Skip to content
Sunnudaginn 13. júní flytur Karl Aspelund opinn fyrirlestur á vegum Fræðaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra er ber heitið “Norðlendingar þessir standa í öllu langtum framar…”
Karl er doktorsnemi í mannfræði við Boston University í Bandaríkjunum og hefur undanfarin ár unnið að rannsókn um eðli og stöðu þjóðlegs klæðnaðar íslenskra kvenna í dag.
Fyrirlesturinn hefst kl. 14 og fer fram í kaffihúsinu Bjarmanesi á Skagaströnd.
Um erindið og fyrirlesarann:
Í erindinu mun Karl m.a. lesa úr nýfundinni ferðabók Bandaríkjamannsins S.S. Howland frá 1873 og sýnir myndir. Séstaklega verður greint frá kynnum Howlands af fólkinu á Hnausum, Stóruborg og í Bólstaðarhlíð og gefin uppskrift af skyri sem hann fékk í Víðidalstungu.
Karl er nemi til doktorsgráðu í mannfræði við Boston University í Bandaríkjunum og hefur síðastliðin þrjú ár unnið að rannsókn um eðli og stöðu þjóðlegs klæðnaðar íslenskra kvenna í dag. Hann hefur kennt fatahönnun og skyldar greinar við University of Rhode Island síðan 1996 en tók nýlega við fullri kennslustöðu í hönnun og búningasögu. Áður kenndi hann við Fataiðndeild Iðnskólans í Reykjavík og stjórnaði Iðnhönnunardeildinni þar jafnhliða því að hanna leikmyndir og búninga fyrir leikhús og kvikmyndir á Íslandi í rúman áratug. Karl er höfundur tveggja bóka: *The Design Process*, sem er notuð til kennslu í á fimmta tug háskóla í Bandaríkjunum og *Fashioning Society*, sögulegt yfirlit um stöðu hátískuhönnunar í nútímaþjóðfélagi vesturlanda.
Hann dvelur um þessar mundir sem gestafræðimaður hjá Textílsetrinu á Blönduósi.
Vorhefti Sögu kom út á dögunum. Markar ritið upphaf 48 árgangs og inniheldur fjölda áhugaverða umfjallana um söguleg efni.

Vorhefti Sögu 2010 kom út á dögunum. Elín Hafstein, fædd árið 1869 á Möðruvöllum í Hörgárdal, prýðir forsíðu tímaritsins að þessu sinni sem inniheldur fjölbreytt efni að vanda. Auk greinar Sigrúnar Sigurðardóttur um efni forsíðunnar skulu fyrst nefndar tvær greinar. Sú fyrri er eftir Davíð Ólafsson og fjallar um alþjóðlega strauma í rannsóknum á handritamenningu síðari alda og hvernig þær rannsóknir geta nýst til skilnings á íslenskri bókmenningu eftir siðaskipti. Sú síðari er eftir Rósu Magnúsdóttur og fjallar um íslenskar ferðalýsingar á Sovétríkjunum. Í nýjum bálki Sögu sem nefnist „Sögur og tíðindi“ birtast tvær greinar. Karl Aspelund skrifar um handrit að ferðabók um Ísland sem nýlega fannst í bókasafni í Bandaríkjunum, og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson segir okkur frá þjálfun bandarískra geimfara á Íslandi á 7. áratugnum. Þá heldur deila Jóns Ólafssonar og Þórs Whitehead um samskipti íslenskra kommúnista og Komintern áfram með svari Jóns í viðhorfsgrein.
Spurning Sögu varðar sögulegar rætur 26. greinar stjórnarskrárinnar, sem kveður á um vald forseta til að synja lagafrumvarpi staðfestingar. Auk þess að varpa ljósi á forsögu þessa ákvæðis – í svörum sérfræðinganna koma fram ýmsar nýjar sögulegar staðreyndir um tilurð þess – og ólíkan skilning á því í tímans rás, má ætla að svör sérfræðinganna sem hér birtast geti orðið innlegg í umræðu um endurskoðun stjórnarskrárinnar og framtíð forsetaembættisins.
Í vorhefti Sögu birtast nú 11 ritdómar, flestir um bækur sem komu út á síðasta ári. Að lokum skulu nefnd erindi sem flutt voru í tilefni veitingar doktorsnafnbótar í heiðursskyni til Ólafíu Einarsdóttur í nóvember árið 2009. Ólafía var frumkvöðull á ýmsum sviðum, meðal annars var hún fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsprófi í sagnfræði.
Sjá má efnisyfirlit hér.
Saga fæst í öllum helstu bókabúðum og jafnframt hjá útgefandum sjálfum, Sögufélaginu í Fishersundi, Reykjavík.
Félagsfundur í Sögufélaginu verður haldinn fimmtudaginn 3. júní kl. 20 í húsakynnum félagsins, Fischersundi 3.
Rædd verður bág fjárhagsstaða félagsins og mun stjórnin kynna hugmyndir sínar um breytingar á rekstri þess. Markmið breytinganna er að standa vörð um útgáfustarfsemina nú þegar hvers konar menningarstarfsemi í landinu á undir högg að sækja.
Félagsmenn eru hvattir til að mæta og taka þátt í umræðum um stöðu félagsins.
Félagsfundur verður haldinn fimmtudaginn 3. júní kl. 20 í húsakynnum Sögufélags, Fischersundi 3.
Rædd verður bág fjárhagsstaða félagsins og mun stjórnin kynna hugmyndir sínar um breytingar á rekstri þess. Markmið breytinganna er að standa vörð um útgáfustarfsemina nú þegar hvers konar menningarstarfsemi í landinu á undir högg að sækja.
Stjórn félagsins vill leggja kapp á að tryggja að Saga geti áfram komið út ásamt öðrum þeim ritum sem félagið hefur í bígerð. Vorhefti Sögu er nýkomið út og Ferðadagbækur Magnúsar Stephensen 1807-1808 fara í prentun strax eftir helgi. Annað smárit er í undirbúningi sem vonast er til að komi út á þessu ári. Þá er stefnt að talsverði útgáfu á næsta ári.
Stjórnin hvetur áhugasama félagsmenn að mæta og taka þátt í umræðum um stöðu félagsins í núverandi kreppu.
Stjórnin
Þriðjudaginn 1. júní kl. 16 verður opnuð í Kornhúsinu í Árbæjarsafni sýning um stríðsárin og áhrif styrjaldarinnar á mannlíf og menningu í Reykjavík.
Um þessar mundir eru liðin 70 ár frá því að breskur her steig á land í Reykjavík og Ísland dróst inn í hringiðu heimsviðburða. Í kjölfarið urðu gífurlegar breytingar á Íslensku samfélagi.
Sýning þessi var unnin af Minjasafni Reykjavíkur og nemendum í námskeiðinu Menningarminjar, söfn og sýningar en námskeiðið er hluti af námsleið í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Þá er sýningin gerð í samvinnu við Kvikmyndasafn Íslands.
Þann 10. maí árið 1940 hernámu Bretar Ísland og rúmu ári síðar tóku Bandaríkjamenn við hervernd á landinu. Koma herliðsins hafði í för með sér gífurlegar breytingar á íslensku samfélagi, ekki síst í Reykjavík.
Herliðið stóð fyrir ýmsum framkvæmdum og fengu margir Íslendingar vinnu við mannvirkjagerð og ýmsa þjónustu. Þá dró úr atvinnuleysi sem hafði ríkt um langan tíma og efnahagur Íslands vænkaðist verulega. Þrátt fyrir hafnbann Þjóðverja og hættu á árásum kafbáta seldu Íslendingar mikið af fiski til Bretlands en yfir 200 íslenskir sjómenn fórust í heimsstyrjöldinni síðari.
