Aðventan í Þjóðminjasafni Íslands

Það verður líf og fjör í Þjóðminjasafninu á aðventunni. Jólasveinarnir
heimsækja safnið að vanda, á sýningunni Sérkenni sveinanna býðst börnum að
snerta gripi tengda jólasveinunum, Grýla og Leppalúði kíkja í heimsókn,
fjölskyldum býðst að fara í sérstakan jólaratleik og fyrirlestrar verða um
íslenska jólasiði á íslensku og ensku. Að auki verður opnað sérstakt
vefsvæði á heimasíðu safnsins.
Allir eru hjartanlega velkominir.

Fyrsta sunnudag í aðventu, 28. nóvember, verður nýtt jólavefsvæði opnað á
heimasíðu Þjóðminjasafnsins. Þar má finna ýmsan fróðleik um gamla
jólasiði, jólasveina og aðrar vættir, auk uppskrifta sem eru ómissandi í
jólaundirbúninginn:  www.thjodminjasafn.is/jol
Jóladagskrá Þjóðminjasafnsins hefst með fjölskyldudagskrá sunnudaginn 5.
desember. Grýla, Leppalúði og Jólakötturinn munu kíkja í heimsókn og
Pollapönkararnir  munu spila fyrir krakkana. Þá verður opnuð sýningin
Sérkenni sveinanna en þar má sjá jólahús með gripum sem tengjast
jólasveinunum. Gripina má snerta og geta þeir hjálpað börnum að skilja
nöfn jólasveinanna betur. Í forsal á 3. hæð safnsins er jafnframt hægt að
skoða gömul jólatré frá ýmsum tímum.
Koma jólasveinanna
Þetta er þó aðeins upphafið á hinni líflegu jóladagskrá Þjóðminjasafnsins.
Jólasveinarnir munu koma í safnið daglega frá og með 12. desember líkt og
undanfarin ár. Jóladagskrá Þjóðminjasafnsins hefur áunnið sér hefð og með
árunum eignast fjölmarga aðdáendur í hópi yngri gesta safnsins.
Ókeypis er að hitta jólasveinana og að skoða sýninguna Sérkenni sveinanna
allan desember, en að auki er frítt inn á safnið á miðvikudögum og ókeypis
aðgangur fyrir börn undir 18 ára aldri alla daga.
Fjölskyldur geta farið í hina sígildu ratleiki Þjóðminjasafnsins.
Jólaleikurinn heitir Hvar er jólakötturinn? og snýst um að finna litlu
jólakettina sem hafa verið faldir innan um safngripina. Fleiri
fjölskylduleikir eru í boði í afgreiðslu safnsins.
Safnbúðin er full af fallegri jólavöru, þjóðlegum leikföngum, vönduðum
minjagripum og bókum.
Gott getur verið að hvíla lúin bein eftir heimsókn á safnið og gæða sér á
óviðjafnanlegum veitingum Kaffitárs.
12. desember kl. 13:00 munu Helga Einarsdóttir og Steinunn Guðmundardóttir
þjóðfræðingar og safnkennarar Þjóðminjasafnsins fjalla um gamla og nýja
jólasiði og uppruna þeirra. Þetta verður sannkölluð fjölskylduskemmtun og
verður gestum boðið að stíga dans kringum jólatré að erindinu loknu.
19. desember kl. 13:00 mun Terry Gunnell þjóðfræðingur fjalla um íslenska
jólasiði og kynna íslensku jólasveinana. Fyrirlesturinn  er á ensku og er
kynntur í samstarfi við The English Speaking Union.
Allar nánari upplýsingar um jóladagskrá Þjóðminjasafnsins:
helga.vollertsen@thjodminjasafn.is eða í síma 5302222/8242039.