Frá Helgafellsklaustri til Stapaumboðs

Þriðjudaginn 5. nóvember 2013 kl. 16.30
Árnagarði 423
Flestar rannsóknir á eignarhaldi og stéttaskiptingu á Íslandi hafa beinst að því að
skoða landið í heild og draga af því almennar niðurstöður. Með því glatast hins
vegar vitund um héraðsbundinn mun. Hins vegar er ástæða til að rannsaka betur ólík
form eignarhalds og atvinnuhátta á milli landsvæða. Einnig gefa staðbundnar
rannsóknir möguleika á að fylgjast betur með þróun í einstökum héruðum þó að
heimildir skorti um önnur héruð á sama tíma. Við Breiðafjörð var gósseign í vexti á
14. öld og í heimildum sést glögglega að einstaklingar og staðir á borð við
Helgafellsklaustur leituðust við að koma sér upp safni jarðeigna á afmörkuðum svæði.
Gósseign Helgafellsklausturs myndaðist þannig tiltölulega hratt á fáeinum áratugum
skömmu eftir miðja 14. öld. Á 15. öld varð svo enn meiri samþjöppun jarðeigna og
höfðingjar áttu þá miklar jarðeignir í mörgum héruðum. Til varð stétt landeigenda
sem hafði iðulega allt landið undir og ríkti sú efnahagsskipan án mikilla breytinga
fram á 18. öld. Mikil staðbundin jarðeign Helgafellsklausturs er hins vegar leif frá
þróun 14. aldar þar sem eignir klaustursins voru mjög samþjappaðar á Snæfellsnesi. Á
16. öld urðu þessar eignir að Stapaumboði en höfðingjar gátu nýtt sér forræði yfir
því til að öðlast sterka héraðsbundna stöðu við Breiðafjörðinn. Í fyrirlestrinum
verður rætt hvaða máli eignir Helgafellsklausturs skiptu fyrir gang siðaskiptanna
við Breiðafjörð og hvort tilvist Stapaumboðs á síðari öldum hafi mótast af þessum
uppruna.
Sverrir Jakobsson er lektor í miðaldasögu við Háskóla Íslands. Hann hefur m.a.
rannsakað heimsmynd og íslenskt þjóðerni, friðarviðleitni kirkjunnar og
valdamiðstöðvar, m.a. í Breiðafirði.
Fyrirlestraröð Miðaldastofu um klausturmenningu á Íslandi og Norðurlöndum á miðöldum
miðaldastofa.hi.is

Leave a Reply