Fyrri heimsstyrjöld: sögutúlkanir og samtímaáhrif 1914-2014

Í tilefni þess að hundrað ár eru liðin frá upphafi fyrri heimsstyrjaldar verður haldið alþjóðlegt málþing föstudaginn 24. október 2014 um sögutúlkanir og samtímaáhrif ófriðarins. Að málþinginu stendur Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands í samvinnu við breska sendiráðið og þýska sendiráðið í Reykjavík. Málþingið fer fram á ensku og hefst kl. 13 og lýkur kl. 17.
Þar munu tveir erlendir fyrirlesarar flytja erindi: Christopher Cornelißen, prófessor í samtímasögu við Goethe-háskóla í Frankfurt, beinir sjónum að deilum sagnfræðinga um ábyrgð Þjóðverja á stríðsrekstrinum og Christopher Coker, prófessor í alþjóðasamskiptum við London School of Economics, fjallar um áhrif ófriðarins og möguleikum á stórveldastríði á okkar tímum. Auk þess munu fjórir íslenskir sagnfræðingar flytja erindi á málþinginu. Valur Ingimundarson, prófessor í samtímasögu við HÍ, greinir umfjöllun um stríðið út frá evrópskri sagnaritun og minni. Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði við HÍ, gerir að umtalsefni þær breytingar sem urðu á íslensku samfélagi í ófriðnum. Anna Agnarsdóttir, prófessor í sagnfræði við HÍ, fjallar um sögulega hagsmuni breskra stjórnvalda á Íslandi á stríðstímum. Loks skoðar Ólafur Arnar Sveinsson, doktorsnemi í sagnfræði við HÍ, þá orðræðu sem spannst í Norður-Ameríku um stríðsþátttöku hermanna af íslenskum ættum sem gengið höfðu í kanadíska herinn. Ragnheiður Kristjánsdóttir, lektor í sagnfræði við HÍ, stjórnar málþinginu.
Málþingið er öllum opið og aðgangur ókeypis.

Leave a Reply