Saga Íslands IX. bindi

Í þessu bindi er hin almenna saga rakin frá lokum 18. aldar til ársins 1874. Greint er frá endalokum Alþingis og stofnun Landsyfirréttar, en þessir atburðir, ásamt því að biskupsstólarnir í Skálholti og á Hólum eru lagðir niður, marka upphaf nútímaríkis á Íslandi. Sögunni lýkur síðan við þjóðhátíðarárið 1874. Bókin skiptist í þrjá meginkafla.

Höfundur fyrsta meginkaflans er Anna Agnarsdóttir prófessor og nefnist hann Aldahvörf og umbrotatímar. Þar er gerð grein fyrir áðurnefndum tímamótum og í framhaldi af því stöðu Íslands í Napóleonsstyrjöldunum 1800-1814, en þá lendir Ísland á áhrifasvæði Bretlands og tengslin við Danmörku slakna. Ríkisgjaldþrot verður 1813, verðbólga og vöruskortur fylgir, skipt er um mynt. Einstakur atburður verður árið 1809 þegar ævintýramaðurinn Jörgen Jörgensen gerir byltingu á Íslandi með fulltingi enskra kaupmanna og lýsir yfir sjálfstæði Íslands. Loks er greint frá skólamálum, þar á meðal latínuskólanum á Bessastöðum og Hausastaðastóla, og viðgangi Reykjavíkur sem höfuðstaðar Íslands.
Næsti meginkafli er eftir Gunnar Karlsson prófessor og ber hann heitið upphafsskeið þjóðríkismyndunar. Þar er gerð grein fyrir íbúum landsins, atvinnuvegum og þjóðarhag. Þessu næst er stjórnmálasagan rakin, en þar verða þáttaskil um 1830 þegar pólitísk vakning verður meðal Hafnar-Íslendinga fyrir áhrif júlíbyltingarinnar í Frakklandi. Eftir það snýst sagan um stjórnskipuleg tengsl Danmerkur og Íslands og eru þar þrír áfangar mikilvægastir, stofnun eða endurreisn Alþingis 1843, afnám einveldis 1848 og stöðulögin 1871 ásamt stjórnarskránni 1874. Þá er greint frá þróun lýðræðis, þar á meðal kosningum til Alþingis, lýðræðisstarfi almennings og viðgangi verslunarfrelsis. Loks er sagt frá hvernig almennum mannréttindum var háttað, þar á meðal réttindum kvenna, og einstaklingsbundnum réttindum almennings.
Bókmenntasögukaflann ritar Þórir Óskarsson bókmenntafræðingur og fellur sú saga vel að því tímabili sem er viðfangsefni þessarar bókar. Upphafið markast af náttúru- og ættjarðarljóðum Bjarna Thorarensen, en með þeim berast fyrstu straumar rómantísku stefnunnar til Íslands sem annars er talin ná hingað til lands um 1830. Því er lýst hvernig rómantíska stefnan átti þátt í að efla þjóðarvitund Íslendinga og þjóðfélagslega virkni. Síðan fylgja sérstakir kaflar um skáldskapar- og fagurfræði, kveðskap, sagnagerð og leikritun, þjóðsagnasöfnun og þýðingar sem verða mikilvægur þáttur í bókmenntum Íslendinga. Þessum meginkafla lýkur við árið 1882, en þá birtist fyrsta og eina hefti tímaritsins Verðandi en við útkomu þess er miðað upphaf raunsæisstefnunnar í bókmenntum Íslendinga.
Ritstjórn: Sigurður Líndal og Pétur Hrafn Árnason
Ritið er 516 blaðsíður.

