Málþing í minningu Konráðs Gíslasonar

Í júlí voru 200 ár liðin frá fæðingu Konráðs Gíslasonar málfræðings og Fjölnismanns. Íslenska málfræðifélagið og Málvísindastofnun Háskóla Íslands efna af því tilefni til málþings laugardaginn 11. október næstkomandi um ævi og störf Konráðs og fræðileg viðfangsefni honum tengd. Málþingið verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðunnar milli kl. 11:00 og 16:00.

Dagskrá
11.00
Ráðstefnan sett
11.15–11.45
Guðrún Kvaran:
Orðabókarmaðurinn Konráð Gíslason
11.45–12.15
Margrét Jónsdóttir:
Erlend orð um mat og góðgæti og annað því tengt í orðabók Konráðs
hádegishlé
13.00–13.30
Kjartan Ottosson:
Konráð Gíslason — málfræðingur og hreintungufrömuður
13.30–14.00
Gunnlaugur Ingólfsson:
Um stafsetningarhugmyndir Konráðs Gíslasonar
14.00–14.30
Gunnar Karlsson:
Þjóðernishyggja og stafsetningarstefna
 Kaffihlé
15.00–15.30
Jörgen Pind:
Kaupmannahöfn og Hafnarháskóli á tímum Konráðs Gíslasonar
15.30–16.00
Sverrir Tómasson:
Frá upphafi íslenskrar textafræði: útgáfur Konráðs Gíslasonar á íslenskum fornritum
Allir velkomnir

Uppbrot hugmyndakerfis: Endurmótun íslenskrar utanríkisstefnu 1991-2007 – Málþing á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands

Föstudaginn 10. október milli kl. 14 og 17 í sal 3 í Háskólabíó
Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands gaf út bókina “Uppbrot hugmyndakerfis: Endurmótun íslenskrar utanríkisstefnu 1991-2007” í ágúst sl. Um er að ræða greinasafn í ritstjórn Vals Ingimundarsonar og er bókin gefin út í samstarfi við Hið íslenska bókmenntafélag. Í tilefni af útgáfu bókarinnar verður haldið opið málþing föstudaginn 10. október þar sem höfundar kynna greinar sínar, en þær varða allar breytingar á utanríkisstefnu íslenska ríkisins frá lokum kalda stríðsins.

Silja Bára Ómarsdóttir. Setning málþings
       
Valur Ingimundarson. Öryggissamfélag Íslands og Bandaríkjanna, 1991-2006
Baldur Þórhallsson. Evrópustefna íslenskra stjórnvalda: Stefnumótun, átök og afleiðingar
Steinunn Hrafnsdóttir. Stefna Íslands gagnvart alþjóðlegum frjálsum félagasamtökum
Gylfi Zoega. Utanríkisviðskipti Íslands: Stofnanaumhverfi, frumkvöðlakraftur og vægi grundvallaratvinnuvega        
Sigurður Jóhannesson. Stóriðja og hlutverk hins opinbera: Hver er ávinningur Íslendinga af fyrirgreiðslu við erlenda fjárfesta?
Pallborðsumræður
Kaffihlé
Pétur Dam Leifsson. Framkvæmd fyrirmæla Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í íslenskum rétti
Auður H. Ingólfsdóttir. Umhverfismál og utanríkisstefna: Stefna Íslands í samningum um loftslagsbreytingar
Gunnar Páll Baldvinsson. Friðargæsla herlausrar þjóðar: Stefnumótun, sjálfsmynd og orðræða
Anna Karlsdóttir. Alþjóðlegt ferðaflæði, íslensk ferðamálastefna og eftirlit með ferðamönnum.
       
Pallborðsumræður
Málþingið fer fram á íslensku og er opið öllum. Aðgangur ókeypis.
Alþjóðamálastofnun og
Rannsóknasetur um smáríki
Háskóli Íslands
S: 525 5262
ams@hi.is
www.hi.is/ams/

Arfur Tómasar postula og kristindómur á krossgötum

Rannsóknarkvöld Félags íslenskra fræða í húsi Sögufélags við Fischersund á fimmtudag klukkan 8.
Fyrirlesari er Jón Ma. Ásgeirsson prófessor við Háskóla Íslands
Í fyrirlestrinum verður fjallað um nokkra þætti Tómasarkristni í samhengi bókarinnar Frá Sýrlandi til Íslands: Arfur Tómasar postula (Reykjavík, 2007) eftir þá Jón Ma. Ásgeirsson og Þórð Inga Guðjónsson.
Allir velkomnir.

