Vorhefti Skírnis 2010 – Tímarits hins íslenska bókmenntafélags

Vorhefti Skírnis 2010 er komið út. Greinar um byltinguna á Bessastöðum, tímasetningu landnáms, kynþáttahyggju á Íslandi og margt fleira athyglisvert efni.
Skírnir er 260 blaðsíður að stærð að þessu sinni og markar vorheftið 2010 upphaf 184. árgangs. Útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag en ritstjóri er Halldór Guðmundsson.

Út er komið vorhefti Skírnis, tímarits Hins íslenska bókmenntafélags. Tímaritið vill leggja sitt til umræðunnar sem hafin er á Íslandi um lærdóma af bankahruninu og breytingar á stjórnskipan og stjórnarskrá, á málefnalegan og fræðilegan hátt eftir því sem kostur er. Þannig eru í þessu hefti tvær greinar sem tengjast hugmyndum um stjórnarskrá og hlutverk forsettaembættisins, skrifaðar frá ólíkum sjónarhornum. Annars vegar er það söguleg umfjöllun Svans Kristjánssonar um sambandsslitin 1944, þar sem hann ræðir ólíkan skilning ráðamanna á lýðræði og valdi sem enn setur svip sinn á stjórnmál samtímans, og hins vegar grein Guðna Th. Jóhannessonar um breytingar á forsetaembættinu í valdatíð Ólafs Ragnars Grímssonar, sem hann nefnir Byltingin á Bessastöðum og sem um sumt kallast á við niðurstöður rannsóknarnefndarinnar um siðferði og starfshætti, þó að grein Guðna sé samin áður en nefndin lýsti niðurstöðum sínum. Í Skírnismálum er svo að finna hugleiðingu Árna Björnssonar um sjálfa undirrót bankahrunsins.

Það má greina enduróm af helstu deilumálum okkar tíma í tveimur öðrum Skírnisgreinum að þessu sinni, og er önnur skrifuð frá mannfræðilegu en hin þjóðfræðilegu sjónarmiði: Kristín Loftsdóttir skrifar um kynþáttahyggju og fordóma á Íslandi, meðal annars með dæmum úr skáldskap, en Bryndís Björgvinsdóttir ræðir um átök um menningararf í samtímanum. Menningararfurinn kemur reyndar við sögu í fróðlegri samantekt Braga Þ. Ólafssonar um tillögur góðra manna um að koma íslensku handritunum í skjól í heimsstyrjöldinni síðari. Þá halda áfram skoðanaskiptin um tímasetningu landnáms á Íslandi sem Páll Theodórsson hóf í síðasta Skírni, því að starfsfélagi hans Þorsteinn Vilhjálmsson svarar honum hér. Annað andsvar birtist í Skírnismálum, þar sem Þorsteinn Þorsteinsson bregst við umfjöllun Bergljótar Kristjánsdóttur um bók hans um Sigfús Daðason og ljóðagerð hans. Þorsteinn á jafnframt aðra grein í heftinu, um kvæðabálk Halldórs Laxness um unglinginn í skóginum og stöðu hans í ljóðlist samtímans. Loks ritar Ármann Jakobsson eins konar inngang að íslenskum draugafræðum.
Í bókmenntahlutanum er að finna áður óbirt ljóð eftir þau Anton Helga Jónsson og Ingunni Snædal, en ritdómana skrifa þau Gunnþórunn Guðmundsdóttir um Þórbergsbækur Péturs Gunnarssonar, og Björn Bjarnason um bók Árna Heimis Ingólfssonar um Jón Leifs.
 
Myndlistarmaður Skírnis að þessu sinni er Hildur Hákonardóttir, og fjallar Hrafnhildur Schram um þrjá myndvefnaði hennar. Kápumynd er eftir Hildi Hákonardóttur en Steinholt annaðist prentun.