Þýska landnámið

Út er komið nýtt Smárit Sögufélags – Þýska landnámið eftir Pétur Eiríksson sagnfræðing.
Árið 1949 fluttust á fjórða hundrað Þjóðverjar til Íslands þegar reynt var að leysa vinnuaflsþörf landbúnaðarins með því að ráða verkafólk frá Þýskalandi á íslenska sveitabæi. Í Þýska landnáminu, sem gefið er út í flokknum Smárit Sögufélags, fjallar Pétur Eiríksson sagnfræðingur um aðdraganda og fyrirkomulag þess að Búnaðarfélag Íslands réðst í að leita út fyrir landsteinana eftir vinnufólki. Með hjálp viðtala við fjölmarga úr hópi innflytjenda og rannsóknum í innlendum og þýskum skjalasöfnum er dregin upp mynd af aðstæðum fólksins, samskiptum við heimamenn og aðlögun þess að íslenskum staðháttum og menningu. Margir úr hópnum settust að hér á landi til frambúðar og eiga samtals á annað þúsund afkomendur á Íslandi.
Bókin fæst í Sögufélagi, Fischersundi. Almennt verð er kr. 2.300,-. Félagsverð Sögufélaga er kr. 1.900,-.

Árið 1949 fluttust á fjórða hundrað Þjóðverjar til Íslands þegar reynt var að leysa vinnuaflsþörf landbúnaðarins með því að ráða verkafólk frá Þýskalandi á íslenska sveitabæi. Í Þýska landnáminu, sem gefið er út í flokknum Smárit Sögufélags, fjallar Pétur Eiríksson sagnfræðingur um aðdraganda og fyrirkomulag þess að Búnaðarfélag Íslands réðst í að leita út fyrir landsteinana eftir vinnufólki. Með hjálp viðtala við fjölmarga úr hópi innflytjenda og rannsóknum í innlendum og þýskum skjalasöfnum er dregin upp mynd af aðstæðum fólksins, samskiptum við heimamenn og aðlögun þess að íslenskum staðháttum og menningu. Margir úr hópnum settust að hér á landi til frambúðar og eiga samtals á annað þúsund afkomendur á Íslandi.
 
Bókin fæst í Sögufélagi, Fischersundi. Almennt verð er kr. 2.300,-. Félagsverð kr. 1.900,-.

Hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélags Íslands – „Hetjudáð eða hermdarverk?“

Þann 20. janúar halda hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélags Íslands áfram. Í þetta sinn er yfirskriftin Hvað er andóf? og munu fræðimenn á sviði sagnfræði, lögfræði og heimspeki velta þessari spurningu fyrir sér fram á vor. Fjallað verður um andóf frá miðöldum og allt til dagsins í dag. Meðal efnis er andóf í akademíunni og gegn Atlantshafsbandalaginu, stjórnarbyltingin 1809 og tilraunir miðaldakirkjunnar til að hefta andóf auk þess sem eðli og þýðing andófs verður tekið til skoðunar.
Kjartan Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, opnar fyrirlestraröðina með erindi sínu „Hetjudáð eða hermdarverk?“ þriðjudaginn 20. janúar kl. 12:05 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.

Í fyrri hluta erindisins verður fjallað um vissa atburði úr 20. aldar sögu nálægra Evrópuríkja og rætt þá meðal um annars hversu mjótt getur verið á munum þegar reynt er að flokka gerðir manna ýmist í hetjudáðir eða hermdarverk. Vakin verður athygli á með hvaða hætti framvinda sögunnar breytir stundum slíku mati og feykir til viðhorfum innan eins og sama hópsins
Í síðari hluta fyrirlestursins verður fjallað um símahleranir íslenskra stjórnvalda hjá pólitískum andstæðingum þeirra á árunum 1949 – 1968.  Þá lítur Kjartan meðal annars á rökin sem viðkomandi ráðherra beitti er hann bað um nefndar hleranir, rætt nokkuð hverjir það voru sem fyrir hlerunum urðu og um störf sín við að upplýsa málið.
Heimilin sem fyrir þessum brotum urðu voru 32 en treglega gekk að fá upplýst hver þau voru. Það hafðist þó að lokum og voru nöfnin birt á opinberum vettvangi þann 27. maí síðastliðinn. Þá voru tvö ár liðin frá því málið kom upp á yfirborðið í fyrirlestri sem Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur flutti í maímánuði 2006.
Allir velkomnir!