Þrjú rit tileinkuð Tómasi postula frá fyrstu og fram á þriðju öld, Tómasarguðspjall, Tómasarkver og Tómasarsaga, eru talin hafa myndað fornan meið á meðal frumkristinna bókmennta. Tvö fyrst
töldu ritin urðu fyrst þekkt nú á dögum með fundi Nag Hammadi handritanna í Egyptalandi árið 1945 en Tómasarsaga, og þá einkum latneskar gerðir hennar frá fjórðu öld, var þekkt í þýðingum á ýmsar tungur allt til þessa dags.
Gerð verður grein fyrir uppruna og útbreiðslu þessara rita og þá ekki síst örlögum þeirra tveggja fyrstu en þau virðast meira og minna hverfa af sjónarsviðinu undir lok fjórðu aldar. Á þeim sama tíma, eða þegar kristindómurinn tók að njóta verndar rómverska keisaradæmisins og miðstýrt kirkjuvald varð að veruleika, var fyrst markvisst unnið að því að bannfæra fjölmargar hreyfingar sem áttu sér rætur á fyrstu öldum kristindómsins og rit þeirra voru bönnuð og brennd.
Fyrst á fjórðu öld varð til málamiðlun á meðal nokkurra annarra hreyfinga og niðurstöður hennar innsiglaðar í samkomulagi um nokkurs konar safn rita sem þekkt er síðan sem hið Nýja testamenti. Þessi málamiðlun rómversku kirkjunnar hefir vissulega verið umdeild á meðal annarra kirkjudeilda oft síðan og nú á dögum leyfa leikir og lærðir sér að efast um gildi hennar og réttlæti almennt of yfirleitt.
Ágreiningur um frumkristnar hreyfingar og ritverk þeirra á sér fyrst of
fremst hugmyndafræðilegar orsakir en snemma var tekist á um túlkun og merkingu orða og verka Jesú frá Nasaret. Í fyrirlestrinum verður fjallað um nokkrar helstu forsendur hugmyndafræði Tómasarkristni: hvaðan sækja ritin hugmyndafræði sína, hvaða áberandi breytingum tók hún í sögu þessara þriggja rita og hvaða breytingar urðu á Tómasarsögu í latneskri útgáfu hennar, Passio, sem er fyrirmynd hinnar íslensku þýðingar á Tómas sögu
postula?
Hugmyndafræði Tómasarkristni verður jafnframt sett í samhengi rannsóknarsögu ritanna frá miðöldum til upplýsingar og frá átjándu öld til nútímans. Spurt verður hvort þær áherslur sem fram koma í spakmælum og visku eigi síður erindi til nútímans heldur en hugmyndir um holdlega upprisu eða afleiddar túlkanir á þeirri fornu hugmynd sem hvergi er að finna í hefðum tileinkuðum meistaranum frá Nasaret.

Icelandscape: Íslendingar til forna og evrópski landslagssáttmálinn

Árlegur Haustfundur Félags landfræðinga verður haldinn í Silfursal Hótels Borgar kl. 20–22, fimmtudaginn 9. október. Í ár verður fjallað um landslag og mun Kenneth Olwig, prófessor við sænska Landbúnaðarháskólann, flytja erindi.
Ágrip: Á fornri norrænni tungu, og germönskum málum almennt, vísar orðhlutinn land í hugtakinu landslag til svæðis sem lýtur eigin stjórn. Eftir Endurreisnartímabilið, og með uppgangi miðstýrðra ríkja, breyttist merking orðsins land. Það þýddi þá afmarkaðar hluti af yfirborði jarðar, með landslagi sem hægt var að taka yfir eða leggja undir sig. Með evrópska landslagssáttmálanum er merking orðsins land í hugtakinu landslag að færast nær upprunalegri merkingu í fornum norrænum málum. Þetta gæti skipt sköpum í viðhorfi fólks til landslags og við skipulagningu þess. Jafnvel þó að Íslendingar hafi ekki skrifað undir sáttmálann er vel þess virði að rýna hann ítarlega, þar sem hugmyndir sem þar koma fram eiga við í íslensku samhengi, bæði á og í landinu.
Fundurinn er öllum opinn. Kaffi í boði félagsins, ókeypis fyrir félagsmenn, en 2.000 kr. fyrir aðra.

