Sunnudagsbíó og leiðsögn- síðasta sýning 28. október

Björgunarafrekið við Látrabjarg

Sýningunni Björgunarafrekið við Látrabjarg lýkur sunnudaginn 28. október. Að því tilefni verður boðið uppá leiðsögn um ljósmyndasýninguna kl. 14. Þá verður kvikmynd Óskars Gíslasonar um björgunarafrekið sýnd kl. 15 og er þetta síðasta sýning sem Þjóðminjasafnið býður uppá. Leiðsögnin og kvikmyndasýningin er gestum að kostnaðarlausu.

Í desember 1947 strandaði breski togarinn Dhoon í aftakaveðri við Látrabjarg. Björgunarsveitarmenn frá Hvallátrum og Patreksfirði unnu frækilegt afrek við björgun 12 skipbrotsmanna við ógnvekjandi aðstæður og hlutu verðskuldaðan heiður fyrir, heima og erlendis.

Þórður Jónsson frá Hvallátrum, einn björgunarmanna, átti frumkvæði að gerð heimildarkvikmyndar um björgunarafrekið. Þórður kynnti þessa hugmynd sína á ársþingi Slysavarnarfélags Íslands 1948 og var hún samþykkt eftir miklar umræður þingfulltrúa. Óskar Gíslason ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður var ráðinn til starfans og lauk hann tökum á fyrri hluta myndarinnar þá um sumarið. Flest það fólk sem komið hafði að björguninni lék sjálft sig í myndinni.

Þegar unnið var að seinni hluta myndarinnar í Kollsvík komu boð um að breski togarinn Sargon væri strandaður við Hafnarmúla. Fylgdi Óskar með „leikurum“ sínum á strandstað og náði að festa á filmu björgun þeirra 6 skipverja sem enn voru á lífi. Upptaka þessi var síðar felld inn í heimildarmyndina, en engar myndir höfðu verið teknar við björgun Dhoon. Kvikmyndin Björgunarafrekið við Látrabjarg var frumsýnd 8. apríl 1949 og vakti gríðarlega athygli, einnig á erlendum vettvangi.

Leave a Reply