Bókafundur Sögufélags og Sagnfræðingafélags

Bókafundur Sögufélags og Sagnfræðingafélags fer fram í Sögufélagi, FIschersundi, frá kl. 20 næsta fimmtudag, þann 15. janúar.
Bókafundur Sögufélags og Sagnfræðingafélags fer fram í Sögufélagi, FIschersundi, frá kl. 20 næsta fimmtudag, þann 15. janúar.
Dagskrá verður sem hér segir:
Helgi Þorláksson fjallar um Wool and Society eftir Hrefnu Róbertsdóttur.
Árni Daníel Júlíusson fjallar um Almenningsfræðslu á Íslandi 1880-2007 í ritstjórn Lofts Guttormssonar.
Hlé
Sigríður Jörundsdóttir fjallar um Sögu Íslands IX. bindi í ritstjórn Sigurðar Líndal og Péturs Hrafns Árnasonar.
Einar Hreinsson fjallar um Amtmanninn á Einbúasetrinu eftir Kristmund Bjarnason.
Fundarstjóri verður Erla Hulda Halldórsdóttir
Gert er ráð fyrir að umfjöllun og umræður um hvert rit taki u.þ.b. hálftíma.

Bókafundur Sögufélags og Sagnfræðingafélags fer fram í Sögufélagi, FIschersundi, frá kl. 20 næsta fimmtudag, þann 15. janúar.
Dagskrá verður sem hér segir:
Helgi Þorláksson fjallar um Wool and Society eftir Hrefnu Róbertsdóttur.
Árni Daníel Júlíusson fjallar um Almenningsfræðslu á Íslandi 1880-2007 í ritstjórn Lofts Guttormssonar.
Hlé
Sigríður Jörundsdóttir fjallar um Sögu Íslands IX. bindi í ritstjórn Sigurðar Líndal og Péturs Hrafns Árnasonar.
Einar Hreinsson fjallar um Amtmanninn á Einbúasetrinu eftir Kristmund Bjarnason.
Fundarstjóri verður Erla Hulda Halldórsdóttir
Gert er ráð fyrir að umfjöllun og umræður um hvert rit taki u.þ.b. hálftíma.

Málstofa í hagsögu – Vormisseri 2009

Málstofa í hagsögu fer nú aftur af stað eftir jólafrí. Málstofan er á sínum fasta stað annan hvern miðvikudag í stofu 303 í Árnagarði, kl. 16.00-17.00.

21. janúar
GUNNAR KARLSSON, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands:
Hagfræðiheimska íslenskra miðaldamanna. Athugun á búfjárverði og búfjárleigu
 
4. febrúar
STEFÁN PÁLSSON, sagnfræðingur, Orkuveitu Reykjavíkur:
Týndi hlekkurinn í orkusögu Reykjavikur – Gasstöð Reykjavíkur: vöxtur og hnignun horfins tæknikerfis
 
18. febrúar
BJARNI GUÐMUNDSSON, prófessor í bútækni við Landbúnaðarháskóla Íslands:
Hugmyndir um nýsköpun búnaðarhátta
 
4. mars
Ásgeir Jónsson, lektor í hagfræði við Háskóla Íslands:
Fiskur og siðaskipti
 
18. mars
STEFÁN ÓLAFSSON, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands:
Breytingar á tekjuskiptingu Íslendinga 1993 til 2007
 
1. apríl
GYLFI DALMANN, lektor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands:
Verkföll og verkfallstíðni á Íslandi frá 1977-2008
 
15. apríl
VILHJÁLMUR BJARNASON, aðjúnkt í viðskiptafræði við Háskóla Íslands:
Sveinn Björnsson og innviðir viðskiptalífsins
 
Allir velkomnir!

