Kirkjur Íslands 11. og 12. bindi

Út eru komin 11. og 12. bindi ritraðarinnar Kirkjur Íslands. Kirkjur Íslands er grundvallarrit um friðaðar kirkjur á Íslandi þar sem horft er þær frá sjónarhóli byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu. Í máli og myndum er fjallað um kirkjurnar sjálfar ásamt kirkjugripum og minningarmörkum.
Bókaflokkurinn opnar sýn inn í mikilvægan þátt í menningarsögu okkar Íslendinga heima í héraði, því kirkjan er ekki aðeins musteri trúar, heldur einnig sýnileg táknmynd þess besta í byggingar- og listasögu þjóðarinnar á hverjum tíma. – Þetta eru glæsilegar listaverkabækur.

Hér er fjallað um hinar 16 friðuðu kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi. Formáli fyrir verkinu er í 11. bindi og viðeigandi skrár fyrir bæði bindin í því 12. Hér er því um eitt heildstætt verk að ræða og er gefið út með styrk frá Kjalarnessprófastsdæmi.
 
Höfundar efnis eru Gunnar Kristjánsson, Þór Magnússon, Júlíana Gottskálksdóttir, Jón Þ. Þór, Gunnar Bollason, Guðmundur L. Hafsteinsson og Þorsteinn Gunnarsson.
 
Landakirkja er með elstu kirkjum landsins, teiknuð af danska húsameistaranum G.D. Anthon og reist 1774-1778. Hún á marga gripi frá 17. öld og altaristöflu eftir danska málarann G.T. Wegener. Krýsuvíkurkirkja, smíðuð 1857, ein minnsta kirkja landsins og tilheyrir húsasafni Þjóðminjasafns. Kirkjuvogskirkja er elst kirkna á Suðurnesjum; í henni er altaristafla eftir Sigurð Guðmundsson málara, eins og raunar einnig á Hvalsnesi og Kálfatjörn. Í Útskálakirkju, sem Einar Jónsson forsmiður smíðaði, er kaleikur og patína eftir Ásbjörn Jacobsen gullsmið, en smíðisgripi hans má sjá í fleiri kirkjum prófastsdæmisins. Kirkjurnar á Hvalsnesi og í Njarðvík reisti Magnús Magnússon steinsmiður; á Hvalsnesi er laskaður legsteinn sem séra Hallgrímur Pétursson mun hafa meitlað og sett dóttur sinni Steinunni. Kálfatjarnarkirkja er meistaraverk Guðmundar Jakobssonar forsmiðs, fagurlega máluð hið innra af N.S. Berthelsen. Í Keflavíkurkirkju, sem teiknuð er af Rögnvaldi Ólafssyni húsameistara, er altaristafla eftir Ásgrím Jónsson listmálara.
 
Bessastaðakirkja var að mestu reist 1777-1795. Greint er frá húsameistaranum sem fram að þessu hefur verið óþekktur. Upphaflegar innréttingar eru varðveittar á Þjóðminjasafni. Í kirkjunni er tígulegt minningarmark yfir Pál Stígsson hirðstjóra. Brautarholtskirkja og kirkja sú er áður stóð á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, Saurbæjarkirkja, eru báðar smíðaðar af Eyjólfi Þorvarðarsyni, forsmið frá Bakka. Við endurvígslu hennar í Vindáshlíð 1959 var henni gefið nafnið Hallgrímskirkja í Vindáshlíð. Í Brautarholti er prédikunarstóll frá 1664, í Lágafellskirkju altaristafla eftir Sigurð Guðmundsson málara. Í Reynivallakirkju, sem Einar Jónsson forsmiður smíðaði, er skírnarfat úr tini frá 1704 og kertastjakar frá svipuðum tíma. Saurbæjarkirkja er önnur elsta steinsteypukirkja landsins, reist 1904, en innansmíðin er frá 1856; hún á merka gripi frá 17. öld, m.a. kertastjaka og hurðarhring. Fríkirkjan í Hafnarfirði er síðasta tvílofta timburkirkjan sem reist var á landinu. Í Hafnarfjarðarkirkju, sem Rögnvaldur Ólafsson húsameistari teiknaði, eru fagrir altarisgripir eftir Leif Kaldal gullsmið.
 
Bækurnar eru prýddar fjölda ljósmynda, sem ljósmyndararnir Ívar Brynjólfsson á Þjóðminjasafni og Guðmundur Ingólfsson, Ímynd, hafa tekið, ásamt teikningum af kirkjunum.
 
Ritstjórar eru Þorsteinn Gunnarsson og Jón Torfason, ritnefnd skipa Þorsteinn, Margrét Hallgrímsdóttir og Karl Sigurbjörnsson.
 
Útgefendur eru ÞJÓÐMINJASAFN ÍSLANDS,  HÚSAFRIÐUNARNEFND, BISKUPSSTOFA  og KJALARNESSPRÓFASTSDÆMI.
Meðútgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag og annast dreifingu.

Bókabylting 18. aldar: Fræðastörf og bókaútgáfa upplýsingarmanna, eftir Aðalgeir Kristjánsson

Bókabylting 18. aldar fjallar um þá miklu grósku sem var í fræðastarfi og útgáfu bóka um íslenska menningu og náttúru á tíma upplýsingarstefnunnar. Sagt er frá þeim mönnum og samtökum sem gerðu íslenskar fornbókmenntir aðgengilegar fyrir hinn menntaða heim og veittu erlendum menningarstraumum til íslensku þjóðarinnar með fræðiritum og þýðingum á heimsbókmenntum.

Í öðrum hluta bókarinnar er gerð grein fyrir rannsóknum á náttúru og landshögum
og ber þar hæst Ferðabók Bjarna Pálssonar og Eggerts Ólafssonar sem er ómetanleg
heimild um Ísland á 18. öld. Einnig er getið rannsókna Ólafs Olaviusar og Þórðar
Thoroddi.
Á síðari hluta aldarinnar hljóp mikill vöxtur í rannsóknir á íslenskum handritum og
útgáfu þeirra og er sú saga rakin í þriðja hlutanum. Erlendir áhugamenn um íslenskan
menningararf áttu yfirleitt frumkvæðið en það voru íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn
sem helst sinntu útgáfustarfinu. Ítarlega er sagt frá mesta sagnfræðiriti þessa tímabils,
Kirkjusögu Finns biskups Jónssonar.
Aðalgeir Kristjánsson er cand. mag. Í íslenskum fræðum og starfaði lengstum sem
skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands. Eftir Aðalgeir liggja fjölmörg rit, m. a. Brynjólfur
Pétursson. Ævi og störf (1972), Endurreisn Alþingis og þjóðfundurinn (1993) og Nú heilsar þér á
Hafnaslóð. Ævir og örlög í höfuðborg Íslands 1800–1850 (1999).
Bókabylting 18. aldar er 44. bindið í Ritsafni Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands og er gefið út af Háskólaútgáfunni. Ritið er 166 blaðsíður.

Kommúnistaávarpið

Það kannast allir við Kommúnistaávarp Marx og Engels. Ávarpið er án efa eitt áhrifamesta pólitíska rit sem út hefur komið og ábyggilega það áhrifamesta sem komið hefur út á síðustu tveimur öldum. Verkið var fyrst gefið út í byrjun árs 1848 og upp úr 1900 hafði það verið þýtt á u.þ.b. 30 tungumál. Eftir októberbyltinguna í Rússlandi árið 1917 varð ávarpið að eins konar testamenti kommúnistaflokka um heim allan. Flokkarnir vildu að Kommúnistaávarpið væri fáanlegt á viðráðanlegu verði. Verkið kom fyrst út á íslenzku árið 1924 en þýðingin sem hér er endurbirt var gerð árið 1949. Sú þýðing hefur lengi verið illfáanleg. Nú hefur það verið gefið út sem Lærdómsrit Hins íslenska bókmennntafélags með ítarlegum skýringum og tveimur inngangsköflum.

„Vofa leikur nú ljósum logum um Evrópu – vofa kommúnismans.“ Upphafsorð þessi eru greypt í vitund fólks og til þeirra er sífellt vitnað. Í þessari kröftugu stefnuyfirlýsingu voru kenningar marxismans í fyrsta skipti settar fram með skýrum hætti. Hér er fullyrt að saga mannsins sé í raun saga sífelldrar stéttarbaráttu á milli kúgara og hinna kúguðu, á milli arðræninga og hinna arðrændu. Nú stendur yfir barátta á milli hinnar nýju borgarastéttar og öreigalýðsins. Borgarastéttin byggir völd sín á töfratækjum iðnbyltingarinnar; framleiðsluhættir og samgöngur þróast og breytast með undraverðum hraða. Þegar þessar breytingar samtvinnast viðskiptaháttum hins frjálsa markaðar fær borgarastéttin ekki „lengur ráðið við anda undirdjúpanna, sem [hún] hefur vakið upp“. Við slíkar aðstæður geisar farsótt offramleiðslunnar sem steypir þjóðfélögum í hverja kreppuna á fætur annarri. Skyndilega ríkir hungursneyð og stríð, og borgarastéttin kann engin ráð til að afstýra hinni síendurteknu vá verzlunarkreppunnar. Hugsjón kommúnismans er stéttlaust þjóðfélag sem byggist á jöfnuði allra manna. Þegar öreigar allra landa hafa sameinazt og steypt allri þjóðfélagsskipan af stóli með valdi er hægt að byggja upp réttlátt og mannúðlegt samfélag. Allir vita hversu áhrifamikil þessi kenning hefur verið. Til þessa dags er hún gífurlega umdeild og hún mun sennilega aldrei hverfa af sjónarsviði pólitískrar umræðu. En líkt og Páll Björnson skrifar í nýjum, greinargóðum og fróðlegum inngangi að Kommúnistaávarpinu, þar sem rakin er saga þýðingarinnar og áhrif hennar hér á landi rædd við upphaf nýrrar aldar, þá er þetta ekki einungis pólitískt greiningarrit, heldur líka innblásið áróðursrit, augnabliksþrungið spádómsrit og ómissandi heimildarrit. Þetta er augljóslega verk sem allir ættu að kynna sér.
Upphaflegur inngangur þýðandans, Sverris Kristjánssonar sagnfræðings, er hér endurprentaður, en hann var samin í tilefni af 100 ára sögu Kommúnistaávarpsins 1948. Fyrr á árinu 2008 hefði Sverrir sjálfur orðið 100 ára hefði hann lifað.
Kommúnistaávarpið eftir Karl Marx og Friedrich Engels er 72. Lærdómsritið sem Hið íslenska bókmenntafélag gefur út. Ritstjórar Lærdómsritanna eru Björn Þorsteinsson og Ólafur Páll Jónsson. Ritið er 243 blaðsíður.

Uppbrot hugmyndakerfis: Endurmótun íslenskrar utanríkisstefnu 1991-2007 í ritstjórn Vals Ingimundarsonar

Út er komið ritið Uppbrot hugmyndakerfis: Endurmótun íslenskrar utanríkisstefnu 1991-2007 í ritstjórn Vals Ingimundarsonar. Í þessari bók er fjallað um þróun íslenskrar utanríkisstefnu og ýmsar breytingar sem orðið hafa á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi á tímabilinu 1991-2007. Að vissu leyti er þessi nýja bók sjálfstætt framhald af ritverki Péturs Thorsteinssonar sendiherra, “Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál – Sögulegt yfirlit”, sem Bókmenntafélagið gaf út 1992. Hér er um að ræða samvinnu 13 fræðimanna á sviði stjórnmálafræði, sagnfræði, lögfræði, landfræði, mannfræði, félagsráðgjafar og hagfræði. Sjónum er sérstaklega beint að: samskiptum Íslands og Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum, þátttöku Íslands í Evrópusamrunanum, stefnu Íslands í friðargæslu og þróunarmálum, þeim breytingum sem orðið hafa á utanríkisviðskiptum Íslendinga og afstöðu stjórnvalda til erlendra fjárfestinga í stóriðju, aðild Íslands að samningum um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, samningum um fiskveiðistjórnun vegna veiða úr flökkustofnum og á alþjóðlegum hafsvæðum, skuldbindingum Íslands vegna mannréttindasamninga og framkvæmd fyrirmæla Öryggisráðsins í tengslum við valdheimildir, stefnu stjórnvalda gagnvart frjálsum félagasamtökum og opinberri stefnu í ferðamálum og ferðaflæði á alþjóðavettvangi.

Íslensk utanríkismál hafa verið í stöðugri mótun og endurmótun frá lokum kalda stríðsins. Eftir þá ákvörðun Bandaríkjastjórnar að hverfa með herlið sitt frá Íslandi varð endanlega ljóst að Ísland hefði misst fyrra hernaðarvægi. Samskiptin við Evrópu vega þyngra í utanríkisstefnunni með aðildinni að EES-samningnum og Schengen samstarfinu. Brugðist hefur við nýju hlutverki NATO sem hernaðarbandalagi á heimsvísu með þátttöku í friðargæslu og aukin áhersla er lögð á þróunaraðstoð. Þá hafa íslensk stjórnvöld þurft að laga sig að breyttu starfi hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði umhverfismála, mannréttinda, þróunaraðstoðar og öryggismála. Loks hefur verið tekist á um ýmis alþjóðamál í innanlandspólitísku samhengi, eins og t.d. Evrópska efnahagssvæðið, Íraksstríðið og Kyoto-samninginn.
Valur Ingimundarson er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Greinar í bókinni eiga: Anna Karlsdóttir, Auður H. Ingólfsdóttir, Áslaug Ásgeirsdóttir, Baldur Þórhallsson, Björg Thorarensen, Gunnar Páll Baldvinsson, Gylfi Zoega, Helga Björnsdóttir, Kristín Loftsdóttir, Pétur Dam Leifsson, Sigurður Jóhannesson, Steinunn Hrafnsdóttir og Valur Ingimundarson.
Ritið er 417 blaðsíður og útgefendur eru Hið íslenska bókmenntafélag og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.

Ritið 1/2008 – Saga og sjálfsmyndir

Út er komið nýtt tölublað Ritsins – Tímarits Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þema heftisins er Saga og sjálfsmyndir. Í heftinu eru níu greinar sem fjalla hver með sínum hætti um spurningar er varða notkun sögunnar til að móta sjálfsmyndir þjóða, hópa og einstaklinga. Þar að auki er að vanda að finna í heftinu myndaþátt sem einnig hverfist um meginefni þess.

Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir ríður á vaðið með grein um stórfellda hagnýtingu klisjunnar í framsetningu íslenskrar sögu með ríkisstyrktum sýningum víða um land. Gagnrýni Önnu beinist að því að yfirvöld séu í raun að breyta sögunni og sjálfsmyndinni í það sem kallað er á erlendum málum kitsch og á fremur heima í minjagripasjoppum en á sýningum sem styrktar eru af almannafé í nafni menningartengdrar ferðaþjónustu.
Sigríður Matthíasdóttir skoðar hvernig hugmyndir manna um „kvenleika“ og „eðli“ kvenna breyttust undir lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. og greinir hvernig kenningar um frelsi kvenna sem einstaklinga rákust á hversdagslegan veruleika karlmanna þannig að sumir þeirra sem áður studdu aukin mannréttindi kvenna sviku þann málstað þegar til átti að taka. Svanur Kristjánsson rekur þessa sögu andspænis hinum pólitíska bakgrunni og tengir sinnaskipti karlanna við óttann um að missa völdin.
Sverrir Jakobsson tekst á við þá spurningu hvort og hvernig sagnfræði sé mörkuð af fyrirframgefnu fræðilegu viðhorfi eða „kenningum“ og dregur m.a. fram athyglisverðar hliðstæður milli aðferðafræði sagnfræðinga og raunvísindamanna. Guðmundur Jónsson skoðar einnig átökin milli hinnar hefðbundnu, (raun)vísindalegu nálgunar sagnfræðinnar og þeirra kenninga, gamalla og nýrra, sem dregið hafa þessa aðferðafræði í efa. Róbert H. Haraldsson fer síðan vendilega yfir sannleikshugtakið í sagnfræði frá heimspekilegu sjónarhorni.
Einnig er í heftinu tvær merkar greinar eftir þau Joan Scott og Joep Leerssen í íslenskri þýðingu Maríu Bjarkadóttur. Greinar þessar taka einmitt á þeim nýju sjónarhornum sem komið hafa fram í sagnfræði og þjóðernisrannsóknum á síðari árum og snerta þannig mörg viðfangsefni annarra greinarhöfunda í þessu hefti Ritsins.
Myndaþáttur heftisins hefur að geyma myndir eftir Helga Arason (1893-1972). Myndirnar bregða ljósi á líf fjölskyldu í Öræfasveit á fjórða áratug síðustu aldar, eins og fræðast má um í aðfararorðum Sigrúnar Sigurðardóttur að myndaþættinum.
Ritið 1/2008 er 215 bls.
Útgefandi er Hugvísindastofnun Háskóla Íslands. Ritið kemur út þrisvar sinnum á ári. Þeir sem vilja gerast áskrifendur eru beðnir að snúa sér til Margrétar Guðmundsdóttur, verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar (mgu@hi.is). Háskólaútgáfan annast dreifingu í verslanir. Ársáskrift kostar kr. 5.900.
Leiðbeinandi útsöluverð einstakra hefta er 2.900 kr.

Tilvist, trú og tilgangur eftir dr.dr. Sigurjón Árna Eyjólfsson

Meginþema bókarinnar eru áleitnar spurningar sem mannkyn hefur glímt við:
Er Guð til? Hver er tilgangur lífsins?
Guðfræðingar hafa um aldir leitað í smiðju til heimspekinnar til þess að skýra samband Guðs og manns. Í þessari bók er fjallað um nokkrar helstu kenningar um tilvist Guðs, allt frá guðssönnunum Anselms frá Kantaraborg til guðsafneitunar Nietzsches.
Lýst er tengslum guðfræði og heimspeki, inntak trúarhugtaksins er útskýrt, auk þess sem fjallað er um þá tilvistartúlkun sem löngum hefur sett mark sitt á evangelísk-lútherska guðfræði.

Efnisskipan bókarinnar, trú, tilvist og loks tilgangur – er í samræmi við það sjónarmið guðfræðinnar að öll íhugun hennar sé í raun eftir á, eða í ljósi trúarinnar. Frumforsenda hennar er að Guð sé sá sem veki trúna og að í sambandi við hann öðlist líf mannsins tilgang.
Dr. dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson er héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og stundakennari við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi í guðfræði við Háskólann í Kiel og frá guðfræðideild H.Í. Sigurjón hefur áður sent frá sér viðamiklar bækur um guðfræðileg málefni sem Bókmenntafélagið gaf einnig út: Þetta eru bækurnar Guðfræði Marteins Lúthers, Kristin siðfræði í sögu og samtíð og Ríki og kirkja – uppruni og þróun þjóðkirkjuhugtaksins. Þá hefur Sigurjón ritað inngang að Lærdómsritunum Um ánauð viljans eftir Martein Lúther og Um holdgun Orðsins eftir Aþanasíus frá Alexandríu.

Slavoj Žižek: Óraplágan

Nýtt rit í flokki Lærdómsrita Bókmenntafélagsins er komið út. Óraplágan er einstök vitsmunaleg rússíbanareið þar sem vísunum í alþekktar kvikmyndir og hversdagsleg menningarfyrirbæri er blandað saman við kenningar merkustu heimspekinga á listilegan hátt, þannig að úr verður fræðilegt dýnamít sem á engan sinn líka í samtímanum. Slóvenski heimspekingurinn Slavoj Žižek er í hópi þekktustu samfélagsrýna samtímans og vakti mikla athygli þegar hann sótti Ísland heim í mars á þessu ári. Hér birtist loks fyrsta rit hans á íslensku.

Þess má geta, að Slavoj Žižek mun verða gestur Hins íslenska bókmenntafélags hérlendis í lok janúar næstkomandi og flytja fyrirlestra, sem nánar verða auglýstir síðar. Eins og getið var hér að ofan var hann hér í vor og hélt fyrirlestra m.a. í Listaháskólanum fyrir fullu húsi áheyrenda. Það er því ekki ólíklegt að margir muni hafa áhuga á þessari bók. Í haust-hefti Skírnis er áhugaverð grein eftir Magnús Þór Snæbjörnsson sem gagnrýnir Draumalandið Andra Snæs út frá kenningum Žižeks.
Haukur Már Helgason þýddi. Inngangur er eftir Andra Fannar Ottóson og Steinar Örn Atlason.

Friedrich Schleiermacher: Um trúarbrögðin – Ræður handa menntamönnum sem fyrirlíta þau

Nýtt rit í flokki Lærdómsrita Bókmenntafélagsins er komið út. Í Um trúarbrögðin rís Schleiermacher gegn skynsemishyggju og kaldri rökhyggju upplýsingarinnar og skilgreinir trúarbrögðin í tengslum við upplifun mannsins, það sem snertir hjarta hans eða innsta veruleika.

Schleiermacher (1768–1834) var þýskur guðfræðingur og heimspekingur og hefur stundum verið kallaður faðir nútíma mótmælendaguðfræði.
Hér birtist mikilvægi þess fyrir samfélagið allt að trúarbrögðin, rétt eins og heimspeki og hugmyndafræði almennt, verði viðfangsefni lifandi og opinnar rökræðu.
Jón Árni Jónsson þýddi.
Inngangur eftir Sigurjón Árna Eyjólfsson.

Íris Ellenberger: Íslandskvikmyndir 1916-1966 – Ímyndir, sjálfsmynd og vald

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands hefur sent frá sér bókin Íslandskvikmyndir 1916-1966. Ímyndir, sjálfsmynd og vald eftir Írisi Ellenberger sagnfræðing. Íris rekur þar sögu 60 heimildarmynda um Ísland í ljósi sjónrænnar menningar, pólitísks andrúmslofts, viðskiptahagsmuna, strauma í kvikmyndagerð og kenninga um það vald sem talið er innbyggt í miðilinn.

Íslandsmyndir frá árunum 1916-1966 vörpuðu fram ákveðnum ímyndum af landi og þjóð sem grundvölluðust á sjálfsmynd Íslendinga en þó aðallega á fyrirframgefnum hugmyndum erlendra manna og kvenna um Ísland og íbúa þess. Þessar ímyndir eiga rætur að rekja aftur í aldir en Íslandsmyndirnar áttu þátt í að skapa og þróa þá þætti sem enn þann dag í dag er beint að erlendum neytendum og hafa jafnvel ratað í sjálfsmynd Íslendinga.
Íris Ellenberger lauk M.A.-prófi frá Háskóla Íslands haustið 2006 og stundar nú doktorsnámi í sagnfræði við sama skóla.
Íslandskvikmyndir 1916-1966. Ímyndir, sjálfsmynd og vald er önnur bókin í Meistaraprófsritröð Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands.
Dreifingu annast Háskólaútgáfan.

Hausthefti tímaritsins Sögu er komið út

Eru öll gömul hús merkileg? Voru stjórnvöld viðbúin kjarnorkuárás á Ísland á
6. og 7. áratugnum? Hefði Fjölnismaðurinn Tómas Sæmundsson orðið
forystumaður íslenskra íhaldsmanna ef honum hefði enst aldur? Er
Landnámssýningin Reykjavík 871 ±2 raunveruleikaþáttur úr fortíðinni? Var
frillulífi viðurkennt sambúðarform á miðöldum? Hvað getur íslenskt safnafólk
lært af kollegum sínum í Skotlandi? Hver fann upp fjósið? Í hverju fólst
gagnrýni á þingræðið á árunum milli stríða? Hver var þekking Íslendinga á
Rússlandi á 19. öld? Þetta eru aðeins nokkrar þeirra fjölmörgu spurninga sem
höfundar efnis í hausthefti Sögu glíma við.

Allar nánari upplýsingar um Sögu er að finna á heimasíðu Sögufélags www.sogufelag.is.
Ritstjórar sögu eru Eggert Þór Bernharðsson og Páll Björnsson.