. Íslendingasögum,
riddarasögum, rímum og hverskyns kveðskap, miðlað í uppskriftum frá manni til
manns, og kynslóð til kynslóðar. Gjarnan hefur verið litið á slíka
handritamiðlun síðari alda sem arf frá miðöldum og tákn um menningarlega
stöðnun.
Í erindi sínu fjallar Davíð Ólafsson sagnfræðingur um íslenska handritamenningu
síðari alda, einkum 19. aldar, í samhengi við nýlegar rannsóknir á stöðu
handritaðrar miðlunar í Evrópu, Norður Ameríku og Asíu á tímum prentvæðingar og
samspili þessara tveggja miðla, prents og handritunar. Þessar rannsóknir benda
til að handritamenning hafi víðast hvar gegnt mikilvægu hlutverki í bóklegri
menningu árnýaldar og tilkoma prentverks á 15. og 16. öld hafi fráleitt leyst
handritun af hólmi sem farvegur sköpunar, tjáningar og miðlunar texta.
Um leið og spurningamerki eru sett við hugmyndir um sérstöðu íslenskrar
bókmenningar að þessu leiti er vikið að því sem Íslensk handrit síðari alda og
menningarsögulegar rannsóknir á framleiðslu, dreifingu og neyslu þeirra hafa
fram að færa við ört vaxandi alþjóðlegt rannsóknarsvið.

Kommúnistaávarpið

Það kannast allir við Kommúnistaávarp Marx og Engels. Ávarpið er án efa eitt áhrifamesta pólitíska rit sem út hefur komið og ábyggilega það áhrifamesta sem komið hefur út á síðustu tveimur öldum. Verkið var fyrst gefið út í byrjun árs 1848 og upp úr 1900 hafði það verið þýtt á u.þ.b. 30 tungumál. Eftir októberbyltinguna í Rússlandi árið 1917 varð ávarpið að eins konar testamenti kommúnistaflokka um heim allan. Flokkarnir vildu að Kommúnistaávarpið væri fáanlegt á viðráðanlegu verði. Verkið kom fyrst út á íslenzku árið 1924 en þýðingin sem hér er endurbirt var gerð árið 1949. Sú þýðing hefur lengi verið illfáanleg. Nú hefur það verið gefið út sem Lærdómsrit Hins íslenska bókmennntafélags með ítarlegum skýringum og tveimur inngangsköflum.

„Vofa leikur nú ljósum logum um Evrópu – vofa kommúnismans.“ Upphafsorð þessi eru greypt í vitund fólks og til þeirra er sífellt vitnað. Í þessari kröftugu stefnuyfirlýsingu voru kenningar marxismans í fyrsta skipti settar fram með skýrum hætti. Hér er fullyrt að saga mannsins sé í raun saga sífelldrar stéttarbaráttu á milli kúgara og hinna kúguðu, á milli arðræninga og hinna arðrændu. Nú stendur yfir barátta á milli hinnar nýju borgarastéttar og öreigalýðsins. Borgarastéttin byggir völd sín á töfratækjum iðnbyltingarinnar; framleiðsluhættir og samgöngur þróast og breytast með undraverðum hraða. Þegar þessar breytingar samtvinnast viðskiptaháttum hins frjálsa markaðar fær borgarastéttin ekki „lengur ráðið við anda undirdjúpanna, sem [hún] hefur vakið upp“. Við slíkar aðstæður geisar farsótt offramleiðslunnar sem steypir þjóðfélögum í hverja kreppuna á fætur annarri. Skyndilega ríkir hungursneyð og stríð, og borgarastéttin kann engin ráð til að afstýra hinni síendurteknu vá verzlunarkreppunnar. Hugsjón kommúnismans er stéttlaust þjóðfélag sem byggist á jöfnuði allra manna. Þegar öreigar allra landa hafa sameinazt og steypt allri þjóðfélagsskipan af stóli með valdi er hægt að byggja upp réttlátt og mannúðlegt samfélag. Allir vita hversu áhrifamikil þessi kenning hefur verið. Til þessa dags er hún gífurlega umdeild og hún mun sennilega aldrei hverfa af sjónarsviði pólitískrar umræðu. En líkt og Páll Björnson skrifar í nýjum, greinargóðum og fróðlegum inngangi að Kommúnistaávarpinu, þar sem rakin er saga þýðingarinnar og áhrif hennar hér á landi rædd við upphaf nýrrar aldar, þá er þetta ekki einungis pólitískt greiningarrit, heldur líka innblásið áróðursrit, augnabliksþrungið spádómsrit og ómissandi heimildarrit. Þetta er augljóslega verk sem allir ættu að kynna sér.
Upphaflegur inngangur þýðandans, Sverris Kristjánssonar sagnfræðings, er hér endurprentaður, en hann var samin í tilefni af 100 ára sögu Kommúnistaávarpsins 1948. Fyrr á árinu 2008 hefði Sverrir sjálfur orðið 100 ára hefði hann lifað.
Kommúnistaávarpið eftir Karl Marx og Friedrich Engels er 72. Lærdómsritið sem Hið íslenska bókmenntafélag gefur út. Ritstjórar Lærdómsritanna eru Björn Þorsteinsson og Ólafur Páll Jónsson. Ritið er 243 blaðsíður.

Menntun og menning í Skálholtsstifti 1620 –1730

Dagana 17.-19. október nk. verður haldin ráðstefna um menntun og menningarmál í Skálholtsstifti 1620-1730 í Skálholtsskóla.
Ráðstefnan er öllum opin.
Þátttökugjald er kr. 5000. Veitingar innifaldar. Dvalarkostnaður með fullu fæði kr. 22.000.
Áhugasamir geta haft samband við Skálholtsskóla í síma 486 8870 eða í netfang: rektor@eyjar.is

Dagskrá
Föstudagur 17. október
20:00 – setningarávarp Sigurður Sigurðarson vígslubiskup
20:15 – erindi Loftur Guttormsson, Þórunn Sigurðardóttir
Laugardagur 18. október
8:30 – árbítur
9:30 – erindi Margrét Eggertsdóttir, Sigurður Pétursson
10:20 – kaffihlé
10:45 – erindi Skúli Sæland, Vilborg Auður Ísleifsdóttir, Mjöll Snæsdóttir
12:15 – hádegismatur
14:00 – erindi Guðrún Laufey Guðmundsdóttir, Hrafn Sveinbjarnarson
14:45 – kaffihlé
15:00 – erindi Guðrún Ingólfsdóttir, Gunnar Marel Hinriksson
16:15 – pallborðsumræður Kristinn Ólason forsögumaður
18:00 – Tónlistarflutningur í umsjón Sumartónleika í Skálholti
20:00 – 17. aldar hátíðarkvöldverður
 
Sunnudagur 19. október
9:00 – árbítur
Úrdráttur úr efni erinda
 
Gísli Oddsson Skálholtsbiskup og  hrísvöndur drottins
Loftur Guttormsson
Í opinberri orðræðu markar biskupsdómur Gísla Oddssonar biskups (1631–1638) upphaf rétttrúnaðartímabils í Skálholts-biskupsdæmi, nokkuð skýrt aðgreint frá biskupsdómi föður hans, Odds Einarssonar (1592–1630). Guðfræði hafði Gísli numið í Hafnarháskóla m.a hjá Hans P. Resen sem var helsti frumkvöðull lúthersks rétttrúnaðar í Danaveldi og varð Sjálandsbiskup 1615.
Í erindinu verður lýst helstu dráttum og birtingarmyndum rétttrúnaðarorðræðu Gísla biskups. Áhersla verður lögð á að sýna hvernig hann túlkaði stóráföll samtímans – sóttir, hallæri og Tyrkjaránið – sem „hrísvönd”, verðskuldaða refsingu drottins fyrir syndsamlegt líferni og óhlýðni lýðsins. Í þessu skyni verða m.a. dregin dæmi af Tyrkjaráninu sem bréfabók biskups geymir að þessu leyti mikilvægar heimildir um.
 
„A sojourner for breeding sake”
Um Þorleif Gíslason frá Hlíðarenda og Skálholtsakademíuna á tíunda áratug 17. aldar.
Þórunn Sigurðardóttir
Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að erfiljóði Páls Vídalíns um Þorleif Gíslason frá Hlíðarenda, sem var ort og prentað í Skálholti 1696. Þorleifur andaðist í Oxford 1677, 18 ára að aldri. Páll var þá skólameistari í Skálholti og Vísi-Gísli, faðir Þorleifs, dvaldi þar hjá dóttur sinni, Guðríði biskupsfrú. Kvæðið verður annars vegar skoðað í samhengi við ætterni hins látna og hins vegar út frá þeim félagslegu og menningarlegu aðstæðum sem ríktu í umhverfi skáldsins þegar kvæðið var ort.
 
Handritamiðstöðin í Skálholti
Margrét Eggertsdóttir
Á fyrri hluta sautjándu aldar urðu íslensk handrit eftirsótt erlendis og erlendir fræðimenn fengu áhuga á að kynnast Íslendingum sem veitt gátu upplýsingar um handritin. Mörg verðmæt skinnhandrit voru send úr landi en um leið hófst uppskriftabylgja hér heima sem fólst í því að fjöldi presta og skrifandi leikmanna um land allt kepptist við að skrifa upp þessar gömlu bókmenntir. Handritamiðstöðvar urðu til í landinu og ein sú helsta var í Skálholti. Þar voru skólasveinar og skrifarar, lærðir menn og leikir, biskupsdætur og barnfóstrur. Biskup hélt skrifara sem fengu ýmis verkefni og fóru með honum í vísitasíur. Þótt mörg handrit séu varðveitt frá þessum tíma eru þau aðeins lítið brot af miklu stærri heild. Í fyrirlestrinum er ætlunin að fjalla nánar um handritamenninguna í Skálholti, einkum í tíð Brynjólfs biskups Sveinssonar. Hverjir skrifuðu fyrir biskupinn, hvað skrifuðu þeir og hvað varð um það sem þeir skrifuðu?
„Obscurus Clarum Te Vir Venerande Saluto”
Sigurður Pétursson
Hver er maðurinn sem nefnir sig Obscurus Vir (Ókunnur maður) í upphafi latínukvæðis sem ort var seint á 17. öld? Á handritadeild Landsbókasafns Íslands eru varðveitt þrjú blöð (Lbs 303 4to) frá lokum 17. aldar og er á þeim að finna tvö latínukvæði rituð með sömu hendi og uppkast að meðmælabréfi auk ýmiss konar smælkis. Annað kvæðið er samið til heiðurs Þórði Þorlákssyni biskup í Skálholti og hitt Müller amtmanni. Höfundur er ókunnur en reynt verður að nálgast hann með því að túlka og rýna í það sem á blöðunum stendur.
 
Steinboginn og hústrú Helga
Skúli Sæland
Flest þekkjum við söguna um Helgu biskupsfrú sem fyrirskipaði bryta sínum að brjóta niður steinbogann í Brúará. Sagan segir að biskup af spáð fyrir um henni yrði refsað fyrir ódæðið og að brytinn hafi drukknað í Brúará skömmu síðar. Í fyrirlestrinum verður leitast við að skoða þær þjóðsögur sem tengjast steinboganum, leggja mat á heimildir um hann og hvaða innsýn þjóðsögurnar geti hugsanlega veitt um samskipti Skálhyltinga og almúgans.
 
Hugleiðingar um menntun kvenna í kaþólskum og lútherskum sið
Vilborg Auður Ísleifsdóttir
Fjallað verður um hugtakið „menntun” og tilhögun á menntun kvenna í nunnuklaustrum, sem voru sennilega einu formlegu menntastofnanir, sem konur áttu aðgang að. Rædd verður efnahagsleg undirstaða menntunarinnar, leidd rök að því hvað stúlkum var kennt og reflapöntun Vilkins biskups skoðuð. Athugað hvað uppgröfturinn á Skriðu segir um spítalahald í klaustrum svipast um eftir konum í Kirkjuordinanzíu Kristjáns III og menntunarmöguleika kvenna eftir siðskiptin hugleidd.
 
