4. íslenska söguþingið

Fjórða íslenska söguþingið verðu haldið í húsakynnum Háskóla Íslands 7.-10. júní 2012. Þessi þing eru orðinn fastur viðburður, fyrsta þingið var haldið árið 1997, annað árið 2002 og hið þriðja árið 2006. Þingið nú þjónar sem áður allt í senn sem vettvangur fyrir kynningu á niðurstöðum nýjustu rannsókna í íslenskri sagnfræði, veitir yfirlit yfir stöðu þeirra nú og þar er rætt um hvert stefnir í rannsóknum á sviðinu.
 Þingið verður afar veglegt en í boði verða á þriðja tug málstofa um hin ýmsu efni með yfir 90 fyrirlestrum. Ber þetta glöggan vott um öflugar rannsóknir á hinum ýmsu sviðum íslenskrar sögu. Þingið verður líka óvenju alþjóðlegt í þetta sinn, en Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands hefur boðið þremur heimsþekktum sagnfræð­ingum til þingsins, þeim Lindu Colley prófessor við Princeton háskóla, David Cannadine, prófessor við Prince­ton háskóla og Geoff Eley, prófessor við háskólann í Michigan í Bandaríkjunum. Linda Colley mun flytja Jóns Sigurðssonar fyrirlesturinn þetta árið. Þar að auki munu tveir erlendir fyrirlesarar tala á opinni málstofu um Evrópumál, sem styrkt er af Evrópustofu. Þetta eru þau Anne Katherine Isaacs, prófessor við háskólann í Písa, og Anne Deighton, prófessor við háskólann í Oxford. Að síðustu mun Karl-Erik Frandsen, lektor við Kaupmannahafnarháskóla, tala í málstofu um sjúkdómafaraldra á fyrri tíð.
 Búið er að opna fyrir skráningu á söguþingið. Ráðstefnugjald er 9.900 krónur og 4.900 fyrir háskólanema. Hægt er að skrá sig á heimasíðu þingsins, www.akademia.is/soguthing en það má finna allar helstu upplýsingar um þingið.
 

Leave a Reply