Skírnir – Haustútgáfa 2012

Hausthefti Skírnis árið 2012 er komið út. Fjölbreytilegt efni er í ritinu að vanda og umfjöllunarefnin spanna ólíka tíma og rúm. Meðal efnis í þessu hefti má nefna grein Einars Kárasonar rithöfundar um höfund Njálu, þar sem hann færir bókmenntaleg rök fyrir kenningu sinni um hver skrifaði þetta meistaraverk íslenskra bókmennta. Nítjánda öldin kemur nokkuð við sögu í heftinu. Ólafur Gíslason listfræðingur varpar nýju ljósi á hina miklu Evrópuferð Tómasar Sæmundssonar Fjölnismanns árið 1832 og Þórir Óskarsson birtir ítarlega rannsókn á því hvaða bókmenntir voru raunverulega lesnar í skólum á 19. öld. Björn Þorláksson rithöfundur setur gamlan íslenskan hrepparíg á Tröllaskaga í óvænt samhengi, og Bryndís Björgvinsdóttir þjóðfræðingur skrifar skemmtilega grein um brandara um konur, þar sem hún fer í saumana á orðræðu og stöðluðum hugmyndum í þessu vinsæla gamanformi. Orðræðugreining af öðru tagi er svo í grein Ara Páls Kristinssonar málfræðings um íslenska málhugmyndafræði við hernámið 1940.  Skömmu fyrir hernám flutti þekktur rithöfundur aftur til Íslands frá Noregi, Kristmann Guðmundsson, en Gunnþórunn Guðmundsdóttir bókmenntafræðingur skrifar grein um umtalaða sjálfsævisögu Kristmanns. Hermann Stefánsson rithöfundur þýðir brot úr bókinni Uppreisn fjöldans eftir einn dáðasta heimspeking Spánar, José Ortega y Gasset; fylgir því úr hlaði með formála og færir rök fyrir því að greining Ortega y Gasset á evrópskri menningu eigi sérstakt erindi til Íslendinga hér og nú. Að sama skapi á grein Svans Kristjánssonar stjórnmálafræðiprófessors erindi í þjóðmálaumræðuna miðja, en hún ber heitið Brothætt lýðræði – Valdsmenn í sókn, þar sem hann rekur með skýrum dæmum hvernig valdamenn færðu sig upp á skaftið frá og með árinu 1988 og hófu afskipti af mannaráðningum við þrjár stofnanir; Hæstarétt, Háskóla Íslands og Ríkisútvarpið.
          Í heftinu birtist líka nýr ljóðabálkur, Almanakið eftir Ólaf Jóhann Ólafsson rithöfund og í myndlistarþætti Skírnis leggur Ólafur Gíslason til atlögu við myndbandsverk Sigurðar Guðjónssonar vopnaður hugtökum úr smiðju klassískrar fagurfræði og goðsagna.
          Ritstjóri Skírnis er Páll Valsson. Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag, afgreiðslan er í Skeifunni 3b.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *