Um lög og lögfræði

Út er komin 2. útgáfa bókarinnar Um lög og lögfræði I eftir Sigurð Líndal.

Út er komin 2. útgáfa bókarinnar Um lög og lögfræði I eftir Sigurð Líndal.
Í ritinu er leitast við að skýra nokkur grundvallaratriði í lögskipan þjóðfélagsins með megináherslu á helstu réttarheimildir. Þau fræði sem hér er fjallað um og kalla má inngangsfræði hafa þá sérstöðu að ná með einum eða öðrum hætti til allra sérgreina lögfræðinnar og hafa að auki náin tengsl við greinar utan hennar svo sem guðfræði, heimspeki, þar á meðal rökfræði, siðfræði og túlkunarfræði, við sagnfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði og sálfræði; er þó engan veginn allt talið.
Ritið skiptist í eftirtalda tíu kafla: I Grundvöllur laga II Réttarheimildir III Settur réttur IV Kjarasamningar V Réttarvenja – Venjuréttur VI Fordæmi VII Viðauki. – Um heimild dómstóla til að setja lög VIII Stjórnsýslufordæmi IX Meginreglur laga X Eðli máls Sigurður Líndal, höfundur ritsins, var prófessor við lagadeild Háskóla Íslands 1972-2001, Kennslugreinar hans voru almenn lögfræði, réttarsaga og vinnumarkaðsréttur. Auk þess kenndi hann um skeið stjórnsýslurétt í viðskiptadeild. Sigurður Líndal hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum á ferli sínum og verið forseti Hins íslenska bókmenntafélags frá 1967. Hann hefur ritað greinar um margvísleg efni og ritstýrt bókum og tímaritum. Viðamikla ritaskrá Sigurðar er að finna í Líndælu, afmælisriti honum til heiðurs, gefin út á sjötugsafmæli hans í fyrra.
Ritið er 427 bls. Hið íslenska bókmenntafélag gefur út.