Söguþjóðin

 
Eftir dr. Jónas Kristjánsson 
351 bls. með nafnaskrá, kortum og fjölda mynda.
Í bók þessari er sögð saga íslensku þjóðarinnar frá landnámi og allt til loka þjóðveldisins laust eftir miðja 13. öld, þegar forfeður okkar gengu á hönd Noregskonungi. Hinar fornu sögur eru hér endursagðar á einföldu og fögru nútíðarmáli. Bókin skiptist í fjóra meginþætti, og hver öld hefur sín sérstöku heimildarrit.
Saga frumbyggðarinnar er rakin í Landnámabók, sagt frá uppruna landnámsmanna og bólfestu á Íslandi. Landnáma er einstakt rit, engin þjóð í veröldinni á slíka heimild um uppruna sinn.
Næst tekur við söguöldin á 10. og 11. öld. Hún hefur  stundum verið nefnd gullöld Íslendinga sökum þess að Íslendingasögurnar eru snilldarverk sem bregða yfir garpa sína glæsilegum afreksljóma.
Friðaröldin er þriðja tímaskeiðið, hún hefst með hinum fyrstu biskupum sem fluttu þjóðinni kærleiksboðskap frelsarans á 11. og 12. öld. Hin fornu veraldlegu lög voru þá gengin nokkuð úr skorðum, og einstöku höfðingjar sýndu tilburði til óspekta, en voru sveigðir til kyrrðar af máttarmiklum friðarmönnum.
Undir lok 12. aldar, og 13. á þrettándu öldinni gengu lagastoðir þjóðveldisins gersamlega úr skorðum, ódáðaverk voru unnin og nánir frændur bárust á banaspjót. Friður komst á undir frændsamlegri stjórn og lagaboðum konungsins í Noregi og undir máttugu valdi kirkjunnar í Róm. Þá hafði íslenska þjóðveldið staðið í hálfa fjórðu öld, og látið eftir sig spakleg afrek og glæsilegar bókmenntir sem lifa munu um aldur og ævi.
Höfundur bókarinnar, dr. Jónas Kristjánsson, hefur um áratuga skeið fengist við rannsóknir á fornri íslenskri sögu og bókmenntum og ritað margt um þau efni. Hann var lengi forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar á Íslandi.
Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag.

Leave a Reply