Kirkjur Íslands 11. og 12. bindi

Út eru komin 11. og 12. bindi ritraðarinnar Kirkjur Íslands. Kirkjur Íslands er grundvallarrit um friðaðar kirkjur á Íslandi þar sem horft er þær frá sjónarhóli byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu. Í máli og myndum er fjallað um kirkjurnar sjálfar ásamt kirkjugripum og minningarmörkum.
Bókaflokkurinn opnar sýn inn í mikilvægan þátt í menningarsögu okkar Íslendinga heima í héraði, því kirkjan er ekki aðeins musteri trúar, heldur einnig sýnileg táknmynd þess besta í byggingar- og listasögu þjóðarinnar á hverjum tíma. – Þetta eru glæsilegar listaverkabækur.

Hér er fjallað um hinar 16 friðuðu kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi. Formáli fyrir verkinu er í 11. bindi og viðeigandi skrár fyrir bæði bindin í því 12. Hér er því um eitt heildstætt verk að ræða og er gefið út með styrk frá Kjalarnessprófastsdæmi.
 
Höfundar efnis eru Gunnar Kristjánsson, Þór Magnússon, Júlíana Gottskálksdóttir, Jón Þ. Þór, Gunnar Bollason, Guðmundur L. Hafsteinsson og Þorsteinn Gunnarsson.
 
Landakirkja er með elstu kirkjum landsins, teiknuð af danska húsameistaranum G.D. Anthon og reist 1774-1778. Hún á marga gripi frá 17. öld og altaristöflu eftir danska málarann G.T. Wegener. Krýsuvíkurkirkja, smíðuð 1857, ein minnsta kirkja landsins og tilheyrir húsasafni Þjóðminjasafns. Kirkjuvogskirkja er elst kirkna á Suðurnesjum; í henni er altaristafla eftir Sigurð Guðmundsson málara, eins og raunar einnig á Hvalsnesi og Kálfatjörn. Í Útskálakirkju, sem Einar Jónsson forsmiður smíðaði, er kaleikur og patína eftir Ásbjörn Jacobsen gullsmið, en smíðisgripi hans má sjá í fleiri kirkjum prófastsdæmisins. Kirkjurnar á Hvalsnesi og í Njarðvík reisti Magnús Magnússon steinsmiður; á Hvalsnesi er laskaður legsteinn sem séra Hallgrímur Pétursson mun hafa meitlað og sett dóttur sinni Steinunni. Kálfatjarnarkirkja er meistaraverk Guðmundar Jakobssonar forsmiðs, fagurlega máluð hið innra af N.S. Berthelsen. Í Keflavíkurkirkju, sem teiknuð er af Rögnvaldi Ólafssyni húsameistara, er altaristafla eftir Ásgrím Jónsson listmálara.
 
Bessastaðakirkja var að mestu reist 1777-1795. Greint er frá húsameistaranum sem fram að þessu hefur verið óþekktur. Upphaflegar innréttingar eru varðveittar á Þjóðminjasafni. Í kirkjunni er tígulegt minningarmark yfir Pál Stígsson hirðstjóra. Brautarholtskirkja og kirkja sú er áður stóð á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, Saurbæjarkirkja, eru báðar smíðaðar af Eyjólfi Þorvarðarsyni, forsmið frá Bakka. Við endurvígslu hennar í Vindáshlíð 1959 var henni gefið nafnið Hallgrímskirkja í Vindáshlíð. Í Brautarholti er prédikunarstóll frá 1664, í Lágafellskirkju altaristafla eftir Sigurð Guðmundsson málara. Í Reynivallakirkju, sem Einar Jónsson forsmiður smíðaði, er skírnarfat úr tini frá 1704 og kertastjakar frá svipuðum tíma. Saurbæjarkirkja er önnur elsta steinsteypukirkja landsins, reist 1904, en innansmíðin er frá 1856; hún á merka gripi frá 17. öld, m.a. kertastjaka og hurðarhring. Fríkirkjan í Hafnarfirði er síðasta tvílofta timburkirkjan sem reist var á landinu. Í Hafnarfjarðarkirkju, sem Rögnvaldur Ólafsson húsameistari teiknaði, eru fagrir altarisgripir eftir Leif Kaldal gullsmið.
 