Árið 1940 voru Íslendingar um 120.000 og fjöldi íbúa í höfuðstaðnum var um 38.000 manns. Í júní 1943 töldu herir bandamanna á Íslandi um 50 þúsund manns og stærstur hluti herliðsins var í Reykjavík og nágrenni. Þegar mest lét slagaði fjöldi hermanna hátt í fjölda íslenskra karlmanna. Samskipti Íslendinga við hina erlendu heri gekk í flesta staði vel og nokkuð var um sambönd milli hermanna og íslenskra kvenna. Mörgum hermönnum þótti hins vegar dvölin á Íslandi erfið, þeir kvörtuðu undan kulda og tilbreytingaleysi.
Bæjarlífið í Reykjavík tók miklum breytingum á stríðsárunum. Herbúðir settu svip sinn á umhverfið og hermenn voru áberandi. Veitingasala, verslun og ýmis þjónusta blómstraði. Dægurmenning, skemmtanalíf og almenn neysla breyttist verulega með nýjum menningarstraumum og auknum innflutningi. Reykjavík óx og dafnaði og í lok stíðsins breyttust herskálahverfin í íbúðabyggð.
Í ljósi þessara miklu samfélagsbreytinga hefur stundum verið talað um heimsstyrjöldina síðari sem Blessað stríðið.
Laugardaginn 22. maí kl. 12:00 verður boðið upp á leiðssögn um Nesstofu á Seltjarnarnesi. Mun Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir sagnfræðingur sjá um leiðsögnina.
Allir velkomnir!
Anna Þorbjörg mun fara yfir sögu hússins frá búsetu landlækna og lyfsala í Nesi. Einnig verður sagt frá hugmyndum um uppbyggingu safnasvæðis Seltirninga í Nesi og staldrað verður við í sýningunni SAGA OG FRAMTÍÐ sem nú stendur í Nesstofu.
Þar er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum fjölmargra fornleifarannsókna sem farið hafa fram á Vestursvæðum Seltjarnarness og varpa ljósi á búsetu í Nesi frá landnámi og fram á 20. öld.
Hefst leiðsögnin kl. 12.00.
Vorhefti Skírnis 2010 er komið út. Greinar um byltinguna á Bessastöðum, tímasetningu landnáms, kynþáttahyggju á Íslandi og margt fleira athyglisvert efni.
Skírnir er 260 blaðsíður að stærð að þessu sinni og markar vorheftið 2010 upphaf 184. árgangs. Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag en ritstjóri er Halldór Guðmundsson.
Út er komið vorhefti Skírnis, tímarits Hins íslenska bókmenntafélags. Tímaritið vill leggja sitt til umræðunnar sem hafin er á Íslandi um lærdóma af bankahruninu og breytingar á stjórnskipan og stjórnarskrá, á málefnalegan og fræðilegan hátt eftir því sem kostur er. Þannig eru í þessu hefti tvær greinar sem tengjast hugmyndum um stjórnarskrá og hlutverk forsettaembættisins, skrifaðar frá ólíkum sjónarhornum. Annars vegar er það söguleg umfjöllun Svans Kristjánssonar um sambandsslitin 1944, þar sem hann ræðir ólíkan skilning ráðamanna á lýðræði og valdi sem enn setur svip sinn á stjórnmál samtímans, og hins vegar grein Guðna Th. Jóhannessonar um breytingar á forsetaembættinu í valdatíð Ólafs Ragnars Grímssonar, sem hann nefnir Byltingin á Bessastöðum og sem um sumt kallast á við niðurstöður rannsóknarnefndarinnar um siðferði og starfshætti, þó að grein Guðna sé samin áður en nefndin lýsti niðurstöðum sínum. Í Skírnismálum er svo að finna hugleiðingu Árna Björnssonar um sjálfa undirrót bankahrunsins.
Það má greina enduróm af helstu deilumálum okkar tíma í tveimur öðrum Skírnisgreinum að þessu sinni, og er önnur skrifuð frá mannfræðilegu en hin þjóðfræðilegu sjónarmiði: Kristín Loftsdóttir skrifar um kynþáttahyggju og fordóma á Íslandi, meðal annars með dæmum úr skáldskap, en Bryndís Björgvinsdóttir ræðir um átök um menningararf í samtímanum. Menningararfurinn kemur reyndar við sögu í fróðlegri samantekt Braga Þ. Ólafssonar um tillögur góðra manna um að koma íslensku handritunum í skjól í heimsstyrjöldinni síðari. Þá halda áfram skoðanaskiptin um tímasetningu landnáms á Íslandi sem Páll Theodórsson hóf í síðasta Skírni, því að starfsfélagi hans Þorsteinn Vilhjálmsson svarar honum hér. Annað andsvar birtist í Skírnismálum, þar sem Þorsteinn Þorsteinsson bregst við umfjöllun Bergljótar Kristjánsdóttur um bók hans um Sigfús Daðason og ljóðagerð hans. Þorsteinn á jafnframt aðra grein í heftinu, um kvæðabálk Halldórs Laxness um unglinginn í skóginum og stöðu hans í ljóðlist samtímans. Loks ritar Ármann Jakobsson eins konar inngang að íslenskum draugafræðum.
Í bókmenntahlutanum er að finna áður óbirt ljóð eftir þau Anton Helga Jónsson og Ingunni Snædal, en ritdómana skrifa þau Gunnþórunn Guðmundsdóttir um Þórbergsbækur Péturs Gunnarssonar, og Björn Bjarnason um bók Árna Heimis Ingólfssonar um Jón Leifs.
Myndlistarmaður Skírnis að þessu sinni er Hildur Hákonardóttir, og fjallar Hrafnhildur Schram um þrjá myndvefnaði hennar. Kápumynd er eftir Hildi Hákonardóttur en Steinholt annaðist prentun.
Helgina 21-23. maí halda Sagnfræðingafélag Íslands og Félag Þjóðfræðinga á Íslandi árlega landsbyggðaráðstefnu sína. Að þessu sinni fer ráðstefnan fram á Hornafirði. Samstarfsaðilar eru Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Háskólasetrið á Hornafirði og ReykjavíkurAkademían.
Á dagskránni eru fjölbreyttir fyrirlestrar, skoðunarferðir og fleira fróðlegt.
DAGSKRÁ
FÖSTUDAGUR 21. maí,
14:30 Lagt af stað úr Reykjavík. Rúta fer frá Árnagarði við Suðurgötu.
19:30 Kvöldverður á Þórbergssetri.
Þorbjörg Arnórsdóttir, forstöðumaður Þórbergsseturs, kynnir setrið og starfsemina þar.
Opið inn á sýningar setursins (Sýning um Þórberg Þórðarson og Sögusýning)
LAUGARDAGUR 22. maí
8-9:00 Morgunverður.
9-10:30 Málstofa á Þórbergssetri.
Julian D´Arcy: „Áfram með smjérið.“ Vandamálið við að þýða Þórberg á ensku.
Rósa Þorsteinsdóttir. Að segja hverja sögu eins og hún var. Söfnun Hallfreðar Arnar Eiríkssonar á sögum úr Suðursveit.
Már Jónsson: Rúmföt í Skaftafellssýslum um miðbik 19. aldar.
10:30-11:00 Gönguferð með Fjölni Torfasyni.
11:15 Kálfafellskirkja
Margaret Cormack: Kálfafellsstaður í máldögum og þjóðsögum.
12-13:00 Hádegisverður á Smyrlabjörgum.
Júlíana Þóra Magnúsdóttir: Þjóðsagnasafnarinn frá Kálfafellsstað. Um Torfhildi Þorsteinsdóttur Hólm og þjóðsagnasöfnun hennar.
14:00 Útifyrirlestur: Arnþór Gunnarsson: Mannlíf, náttúra og ferðamennska í sögulegu ljósi.
15: 00 Kaffi Geitafell/ Hoffell
Útifyrirlestur: Þorvarður Árnason fjallar um ljós- og kvikmyndun sína á Hoffellsjökli.
16:00 Hólmur, Laxárdal í Nesjum: Bjarni F. Einarson, fornleifafræðingur, kynnir uppgröftinn.
18:00 Komið í Nesjaskóla þar sem gist verður og síðan fer rútan inn á Höfn þar sem fólk fer í kvöldmat. Fyrir kvöldmat verður í boði að skoða Jöklasetrið á Höfn.
SUNNUDAGUR 23. maí
8:30-9.30 Morgunverður.
9:30 Björg Erlingsdóttir, menningarstjóri á Höfn, kynnir starfsemi Nýheima.
10-12:00 Málstofa í Nýheimum.
Steinunn Kristjánsdóttir: Skreiðin á Skriðu. Um tengsl milli Fljótsdalshéraðs og Austur-Skaftafellssýslu á miðöldum.
Soffía Auður Birgisdóttir: Svaðilfarir á jökli: Um tengsl milli frásagnar Sigurðar á Kvískerjum og Skugga-Baldurs eftir Sjón.
Kaffihlé.
Eiríkur Valdimarsson: Veðurspár almennings. Eftirtekt og sjálfsbjargarviðleitni kynslóðanna.
Björg Erlingsdóttir: Miðlun munnlegrar hefðar í samtímanum.
12:00 Hádegisverður
13:00 Lagt af stað frá Höfn, komið til Reykjavíkur um sexleytið.
Skráning á ráðstefnuna stendur nú yfir og geta áhugasamir skráð sig hjá Írisi Ellenberger (irisel@hi.is, gsm: 8614832). Um nokkurs konar farandráðstefnu er að ræða og gist verður í Suðursveit fyrri nóttina og á Höfn síðari nóttina.
Ráðstefnugjald er 7500 krónur og er innfalið í því rútuferð (Rvk.-Höfn-Rvk.), kvöldverður á Þórbergssetri á föstudagskvöld, hádegisverður á Smyrlabjörgum á laugardag, hressing í Geitafelli á laugardag og kaffi og meðlæti í Nýheimum á Höfn á sunnudag. Gistingu greiða ráðstefnugestir sjálfir og má sjá þá möguleika sem eru í boði hér að neðan. Tekið er fram að stúdentar geta sótt um ferðastyrk til Háskólasetursins á Hornafirði. Upphæð styrksins verður ekki minni en 5000 kr. og ekki hærri en 10000 kr. (fer eftir fjölda umsækjenda). Sótt er um ferðastyrk um leið og skráning fer fram.
Gisting: Aðfaranótt laugardags er gist á Hala og Gerði í Suðursveit og kostar nóttin 5000 kr. með morgunverði (gist er í tveggja og þriggja manna herbergjum). Aðfaranótt sunnudags er gist á Hótel Jökli/Nesjaskóla og hægt er að velja á milli eftirfarandi kosta: Eins manns herbergi 7200 kr.; tveggja manna herbergi 9000 kr.; þriggja manna herbergi 11300 kr.; svefnpokapláss með rúmum og vaski 2700 kr.; svefnpokapláss á dýnum í sal 1800 kr. Morgunverður kostar 1150 kr.
Gestir eru beðnir um að taka fram hvort þeir hyggist nýta sér gistimöguleikana og hvers konar gistingu þeir kjósi þegar þeir skrá sig.
Hagfræðideild, lagadeild, sagnfræði- og heimspekideild, stjórnmálafræðideild, félags-og mannvísindadeild og viðskiptafræðideild Háskóla Íslands bjóða til opinna umræðufunda um lærdóma af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis dagana 26 – 30. aprí nk.
Fundirnir fara fram í stofu 132 í Öskju í Háskóla Íslands og standa yfir milli kl. 12-13.30.
Markmiðið með fundum þessum er að draga fyrstu lærdóma af niðurstöðum skýrslunnar og koma með ábendingar um mikilvæg framtíðarverkefni.
Skipulag: Hver fundur fer þannig fram að flutt verða tvö eða þrjú 15 mínútna inngangserindi og í kjölfarið verða fyrirspurnir til fyrirlesara og umræður.
Dagskrá:
26. apríl kl. 12.00–13.30 í Öskju st. 132: Menning og samfélag – liggja þar rætur hrunsins?
Ávarp Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands. Málshefjendur verða Hulda Þórisdóttir lektor í stjórnmálafræði: Efnahagshrunið sem afsprengi aðstæðna og fjötrarðar skynsemi, Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði: Hrunið og hnattvæðingin og Guðmundur Hálfdánarson prófessor sagnfræði: Frjálsasta þjóð í heimi. Fundarstjóri Anna Agnarsdóttir prófessor í sagnfræði.
27. apríl kl. 12.00–13.30 í Öskju st. 132: Viðskiptalífið – bankakerfið – hagstjórnin –viðskiptahættirnir, hvað brást?
Málshefjendur verða Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði: Dýrkeypt hagstjórnarmistök í þenslu, Bjarni Frímann Karlsson lektor í reikningsskilum: Glögg mynd eða glansmynd, Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar; „Þrettán manns í ferða- og skemmtanadeild, en einn í regluvörslu“.
Fundarstjóri: Vilhjálmur Bjarnason lektor.
28. apríl kl. 12.00–13.30 Öskju st. 132: Lögin, eftirlitið og ábyrgðin!
Málshefjendur verða Eiríkur Jónsson lektor í lagadeild: Eftirlitsstofnanir fjármálakerfisins og Þórður Bogason hrl. og stundakennari lagadeild: Ráðherraábyrgð.
Fundarstjóri Björg Thorarensen prófessor í lögum og deildarforseti
29. apríl kl. 12.00–13.30 í Öskju stofu 132: Höfum við vanrækt ríkið? Ábyrgð stjórnvalda
Málshefjendur verða Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði og sviðsforseti: Ábyrgð stjórnmálakerfisins? og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir lektor í stjórnsýslufræðum: Stóð til hjá stjórnvöldum að rækta ríkið?
Fundarstjóri Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði
30. apríl kl. 12.00–13.30 Öskju st. 132: Gagnrýnin umræða; hlutverk háskóla og fjölmiðla
Málshefjendur verða Vilhjálmur Árnason prófessor: Sýnd og reynd; um mikilvægi málefnalegrar rökræðu í lýðræðissamfélagi, Stefán Ólafsson prófessor: Sótt að sannleikanum – Um tíðaranda hroka, siðleysis og hótana og Valgerður A. Jóhannsdóttir verkefnisstjóri og aðjúnkt í blaða- og fréttamennsku: Góðir fjölmiðlar kosta sitt, en vondir kosta okkur meira. Fundarstjóri Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði.
Á morgun, laugardaginn 24. apríl fer fram málþing um sögu Vatnsleysustrandarhrepps / Sveitarfélagsins Voga sem Minjafélag Vatnsleysustrandarhrepps stendur fyrir í samstarfi við Sveitarfélagið Voga. Tilefnið er afmæli sveitarfélagsins (sem er 5 ára, 120 ára eða 740 ára, eftir því hvernig er talið).
Málþingið fer fram í Tjarnarsalnum við Stóra-Vogaskóla í Vogum og hefst kl. 10 og stendur fram eftir degi.
Málþing um sögu Vatnsleysustrandarhrepps / Sveitarfélagsins Voga
á vegum Minjafélags Vatnsleysustrandarhrepps í samstarfi við Sveitarfélagið Voga
Dagskrá:
9:30 Húsið opnar.
10.00 Opnun málþings (stjórn Minjafélagsins, bæjarstjóri o.fl.)
10:15 Jóhanna Guðmundsdóttir – Hlutverk hreppa og hreppstjóra fyrr á öldum
10:35 Viktor Guðmundsson: Útilegumenn við Selsvöllu 1703
10:50 Ómar Smári Ármannsson: Sel og seljabúskapur
11:15 Loftur Guttormsson: Skólastofnanir “suður með sjó” 1850-1880 með sérstöku tilliti til Vatnsleysustrandarhrepps.
