Doktorsvörn Jóns Árna Friðjónssonar

Doktorsvörn Jóns Árna Friðjónssonar fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands miðvikudaginn 23. október, vörnin hefst kl. 14.
Andmælendur verða dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og dr. Guðmundur Hálfdánarson prófessor á Hugvísindasviði Háskóla Íslands
Doktorsnefnd skipuðu dr. Gunnar Karlsson prófessor emerítus við Háskóla Íslands, dr. Gestur Guðmundsson prófessor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, aðalleiðbeinandi var dr. Loftur Guttormsson prófessor emerítus við Háskóla Íslands
Skólabókasagan: Um sögukennslu í íslenskum framhaldsskólum 1946–1996.
Saga varð fyrst mikilvæg námsgrein í íslenskum skólum á heimastjórnartímanum. Sú söguskoðun sem þá mótaðist horfði ekki aðeins til fortíðar heldur vísaði líka til framtíðar og útópía hennar varð að veruleika með stofnun lýðveldis 1944. En forsögn hennar náði ekki öllu lengra þó að reynt væri að framlengja hana; á sjöunda áratugnum tók hún að missa merkingu sína. Um hina almennu mannkynssögu ríkti ekki mikill ágreiningur, hún var fyrst og fremst þjálfunarefni fyrir verðandi embættis- og menntamenn.  
En upp úr 1970 breyttist allt. Skólakerfið tók stakkaskiptum, ný viðhorf komu fram á sviði kennslufræða og mikil fjölgun ungs fólks knúði á um víðtæka nýsköpun framhaldsskólakerfisins. Þá sprengdi íslensk sagnfræði af sér fjötra hefðarinnar og félagssaga tók að setja svip sinn á námsefni. Þessum umskiptum var ekki tekið fagnandi alls staðar. Róttækni tíðarandans varð heldur ekki til að draga úr ótta þeirra sem töldu hina nýju sögutúlkun boða illt og brátt upphófust alls kyns ásakanir á hendur kennurum og námsefnishöfundum um pólitíska áróðursstarfsemi.
Enginn vafi er á því að hin illskeytta pólitíska umræða áttunda og níunda áratugarins kom sér illa fyrir söguna sem námsgrein. Verra var þó hve veik staða hennar var á hinu kennslufræðilega sviði. Það er og ein niðurstaða þessarar rannsóknar að mikilvægustu eiginleikar hennar sem námsgreinar hafi lengst af verið vanmetnir. Athyglin beinist þó einkum að þeim kennslubókum sem settu svip á þetta mikla breytingaskeið og þeim aðstæðum sem þróun framhaldsskólakerfisins og ný fræðileg og samfélagsleg viðhorf sköpuðu námsgreininni.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *