Uppbrot hugmyndakerfis: Endurmótun íslenskrar utanríkisstefnu 1991-2007 í ritstjórn Vals Ingimundarsonar

Út er komið ritið Uppbrot hugmyndakerfis: Endurmótun íslenskrar utanríkisstefnu 1991-2007 í ritstjórn Vals Ingimundarsonar. Í þessari bók er fjallað um þróun íslenskrar utanríkisstefnu og ýmsar breytingar sem orðið hafa á stöðu Íslands á alþjóðavettvangi á tímabilinu 1991-2007. Að vissu leyti er þessi nýja bók sjálfstætt framhald af ritverki Péturs Thorsteinssonar sendiherra, “Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál – Sögulegt yfirlit”, sem Bókmenntafélagið gaf út 1992. Hér er um að ræða samvinnu 13 fræðimanna á sviði stjórnmálafræði, sagnfræði, lögfræði, landfræði, mannfræði, félagsráðgjafar og hagfræði. Sjónum er sérstaklega beint að: samskiptum Íslands og Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum, þátttöku Íslands í Evrópusamrunanum, stefnu Íslands í friðargæslu og þróunarmálum, þeim breytingum sem orðið hafa á utanríkisviðskiptum Íslendinga og afstöðu stjórnvalda til erlendra fjárfestinga í stóriðju, aðild Íslands að samningum um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum, samningum um fiskveiðistjórnun vegna veiða úr flökkustofnum og á alþjóðlegum hafsvæðum, skuldbindingum Íslands vegna mannréttindasamninga og framkvæmd fyrirmæla Öryggisráðsins í tengslum við valdheimildir, stefnu stjórnvalda gagnvart frjálsum félagasamtökum og opinberri stefnu í ferðamálum og ferðaflæði á alþjóðavettvangi.

Íslensk utanríkismál hafa verið í stöðugri mótun og endurmótun frá lokum kalda stríðsins. Eftir þá ákvörðun Bandaríkjastjórnar að hverfa með herlið sitt frá Íslandi varð endanlega ljóst að Ísland hefði misst fyrra hernaðarvægi. Samskiptin við Evrópu vega þyngra í utanríkisstefnunni með aðildinni að EES-samningnum og Schengen samstarfinu. Brugðist hefur við nýju hlutverki NATO sem hernaðarbandalagi á heimsvísu með þátttöku í friðargæslu og aukin áhersla er lögð á þróunaraðstoð. Þá hafa íslensk stjórnvöld þurft að laga sig að breyttu starfi hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði umhverfismála, mannréttinda, þróunaraðstoðar og öryggismála. Loks hefur verið tekist á um ýmis alþjóðamál í innanlandspólitísku samhengi, eins og t.d. Evrópska efnahagssvæðið, Íraksstríðið og Kyoto-samninginn.
Valur Ingimundarson er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Greinar í bókinni eiga: Anna Karlsdóttir, Auður H. Ingólfsdóttir, Áslaug Ásgeirsdóttir, Baldur Þórhallsson, Björg Thorarensen, Gunnar Páll Baldvinsson, Gylfi Zoega, Helga Björnsdóttir, Kristín Loftsdóttir, Pétur Dam Leifsson, Sigurður Jóhannesson, Steinunn Hrafnsdóttir og Valur Ingimundarson.
Ritið er 417 blaðsíður og útgefendur eru Hið íslenska bókmenntafélag og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.