Vorhefti Sögu 2010

Vorhefti Sögu kom út á dögunum. Markar ritið upphaf 48 árgangs og inniheldur fjölda áhugaverða umfjallana um söguleg efni.


Vorhefti Sögu 2010 kom út á dögunum. Elín Hafstein, fædd árið 1869 á Möðruvöllum í Hörgárdal, prýðir forsíðu tímaritsins að þessu sinni sem inniheldur fjölbreytt efni að vanda. Auk greinar Sigrúnar Sigurðardóttur um efni forsíðunnar skulu fyrst nefndar tvær greinar. Sú fyrri er eftir Davíð Ólafsson og fjallar um alþjóðlega strauma í rannsóknum á handritamenningu síðari alda og hvernig þær rannsóknir geta nýst til skilnings á íslenskri bókmenningu eftir siðaskipti. Sú síðari er eftir Rósu Magnúsdóttur og fjallar um íslenskar ferðalýsingar á Sovétríkjunum. Í nýjum bálki Sögu sem nefnist „Sögur og tíðindi“ birtast tvær greinar. Karl Aspelund skrifar um handrit að ferðabók um Ísland sem nýlega fannst í bókasafni í Bandaríkjunum, og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson segir okkur frá þjálfun bandarískra geimfara á Íslandi á 7. áratugnum. Þá heldur deila Jóns Ólafssonar og Þórs Whitehead um samskipti íslenskra kommúnista og Komintern áfram með svari Jóns í viðhorfsgrein.
Spurning Sögu varðar sögulegar rætur 26. greinar stjórnarskrárinnar, sem kveður á um vald forseta til að synja lagafrumvarpi staðfestingar. Auk þess að varpa ljósi á forsögu þessa ákvæðis – í svörum sérfræðinganna koma fram ýmsar nýjar sögulegar staðreyndir um tilurð þess – og ólíkan skilning á því í tímans rás, má ætla að svör sérfræðinganna sem hér birtast geti orðið innlegg í umræðu um endurskoðun stjórnarskrárinnar og framtíð forsetaembættisins.
Í vorhefti Sögu birtast nú 11 ritdómar, flestir um bækur sem komu út á síðasta ári. Að lokum skulu nefnd erindi sem flutt voru í tilefni veitingar doktorsnafnbótar í heiðursskyni til Ólafíu Einarsdóttur í nóvember árið 2009. Ólafía var frumkvöðull á ýmsum sviðum, meðal annars var hún fyrst íslenskra kvenna til að ljúka doktorsprófi í sagnfræði.
Sjá má efnisyfirlit hér.
Saga fæst í öllum helstu bókabúðum og jafnframt hjá útgefandum sjálfum, Sögufélaginu í Fishersundi, Reykjavík.