11:45 Hvernig var að vera barn
a) um 1935? Guðrún Lovísa Magnúsdóttir (Lúlla) með hjálp Höllu Jónu dóttur sinnar.
b) um 1960? Særún Jónsdóttir og Þórdís Símonardóttir.
c) um 1985? Jóhanna Lovísa Jóhannsdóttir og Harpa Rós Drzymkowska.
12:00 Hádegisverður (súpa og brauð) og spjall.
12:30 Gönguferð með leiðsögn um Voga, að skoða fornminjar og sögufræga staði (Stóru-Vogarúst, höfn o.fl.)
13:30 Kvikmynd: Netaróður úr Vogum ca 1958. Myndataka. Þórir Davíðsson.
13.50 Inga í Hvammi: Hvernig var að flytja hingað í Voga úr Borgarfirði um 1955?
14:00 Haukur Aðalsteinsson: Árabátaútgerð í Vatnsleysustrandarhreppi á 19. öld.
14: 40 Guðjón Kristinsson, hleðslumeistari: Sjóbúðir endurgerð þeirra sbr. Ósvör við Bolungavík og hugmynd Guðjóns um að reisa eina slíka hér í sveit.
15:00 Skoðunarferð (á eigin bílum) um Vatnsleysuströnd, stoppað á völdum stöðum, t.d. við grunn elsta skólahússins, Halakot eða Neðri-Brunnastaði og Kálfatjörn (Kirkjan, Skjaldbreið, Norðurkotsskóli og e.t.v. verbúðarústir, hópurinn gæti skipt sér eftir áhuga).
16:00 Málþinginu slitið á bílastæðinu að Kálfatjörn
Fundarstjóri: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Í hléum verða sýndar á tjaldi ljósmyndir úr myndasafni Minjafélagsins frá miðbiki 20. aldar sem Sesselja Guðmundsdóttir safnaði og valdi
Laugardaginn 24. apríl 2010 kl. 10:00- 16:00 býður Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra öllum áhugamönnum um sögu og samfélagsmál til síns fyrsta málþings, “Nokkur brot úr sögu samskipta Íslands við erlend ríki. Til upprifjunar fyrir pólitíska umræðu”. Fer málþingið fram í félagsheimilinu Fellsborg á Skagaströnd.
Málþingið er haldið í tengslum við formlega stofnun Fræðaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra föstudaginn 23. apríl. Í tilefni af því að 150 ár eru liðin frá fæðingu Valtýs Guðmundssonar á Skagaströnd eru Sveitarfélagið Skagaströnd og bókaútgáfan Urður þátttakendur í málþinginu.
Dagskrá málþingsins:
10:00-10:05
Oddný Eir Ævarsdóttir fundarstjóri setur málþingið
10:00-10:20
Lára Magnúsardóttir
Kirkjan og önnur óvænt erlend ríki sem Ísland hefur tengst
10:20-10:40
Helgi Þorláksson
Samskipti Íslendinga og Norðmanna á miðöldum og hugmyndir um inngöngu í ES
10:40-11:00
Anna Agnarsdóttir
Ásælni í Ísland á 18. öld: Ráðabrugg í Versölum og London
11:00 -11:20
Jón Þ. Þór
Íslandspólitík Dana um aldamótin 1900
11:20-11:40
Ragnheiður Kristjánsdóttir
Kommúnismi á íslensku
11:40-12:00
Unnur Birna Karlsdóttir
Ísland á 20. og 21. öld og alþjóðlegt samstarf um umhverfisvernd
12:00- 13:00
Hlé
Súpa í Bjarmanesi
13:00-14:00
Ármann Jakobsson stýrir almennum umræðum
Hvaða ljósi varpar sagan á úrlausnarefni samtímans?
Hagnýtar upplýsingar um málþing þetta og fleira má nálgast hér.
Nánari upplýsingar veitir Lára Magnúsardóttir forstöðumaður Fræðaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra, sími 861 72 31. Skráning fer fram hér.