Kenneth Olwig er prófessor í landslagsskipulagi við landslagsarkitektadeild sænska Landbúnaðarháskólans (SLU) í janúar 2002. Sérsvið hans eru kenningar um landslag og sögu landslagshugtaksins. Erindi sitt á haustfundinum kallar hann:
Meira má finna um Kenneth Olwig og störf hans á síðunni:  www.ltj.slu.se/lar/olwig_kenneth_eng.ht

Málstofa um hagsögu: Lén, lénsmenn og reikningshald lénsmanna frá 16. öld til 1662

Kristjana Kristinsdóttir, sviðsstjóri í Þjóðskjalasafni Íslands, flytur erindi í málstofu um hagsögu í dag, miðvikudaginn 1. október, sem nefnist:
Lén, lénsmenn og reikningshald lénsmanna frá 16. öld til 1662
Málstofan er haldin í stofu 303 í Árnagarði og hefst kl. 16.00.

Málstofa í hagsögu: Lén, lénsmenn og reikningshald lénsmanna frá 16. öld til 1662
Kristjana Kristinsdóttir, sviðsstjóri í Þjóðskjalasafni Íslands, flytur erindi í málstofu um hagsögu í dag,  miðvikudaginn 1. október, sem nefnist:
Lén, lénsmenn og reikningshald lénsmanna frá 16. öld til 1662
Málstofan er haldin í stofu 303 í Árnagarði og hefst kl. 16.00.

Málþing um sögu Norðurlands á átjándu og nítjándu öld

Félag um átjándu aldar fræði og Sagnfræðingafélag Akureyrar halda málþing á Akureyri laugardaginn 4. október nk.. Málþingið fer fram í sal Akureyrarakademíunnar, Þórunnarstræti 99. Það hefst kl. 13.00 og lýkur um kl. 17.00.

Dagskrá
Að loknu setningarávarpi Björns Vigfússonar, tilsjónarmanns Sagnfræðingafélags Akureyrar, og ávarpi Þóru Kristjánsdóttur, formanns Félags um átjándu aldar fræði, verða flutt eftirtalin fimm erindi:
Móðuharðindin í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu
Björn Teitsson, sagnfræðingur
Fæðing kaupstaðar
Jón Hjaltason, sagnfræðingur
Um sagnaþætti
Jón Torfason, skjalavörður
Kaffihlé
Átthagaást
í norðlenskum alþýðukveðskap á nítjándu öld
Bragi Guðmundsson, prófessor við Háskólann á Akureyri
Skyggnst í fáein handskrifuð þingeysk blöð
Eiríkur Þormóðsson, handritavörður
Fundarstjóri: Björn Vigfússon
Flutningur hvers erindis tekur um 20 mínútur. Um 10 mínútur gefast til fyrirspurna og umræðna að loknu hverju erindi.
Ágrip erinda liggja frammi á málþinginu. Þau verða síðar aðgengileg á heimasíðu félagsins: www.akademia.is/18.oldin

Tónlistarlíf í Sovétríkjunum

Í dag fimmtudaginn 2. október kl. 13:20 mun Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur flytja fyrirlestur um tónlistarlíf í Sovétríkjunum og sérstaklega nýsköpun tónskálda á borð við Dmítríj Sjostakovitsj og Sergei Prokofieff.
Kommúnistaflokkurinn lagði skýrar línur hvað varðar músíkalska fagurfræði og ítrekaði þær oft á sérstökum tónlistarþingum þar sem sett var ofaní við þau tónskáld sem höfðu villst af vegi. Sjostakovitsj fór oft sínar eigin leiðir og hlaut skammir fyrir. Athyglisvert er að skoða hvernig tónlist hans er á skjön við opinbera stefnu og hafa verk hans oft verið túlkuð sem e.k. músíkalskt andóf. Þó hafa sprottið miklar deilur um þetta atriði hin seinni ár og sýnist sitt hverjum.
Erindið verður haldið í stofu 422 í Árnagarði, Háskóla Íslands.

Í dag fimmtudaginn 2. október kl. 13:20 mun Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur flytja fyrirlestur um tónlistarlíf í Sovétríkjunum og sérstaklega nýsköpun tónskálda á borð við Dmítríj Sjostakovitsj og Sergei Prokofieff.
Kommúnistaflokkurinn lagði skýrar línur hvað varðar músíkalska fagurfræði og ítrekaði þær oft á sérstökum tónlistarþingum þar sem sett var ofaní við þau tónskáld sem höfðu villst af vegi. Sjostakovitsj fór oft sínar eigin leiðir og hlaut skammir fyrir. Athyglisvert er að skoða hvernig tónlist hans er á skjön við opinbera stefnu og hafa verk hans oft verið túlkuð sem e.k. músíkalskt andóf.  Þó hafa sprottið miklar deilur um þetta atriði hin seinni ár og sýnist sitt hverjum.
Erindið verður haldið í stofu 422 í Árnagarði, Háskóla Íslands.

Uppbrot hugmyndakerfis: Endurmótun íslenskrar utanríkisstefnu 1991-2007 í ritstjórn Vals Ingimundarsonar

Út er komið ritið Uppbrot hugmyndakerfis: Endurmótun íslenskrar utanríkisstefnu 1991-2007 í ritstjórn Vals Ingimundarsonar. Í þessari bók er fjallað um þróun íslenskrar utanríkisstefnu og ýmsar breytingar sem orðið hafa á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi á tímabilinu 1991-2007. Að vissu leyti er þessi nýja bók sjálfstætt framhald af ritverki Péturs Thorsteinssonar sendiherra, “Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál – Sögulegt yfirlit”, sem Bókmenntafélagið gaf út 1992. Hér er um að ræða samvinnu 13 fræðimanna á sviði stjórnmálafræði, sagnfræði, lögfræði, landfræði, mannfræði, félagsráðgjafar og hagfræði. Sjónum er sérstaklega beint að: samskiptum Íslands og Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum, þátttöku Íslands í Evrópusamrunanum, stefnu Íslands í friðargæslu og þróunarmálum, þeim breytingum sem orðið hafa á utanríkisviðskiptum Íslendinga og afstöðu stjórnvalda til erlendra fjárfestinga í stóriðju, aðild Íslands að samningum um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, samningum um fiskveiðistjórnun vegna veiða úr flökkustofnum og á alþjóðlegum hafsvæðum, skuldbindingum Íslands vegna mannréttindasamninga og framkvæmd fyrirmæla Öryggisráðsins í tengslum við valdheimildir, stefnu stjórnvalda gagnvart frjálsum félagasamtökum og opinberri stefnu í ferðamálum og ferðaflæði á alþjóðavettvangi.

Íslensk utanríkismál hafa verið í stöðugri mótun og endurmótun frá lokum kalda stríðsins. Eftir þá ákvörðun Bandaríkjastjórnar að hverfa með herlið sitt frá Íslandi varð endanlega ljóst að Ísland hefði misst fyrra hernaðarvægi. Samskiptin við Evrópu vega þyngra í utanríkisstefnunni með aðildinni að EES-samningnum og Schengen samstarfinu. Brugðist hefur við nýju hlutverki NATO sem hernaðarbandalagi á heimsvísu með þátttöku í friðargæslu og aukin áhersla er lögð á þróunaraðstoð. Þá hafa íslensk stjórnvöld þurft að laga sig að breyttu starfi hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði umhverfismála, mannréttinda, þróunaraðstoðar og öryggismála. Loks hefur verið tekist á um ýmis alþjóðamál í innanlandspólitísku samhengi, eins og t.d. Evrópska efnahagssvæðið, Íraksstríðið og Kyoto-samninginn.
Valur Ingimundarson er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Greinar í bókinni eiga: Anna Karlsdóttir, Auður H. Ingólfsdóttir, Áslaug Ásgeirsdóttir, Baldur Þórhallsson, Björg Thorarensen, Gunnar Páll Baldvinsson, Gylfi Zoega, Helga Björnsdóttir, Kristín Loftsdóttir, Pétur Dam Leifsson, Sigurður Jóhannesson, Steinunn Hrafnsdóttir og Valur Ingimundarson.
Ritið er 417 blaðsíður og útgefendur eru Hið íslenska bókmenntafélag og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.