Bækurnar eru prýddar fjölda ljósmynda, sem ljósmyndararnir Ívar Brynjólfsson á Þjóðminjasafni og Guðmundur Ingólfsson, Ímynd, hafa tekið, ásamt teikningum af kirkjunum.
 
Ritstjórar eru Þorsteinn Gunnarsson og Jón Torfason, ritnefnd skipa Þorsteinn, Margrét Hallgrímsdóttir og Karl Sigurbjörnsson.
 
Útgefendur eru ÞJÓÐMINJASAFN ÍSLANDS,  HÚSAFRIÐUNARNEFND, BISKUPSSTOFA  og KJALARNESSPRÓFASTSDÆMI.
Meðútgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag og annast dreifingu.

Sjúkdómar og lækningar í Reykjavík á 18. öld

Minjasafn Reykjavíkur stendur fyrir fyrirlestraröð um Reykjavík á 18. öld á Landnámssýningunni í Aðalstræti 16.
Næsti fyrirlestur verður þriðjudaginn 10. febrúar kl. 17. Þá flytur Jón Ólafur Ísberg sagnfræðingur fyrirlestur sem nefnist Sjúkdómar og lækningar.
Talið er að með erlendu starfsfólki Innréttinganna hafi borist kynsjúkdómur til landsins skömmu eftir 1750 og stofnun landlæknisembættis 1760 hafi verið til að stuðla gegn útbreiðslu sóttarinnar. Fjallað verður um upphaf opinberrar heilbrigðisþjónustu, lækniskunnáttu og lækningar fyrstu íslensku landlæknanna. Hvað vissu þeir, hvað gerðu þeir og var eitthvert gagn að þeim?

Minjasafn Reykjavíkur stendur fyrir fyrirlestraröð um Reykjavík á 18. öld á Landnámssýningunni í Aðalstræti 16.
Næsti fyrirlestur verður þriðjudaginn 10. febrúar kl. 17.  Þá flytur  Jón Ólafur Ísberg sagnfræðingur fyrirlestur sem nefnist Sjúkdómar og lækningar.
Talið er að með erlendu starfsfólki Innréttinganna hafi borist kynsjúkdómur til landsins skömmu eftir 1750 og stofnun landlæknisembættis 1760 hafi verið til að stuðla gegn útbreiðslu sóttarinnar. Fjallað verður um upphaf opinberrar heilbrigðisþjónustu, lækniskunnáttu og lækningar fyrstu íslensku landlæknanna. Hvað vissu þeir, hvað gerðu þeir og var eitthvert gagn að þeim?

Doktorsvörn í Sagnfræði- og heimspekideild

Föstudaginn 6. febrúar kl. 14 ver Ragnheiður Kristjánsdóttir doktorsritgerð við Sagnfræði- og heimspekideild, í Hátíðarsal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu.
Ragnheiður leggur fram til doktorsprófs í sagnfræði bókina Nýtt fólk. Þjóðerni og íslensk verkalýðsstjórnmál 1901-1944. Bókin fjallar um áhrif þjóðernisstefnu á stjórnmálastarf íslenskrar verkalýðshreyfingar. Hún er byggð á ítarlegri rannsókn á íslenskri stjórnmálaumræðu en jafnframt því erlenda samhengi sem skiptir máli til að skilja þessa sögu.

