Ókeypis á Þjóðminjasafnið 1. desember

Jóladagskrá Þjóðminjasafnsins hefst þann 1. desember en þann dag er ókeypis aðgangur að safninu. Jólasýningar verða opnaðar og í boði er jólaratleikur á fimm tungumálum.

Safnbúðin er að vanda full af skemmtilegum vörum,
þjóðlegum leikföngum, vönduðum minjagripum, íslenskri hönnun og bókum.       
Sýningin Sérkenni sveinanna á Torgi tengir nöfn jólasveinanna við gripi sem tengjast þeim svo sem ask, kerti og hangilæri. Gripina má snerta og geta þeir hjálpað börnum að skilja nöfn jólasveinanna. Í forsal á 3. hæð safnsins verður jafnframt hægt
að skoða gömul jólatré og jólaskraut.
Jólaratleikurinn Hvar er jólakötturinn? hefur verið þýddur á frönsku, þýsku, pólsku og ensku. Leikurinn er tilvalin leið fyrir fjölskyldur að skemmta sér saman en um leið að fræðast.
Á heimasíðu safnsins er að auki hægt að fræðast um íslenska jólasiði
og opna jóladagatal á hverjum degi frá 1. desember, sjá:  /jol/dagatal/


Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *