Sýningin Ásfjall framlengd

 
Ákveðið hefur verið að framlengja sýninguna Ásfjall sem stendur í Myndasal Þjóðminjasafns Íslands til sunnudagsins 9. október. Á sýningunni má sjá ljósmyndir sem Pétur Thomsen tók á og við Ásfjall í Hafnarfirði á árunum 2008-2011. Samhliða sýningunni kom út vandað rit með ljósmyndum Péturs, en bæði bókin og sýningin hafa hlotið einróma lof gagnrýnenda og gesta.


 
Frá vorinu 2008 hefur Pétur Thomsen með tilstyrk Þjóðminjasafns Íslands fylgst með og ljósmyndað framkvæmdir á Ásfjalli í Hafnarfirði. Þegar hugmyndin kviknaði snérist hún fyrst og fremst um að ljósmynda hverfi í byggingu og áhrifin sem byggingarframkvæmdirnar hafa á allt umhverfið. Atburðir í samfélaginu breyttu hins vegar framkvæmdunum í eitthvað annað og meira. Hálfbyggð og mannlaus hverfi í útjaðri höfuðborgarsvæðisins urðu tákn óraunhæfra áforma. Í stað bjartsýni urðu vonbrigðin myndefni ljósmyndarans.
Pétur beinir sjónum sínum einnig að náttúrunni; fólkvanginum sem hverfið rís við og hvernig byggðin skríður sífellt lengra inn á heiðina. Ljósmyndir hans eru í senn ádeila á meðferð okkar á landinu og skrásetning framkvæmda. Sjónarhorn Péturs sýnir samhengi byggingarlistar, skipulags og náttúru, en það eru allt þættir sem móta umgjörð samfélagsins og hafa áhrif á það.
Pétur Thomsen (f. 1973) hefur á síðustu árum vakið athygli, bæði á Íslandi og erlendis, fyrir verk úr ljósmyndaröðunum Aðflutt landslag og Umhverfing, sem báðar fjalla um manninn andspænis og í náttúrunni, og tilraunir hans til að móta og breyta náttúru í manngert umhverfi. Pétur er með MFA gráðu frá École Nationale Supérieur de la Photographie í Arles í Frakkalandi. Á síðustu árum hefur hann verið með einkasýningar í Listasafni Íslands (2010), Transphotographique í Lille í Frakkalandi (2010) og Ljósmyndasafni Reykjavíkur (2010) og tekið þátt í fjölda samsýninga, m.a. á Íslandi, Spáni, í Grikklandi, Damörku, Noregi, Finlandi, Frakklandi, Belgíu, Bandaríkjunum, Sýrlandi og Japan. Árið 2005 var Pétur valin einn af 50 áhugaverðustu ljósmyndurum framtíðarinnar og tók þátt í reGen­eration verkefninu á vegum Elysée listasafnsins í Sviss.