Skálholtsskóli
Mjöll Snæsdóttir
Fornleifarannsóknir þær sem unnið hefur verið að í Skálholti 2002-2006 höfðu það heildarmarkmið að rannsaka að fullu og miðla upplýsingum um staðarhús í Skálholti eins og þau voru á 18. öld, áður en biskupstóll þar var aflagður og meðan Skálholt var enn eitt mesta menningarsetur landsins. Í erindinu verður einkum fjallað um skólabygginguna sem er austast á rannsóknarsvæðinu. Sýndar verða myndir og uppdrættir og minjar skólans skoðaðar ef veður leyfir.
 
Tónlistararfleið Þórðar biskups
Guðrún Laufey Guðmundsdóttir
Áhrif Þórðar Þorlákssonar, Skálholtsbiskups, á menntun og menningu Íslendinga náðu langt út fyrir Skálholtsstifti og lifðu áfram eftir hans dag. Þórður var tónlistarmaður og flutti hljóðfæri til landsins auk þess sem hann prentaði kennslurit í tónfræði aftan við Grallarann 1691.
Í erindinu verður litið sérstaklega á tónlistararfleifð Þórðar, en hann hlaut mjög góða menntun bæði hér heima og erlendis, þar sem honum stóð m.a. til boða framúrskarandi tónlistarkennsla, sérstök áhersla verður lögð á hvernig tónlistarkunnátta Þórðar lifði áfram með nemendum hans sem og í 18. aldar tónlistarhandritum.
 
Nokkur orð um tónlistarkennslu í Skálholti
Hrafn Sveinbjarnarson
Farið verður yfir nokkra þætti í langri en um margt óljósri sögu tónlistarkennslu í Skálholti.
 
Með hempuna á hælunum – Rýnt í sjálfshjálparbók Tyrfings Finnssonar Skálholtssveins
Guðrún Ingólfsdóttir
Tyrfingur Finnsson stundaði nám í Skálholtsskóla á árunum 1728–1735, en 1737 varð hann prestur að Stað í Súgandafirði. Árið 1740 missti Tyrfingur kjól og kall þegar hann í drykkjuskap varð uppvís að afglöpum í messugjörðinni. Lítið er vitað um hann eftir það, en hann mun hafa orðið úti á milli bæja. Hans er ekki getið í manntalinu 1762, þannig að hann er dáinn fyrir þann tíma.
Fáein handrit eru varðveitt með hendi Tyrfings en hann var listaskrifari. Eitt þessara handrita er JS 612 4to sem varpar nokkru ljósi á líf þessa lítt þekkta prests á 18. öld. Rýnt verður í handritið og kannað hvað efni þess, bygging og skreytingar segja um skrifarann og tilgang hans með handritinu.
Menntun og starf Páls Björnssonar í Selárdal
Gunnar Marel Hinriksson
Páll Björnsson í Selárdal var einna lærðastur manna á sinni tíð og átti bjarta framtíð fyrir sér er hann kom heim frá námi í Höfn að mati Þorláks Skúlasonar Hólabiskups. Í erindinu verður farið yfir hver afdrif Páls urðu á Íslandi og hvort þau voru í samræmi við menntun hans og gáfur.
 
„Ísland reiknast liggja og lafa á norðanverðum vesturhölluðum jarðarhnetti”  – Síra Jón Daðason á Arnarbæli og Gandreið hans
Silja Hrund Barkardóttir
Fjallað verður um síra Jón Daðason á Arnarbæli, en hann og fjölskylda hans voru tengd Skálholtsbiskupi og var hann m.a. aðstoðarprestur biskups. Jón var viðurkenndur sem einn af lærðustu prestum síns tíma og var talinn fjölkunnugur. Hann skrifaði heilmikið fræðirit sem kallast Gandreið, sem er sérlega forvitnilegt. Enda fjallar það um nær allt á milli himins og jarðar og er einskonar alfræðirit í anda síns tíma, þó með alþjóðlegum íslenskum blæ. Enda var Jón vel að sér í erlendum fræðum, í bland við rammíslenska og jafnvel heiðna hugmyndaspeki, og nær þó að stangast ekki á við kristna hugmyndafræði tímabilsins.

Söguganga um Þingvöll

Laugardaginn 18. október kl. 11 mun Einar Á. E. Sæmundsen fræðslufulltrúi
þjóðgarðsins fjalla um Þingvelli í síðari heimsstyrjöldinni. Einar mun rekja sögu bandaríska hermannsins Charlie Frame sem dvaldi í Camp Cornell á Þingvöllum auk þess sem minjar hernámsliðsins þar verða skoðaðar. Gangan hefst kl. 11 við fræðslumiðstöðina á Þingvöllum.
Allir eru velkomnir í gönguna.

Sögufélag Árnesinga hefur vetarstarfs sitt með þessari göngu á Þingvöllum. Það
heldur áfram fimmtudaginn 13. nóvember næstkomandi með fræðslufundi í
Húsinu á Eyrarbakka í samvinnu við Byggðasafn Árnesinga. Á Þorra og Góu
verða frekari fræðslufundir. Verða þeir auglýstir síðar.

Sjóræningjar í Norðurhöfum: Ólafur Egilsson og Tyrkjaránið í sögulegu samhengi – Alþjóðleg ráðstefna í Vestmannaeyjum helgina 17.-19. október

Árið 1627 lagði séra Ólafur Egilsson upp í langferð frá Alsír til Íslands. Hann var sendur af stað, peningalaus og allslaus, til að heimta lausnargjald fyrir samlanda sína sem rænt hafði verið í Tyrkjaráninu á Íslandi sex mánuðum fyrr. Ferðalag hans norður alla Evrópu tók níu mánuði og lá leið hans m.a. um Ítalíu, Frakkland, Holland og Danmörku. Á þessari ferð treysti hann því statt og stöðugt að Drottinn myndi leiða hann í gegnum þrautirnar. Eftir að heim kom ritaði hann reisubók, sem fram til þessa hefur aðeins verið til á íslensku.
Tyrkjaránið 1627 er almennt talið einn af skelfilegri atburðum Íslandssögunnar. Herjað var á Austfirðina, Suðurnesin og Vestmannaeyjar og talið er að hátt í fjögur hundruð Íslendingum hafi verið rænt í ránsferð alsískra sjóræningja. Siglt var með þá suður Atlantshafið uns komið var í höfn í Algeirsborg þar sem fólkið var selt á þrælamarkaði.
Í tilefni af útkomu enskrar þýðingar á Reisubók séra Ólafs Egilssonar heldur Sögusetur 1627 alþjóðlega ráðstefnu þar sem munu koma saman íslenskir og alþjóðlegir fræðimenn til að fjalla um Tyrkjaránið og skoða það í sögulegu samhengi á alþjóðavísu.

Gestir ráðstefnunnar verða m.a. alsírski rithöfundurinn og fræðimaðurinn Mohamed Magani og Robert C. Davis frá Ohio háskóla sem fjalla um Tyrkjaránið út frá fólksflutningum og hnattvæðingu. Norski fræðimaðurinn Torbjorn Odegaard flytur fyrirlestur um Norður-Afríku séða með augum tveggja skandinavískra þræla. Karl Smári Hreinsson og Adam Nichols ræða um reisu séra Ólafs Egilssonar og Þorsteinn Helgason, sagnfræðingur ásamt Steinunni Jóhannesdóttur, rithöfundi,  fjalla um ránin út frá reynslu Íslendinga.
Ráðstefnan er haldin í Alþýðuhúsinu í Vestmannaeyjum.
Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og aðgangur ókeypis. Upplýsingar um dagskrá og fyrirlesara og skráningu er að finna á www.1627.is

Málstofa í hagsögu, 15. október

Jónas Haralz, hagfræðingur, flytur erindi í málstofu um hagsögu á morgun,
miðvikudaginn 15. október, sem nefnist:
Forsendur viðreisnar
Málstofan er í stofu 303 í Árnagarði og hefst kl. 16.00.
Allir velkomnir!

Jónas Haralz, hagfræðingur, flytur erindi í málstofu um hagsögu á morgun,
miðvikudaginn 15. október, sem nefnist:
Forsendur viðreisnar
Málstofan er í stofu 303 í Árnagarði og hefst kl. 16.00.
Allir velkomnir!

Reykjavík er hýrari en margur heldur! – Söguganga um staði sem tengjast lífi lesbía og homma í miðborg Reykjavíkur

Sagnfræðingafélag Ísland býður upp á sögugöngu þar sem fjallað verður um menningu og líf samkynhneigðra Reykvíkinga allt frá lokum 19. aldar. Menning lesbía og homma í Reykjavík hefur verið hulin flestum hingað til en fjölda markverða staða er að finna í miðborginni sem tengjast lífi þeirra. Markmið göngunnar er að varpa hulunni af þessum merkilega menningarkima borgarinnar og skyggnast inn í líf samkynhneigðra Reykvíkinga. Næturlífi, pólitík, bókmenntum og tónlist sem tengjast samkynhneigðum í borginni verða gerð skil og rifjaðir upp atburðir í lífi einstakra samkynhneigðra Reykvíkinga.
Skipuleggjandi og leiðsögumaður er Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur. Haldið verður af stað frá Ingólfstorgi laugardaginn 11. október kl. 15.00 . Ferðin tekur eina og hálfa klukkustund. Að göngunni lokinni verður boðið upp á kaffi og kakó í húsakynnum Samtakanna 78 á Laugarvegi. Þar mun óvæntur gestur flytja stutt erindi og efna til skrafs. Þess má geta að í húsakynnum Samtakanna er að finna besta hinsegin-bókasafn á landinu sem inniheldur fjöldan allan af fræðibókum og úrklippum um sögu samkynhneigðar á Íslandi sem hvergi eru til annars staðar.
Að lokum langar mig að minnast á það að í næsta mánuði er í bígerð að halda kvöldfund þar sem fræðileg hugðarefni verða krufin. Óskar stjórnin eftir tillögum að umræðuefnum.

Sagnfræðingafélag Ísland býður upp á sögugöngu þar sem fjallað verður um menningu og líf samkynhneigðra Reykvíkinga allt frá lokum 19. aldar. Menning lesbía og homma í Reykjavík hefur verið hulin flestum hingað til en fjölda markverða staða er að finna í miðborginni sem tengjast lífi þeirra. Markmið göngunnar er að varpa hulunni af þessum merkilega menningarkima borgarinnar og skyggnast inn í líf samkynhneigðra Reykvíkinga. Næturlífi, pólitík, bókmenntum og tónlist sem tengjast samkynhneigðum í borginni verða gerð skil og rifjaðir upp atburðir í lífi einstakra samkynhneigðra Reykvíkinga.
 
Skipuleggjandi og leiðsögumaður er Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur.  Haldið verður af stað frá Ingólfstorgi laugardaginn 11. október kl. 15.00 .  Ferðin tekur eina og hálfa klukkustund. Að göngunni lokinni verður boðið upp á kaffi og kakó í húsakynnum Samtakanna 78 á Laugarvegi. Þar mun óvæntur gestur flytja stutt erindi og efna til skrafs. Þess má geta að í húsakynnum Samtakanna er að finna  besta hinsegin-bókasafn á landinu sem inniheldur fjöldan allan af fræðibókum og úrklippum um sögu samkynhneigðar á Íslandi sem hvergi eru til annars staðar.
 
Að lokum langar mig að minnast á það að í næsta mánuði er í bígerð að halda kvöldfund þar sem fræðileg hugðarefni verða krufin. Óskar stjórnin eftir tillögum að umræðuefnum.