Út er komið hausthefti Sögu 2008

Efnið í nýjasta hefti tímaritsins Sögu er bæði fjölbreytt og spennandi. Þar er t.d. fjallað um ímyndarskýrslu forsætisráðuneytis, Landnámu, Komintern, stjórn Dana á Íslandi, Stasi, glímufélagið Ármann, Viðeyjarklaustur, íslenskar heimildamyndir og gildi munnlegrar sögu.

Lengri greinar eru fjórar. Fyrst má nefna að Auður A. Ólafsdóttir fjallar um nýlega ímyndarskýrslu forsætisráðuneytis og hvernig myndlistarmenn hafa tekist á við þá ímynd af Íslandi sem hvað mest hefur verið haldið á lofti í tengslum við fjármálaútrás síðustu ára. Þá greinir Björn Ægir Norðfjörð heimildagildi og viðfangsefni nýlegra íslenskra heimildamynda. Hann telur að myndirnar sýni ekki þverskurð af samfélaginu og að aðferðafræðilega einkennist þær af einsleitni. Í þriðja lagi fjallar Þór Whitehead um aðdragandann að stofnun Sósíalistaflokksins árið 1938. Hann gagnrýnir nýlega greiningu Jóns Ólafssonar í Sögu á hlut Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns, og færir rök fyrir því að stofnun flokksins hafi verið eftir skilyrðum sambandsins. Loks fjalla Birgir Guðmundsson og Markus Meckl um Ísland og Íslendinga í skjölum austurþýsku öryggislögreglunnar Stasi. Þeir ræða m.a. um hvað beri að varast í notkun skjalanna; þau sýni tortímingarmátt Stasi um leið og þau dragi upp mynd af sýndarveruleika.
Viðhorfsgreinar eru fjórar. Gunnar Karlsson veltir því fyrir sér hvort aldalöng yfirráð Dana yfir Íslandi hafi verið böl eða blessun fyrir Íslendinga. Niðurstaða hans er sú að Íslendingar hafi almennt farið frekar vel út úr samskiptunum við Dani. Í öðru lagi sýnir Jón M. Ívarsson fram á að glímufélagið Ármann sé töluvert yngra en talið hefur verið. Þá fjallar Sveinbjörn Rafnsson um heimildagildi Landnámu. M.a. nefnir hann skilning óbyggðanefndar á frumstofnun eignarréttar og færir rök fyrir því að sá skilningur komi ekki að öllu leyti heim við sögulegar heimildir. Loks veltir Þórir Stephensen fyrir sér mikilvægi Viðeyjar sem sögustaðar og færir rök fyrir því að nauðsynlegt sé að halda áfram fornleifarannsóknum í eynni.
Þá er tvíþætt umfjöllun um munnlega sögu. Annars vegar er viðtal Unnar Maríu Bergsveinsdóttur við einn þekktasta forvígismann Finna á þessu sviði, Ulla-Maija Peltonen. Hins vegar ræðir Birna Björnsdóttir um hvernig nýta megi munnlega sögu til að kveikja áhuga nemenda á sögunni og vekja þá til umhugsunar um hvernig saga kennslubókanna verði til.
Í sjónrýnisbálknum ræðir Þórarinn Guðnason um Samuel Kadorian og fágætar ljósmyndir hans frá Íslandi, sem Kvikmyndasafn Íslands eignaðist fyrir skömmu. Hugleiðinguna ritar Guðni Th. Jóhannesson og veltir hann fyrir sér stöðu íslenskrar sagnfræði. Út úr skjalaskápnum dregur síðan Hrafnkell Lárusson fram handskrifaða lækningabók úr Héraðsskjalasafni Austfirðinga. Loks má nefna að ritdómar og ritfregnir eru á sínum stað.
Ritstjórar Sögu eru Eggert Þór Bernharðsson og Páll Björnsson.
Nánari upplýsingar um heftið er að finna á vefsíðu Sögufélags: http://www.sogufelag.is