Minnt er á hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins á morgun þriðjudag, 30.september í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins frá kl. 12:05 til 12:55

Að þessu sinni flytur Guðni Th. Jóhannesson erindi sem nefnist: „Með því að óttast má …“ – Ástæður símhlerana í kalda stríðinu. Fyrirlesturinn er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands “Hvað er að óttast?”
Í erindinu verða rök yfirvalda fyrir hlerunum hverju sinni vegin og metin. Rakið verður hvað réð því að ákveðið var að hlera hjá sumum sósíalistum og/eða andstæðingum Bandaríkjahers hér á landi, en ekki öðrum. Sýnt verður fram á þann greinarmun sem gera verður á hinum sérstöku ástæðum sem réðu því í hvert skipti að yfirvöld ákváðu að grípa til þessara aðgerða, og hins almenna ótta þeirra við sósíalista og stefnu þeirra. Minnst verður á þann skort á heimildum sem torveldar allar rannsóknir á sögu símhlerana í kalda stríðinu og að lokum verður rætt um „dóm sögunnar“ í þessu máli.
Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

Að þessu sinni flytur Guðni Th. Jóhannesson erindi sem nefnist: „Með því að óttast má …“ – Ástæður símhlerana í kalda stríðinu. Fyrirlesturinn er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands “Hvað er að óttast?”
Í erindinu verða rök yfirvalda fyrir hlerunum hverju sinni vegin og metin. Rakið verður hvað réð því að ákveðið var að hlera hjá sumum sósíalistum og/eða andstæðingum Bandaríkjahers hér á landi, en ekki öðrum. Sýnt verður fram á þann greinarmun sem gera verður á hinum sérstöku ástæðum sem réðu því í hvert skipti að yfirvöld ákváðu að grípa til þessara aðgerða, og hins almenna ótta þeirra við sósíalista og stefnu þeirra. Minnst verður á þann skort á heimildum sem torveldar allar rannsóknir á sögu símhlerana í kalda stríðinu og að lokum verður rætt um „dóm sögunnar“ í þessu máli.
Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

Óvænt áfall eða fyrirsjáanleg tímamót? Brottför Bandaríkjahers frá Íslandi: Aðdragandi og viðbrögð

Þriðjudaginn 30. september heldur Gunnar Þór Bjarnason fyrirlestur um bók sína Óvænt áfall eða fyrirsjáanleg tímamót? Brottför Bandaríkjahers frá Íslandi: Aðdragandi og viðbrögð, sem kom út fyrr í mánuðinum á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Háskólaútgáfunnar. Að loknu erindi Gunnars tekur Styrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, við og heldur erindi um bókina og umfjöllunarefni hennar. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, stýrir fundinum.
Fyrirlesturinn er á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og verður haldinn þriðjudaginn 30. september milli kl. 17 og 18 í stofu 132 í Öskju.
Fyrirlesturinn er opinn öllum og er aðgangur ókeypis.

Bókin fjallar um málefni sem hefur verið mikið á döfinni síðustu misserin, þ.e. samskiptin við Bandaríkin í öryggis- og varnarmálum. Hvers vegna ákvað Bandaríkjastjórn að kalla heim varnarliðið á Keflavíkurvelli? Væri kannski nær að spyrja af hverju herinn var ekki löngu farinn? Hvers vegna voru íslenskir ráðamenn mjög ósáttir við ákvörðun Bandaríkjastjórnar? Voru Íslendingar illa búnir undir brottför hersins? Höfðu íslensk stjórnvöld sofið á verðinum og ekki tekið mark á vísbendingum um að brotthvarf varnarliðsins væri yfirvofandi? Hvernig hefur Íslendingum gengið að bregðast við brottför hersins? Eru varnir Íslands nægilega vel tryggðar? Getur Landhelgisgæslan sinnt þeim verkefnum sem þyrlur Bandaríkjahers gerðu? Hvers vegna ákváðu stjórnvöld að koma á fót Varnarmálastofnun? Ættu Íslendingar að semja um öryggi og varnir við Evrópusambandið? Hverjir eru hinir nýju hornsteinar íslenskra öryggis- og varnarmála?
Höfundurinn Gunnar Þór Bjarnason er BA í sagnfræði og þýsku frá Háskóla Íslands. Hann stundaði framhaldsnám í Þýskalandi og hefur lokið MA-prófi í alþjóðasamskiptum frá HÍ. Gunnar hefur kennt við framhaldsskólann í Breiðholti um árabil, og var stundakennari við HÍ í áratug. Hann hefur skrifað greinar um sagnfræði í blöð og tímarit og er höfundur kennslubókar um sögu 20. aldar.
Sjá einnig á http://www.hi.is/ams
ATH. Bóksala stúdenta gefur 20% afslátt af bókinni þriðjudaginn 30. september og miðvikudaginn 1. október.