Kynjaskekkja í stjórnmálasögunni? Um tengsl stjórnmálasögu og kynjasögu á Íslandi

Föstudaginn 22. mars flytur Ragnheiður Kristjánsdóttir, aðjúnkt í sagnfræði við HÍ, fyrirlestur sem ber heitið „Kynjaskekkja í stjórnmálasögunni? Um tengsl stjórnmálasögu og kynjasögu á Íslandi“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins, kl. 12:00-13:00.
Saga íslenskra nútímastjórnmála hefst á nítjándu öld og tengist lýðræðisþróun og þjóðríkismyndun. Eins og hún hefur verið skrifuð og kennd hingað til er hún fyrst og fremst saga karla, en ekki kvenna. Þrátt fyrir að kvenna- og kynjasagan, alþjóðleg, jafnt sem íslensk, hafi fyrir löngu lagt sagnfræðingum í hendur greiningarramma sem ætti að gera þeim kleift að skrifa stjórnmálasögu beggja kynja hefur íslensk stjórnmálasaga haft lítið um konur að segja. Í erindinu verður rætt um kynjaskekkjuna í íslenskri stjórnmálasögu og leiðir til að leiðrétta hana. Í því sambandi verður sérstaklega horft til sögu vinstri hreyfingarinnar á Íslandi á árunum milli fyrstu og annarrar bylgju femínismans.
Fyrirlesturinn er haldinn í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands.
Öll velkomin!

Leave a Reply