Landsvirkjun 1965-2005

Landsvirkjun 1965-2005:
Fyrirtækið og umhverfi þess í ritstjórn Sigrúnar Pálsdóttur kom út fyrr á árinu. Í bókinni rekja átta höfundar í sjö greinum sögu Landsvirkjunar frá ólíku sjónarhorni.

Starfsemi Landsvirkjunar í nær fjóra áratugi hefur ekki einungis verið stór þáttur í atvinnu- og efnahagssögu þjóðarinnar heldur haft afgerandi áhrif á þróun íslensks samfélags á 20. öld, hvort heldur er á byggðaþróun, búskapar- og lifnaðarhætti, tækniþekkingu, þjóðernismál eða viðhorf til náttúrunnar.
Hvað olli því að markviss uppbygging orkuiðnaðar á Íslandi hófst árið 1965, um það bil 50 árum eftir að fyrstu hugmyndir og áform um slíkan iðnað komu fyrst fram hér á landi? Hvernig hefur hlutverk Landsvirkjunar breyst á síðustu 40 árum? Hvernig birtast átök um raforkumál í stjórnmálasögu 20. aldar? Hvaða náttúrusýn birta átökin um framkvæmdir Landsvirkjunar? Hver er byggingararfleifð vatnsaflsvirkjana á Íslandi? Hvaða áhrif hafa framkvæmdir Landsvirkjunar haft á þróun íslenskrar tækniþekkingar?
Í þessari bók rekja átta höfundar í sjö greinum sögu Landsvirkjunar frá sjónarhorni hagsögu, stjórnmálasögu, hugarfarssögu, byggingarsögu og tæknisögu.
Höfundar:
Sigrún Pálsdóttir – Landsvirkjun: fyrirtækið, framkvæmdir þess og hlutverk
Jón Þór Sturluson – Afkoma Landsvirkjunar og þjóðhagsleg áhrif stóriðju
Gunnar Helgi kristinsson – Raforka, efnishyggja og stjórnmálaátök
Guðmundur Hálfdanarson og Unnur Birna Karlsdóttir – Náttúrusýn og nýting fallvatna
Pétur H. Ármannsson – Orkuver og arkitektúr
Birgir Jónsson – Þróun tækniþekkingar og fagvinnu við virkjunarframkvæmdir Landsvirkjunar
Skúli Sigurðsson – Frá íslensku sérleiðinni á sviði raforkumála til Landsvirkjunar