Niðurstöðurnar eru í stuttu máli þessar:
 
Segja má að á árunum milli stríða hafi stjórnmálabarátta verkalýðsflokkanna tveggja, Alþýðuflokks og Kommúnistaflokks, miðað að því að berjast fyrir viðurkenningu á því að verkafólk væri fullgildir íslenskir borgarar. Í því fólst meðal annars tilraun til að endurmóta íslenska þjóðernisstefnu. Báðir flokkarnir réðust gegn þeim þáttum hennar sem samrýmdust illa sósíalískri stjórnmálaorðræðu, endursögðu þjóðarsöguna og skilgreindu upp á nýtt og á sínum forsendum grunnþætti íslenskrar þjóðernissjálfsmyndar. Engu að síður snerti þjóðernisstefna stjórnmálastarf flokkanna tveggja með mjög ólíkum hætti. Færa má rök fyrir því að þjóðernisstefna hafi átt sinn þátt í að tryggja kommúnista- og síðar sósíalistahreyfinguna í sessi. Áhrifin á Alþýðuflokkinn hafi hins vegar verið þveröfug. Íslensk þjóðernisstefna hafi hindrað vöxt hans.
 
Aðalleiðbeinandi Ragnheiðar var Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði.
 
Andmælendur eru Gunnar Karlsson, prófessor við HÍ, og Rósa Magnúsdóttir, lektor við Árósaháskóla.
 
Ragnheiður Kristjánsdóttir er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og M.Phil.-próf í sömu grein frá Cambridge University. Hún starfar sem aðjunkt í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Framandi trú og kristnar rætur Íslands: Óttinn við að glata íslenskri menningu í fjölmenningarlegu samfélagi

Þriðjudaginn 9. desember flytur Kristín Loftsdóttir mannfræðingur hádegisfyrirlesturinn Framandi trú og kristnar rætur Íslands: Óttinn við að glata íslenskri menningu í fjölmenningarlegu samfélagi.
Fyrirlesturinn er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands Hvað er að óttast?
Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og standa frá klukkan 12.05 til klukkan 12.55. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

Í lýsingu á efni erindisins segir:
Lagt var til í frumvarpi um ný grunnskólalög árið 2007 að tekin væri út áhersla á að starfshættir skóla ættu að mótast af kristilegu siðgæði.  Þessi fyrirhugaða breyting virðist að einhverju leyti hafa hrundið af stað víðtækari umfjöllun um kristinfræðslu og tengingu kristinnar trúar við íslenska menningu, enda var í samþykktum lögum búið að bæta aftur inn kristinni áherslu í kafla um starfshætti skóla. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þau sterku viðbrögð sem tillögurnar af nýjum grunnskólalögum vöktu og þeirri sýn sem þau bregða upp af  tengslum íslenskrar menningar og kristinnar trúar.  Var í þessari umræðu litið á aukna fjölmenningu sem einhverskonar ógn við íslenska menningu?

Söfnun og varðveisla samtímaheimilda – Liggja heimildir á glámbekk?

Sagnfræðingafélag Íslands efnir til kvöldfundar næsta fimmtudag, þann 27. nóvember, um söfnun og varðveislu óprentaðra samtímaheimilda.
Frummælendur verða: Unnur María Bergsveinsdóttir, Njörður Sigurðsson, Kristinn Sigurðsson og Björn Jón Bragason. Þau ætla að fjalla um óprentaðar samtímaheimildir, skjöl, munnlegar heimildir, vefsöfnun, blogg og fleira frá frá ýmsum sjónarhornum
Fundurinn verður haldinn í Sögufélagi, Fischersundi 3, og hefst kl. 20.00.

Sagnfræðingafélag Íslands efnir til kvöldfundar næsta fimmtudag, þann 27. nóvember, um söfnun og varðveislu óprentaðra samtímaheimilda. Frummælendur verða: Unnur María Bergsveinsdóttir, Njörður Sigurðsson, Kristinn Sigurðsson og Björn Jón Bragason. Þau ætla að fjalla um óprentaðar samtímaheimildir, skjöl, munnlegar heimildir, vefsöfnun, blogg og fleira frá frá ýmsum sjónarhornum Fundurinn verður haldinn í Sögufélagi, Fischersundi 3, og hefst kl. 20.00.