Topographies of Globalization: Politics, Culture, Language

Í bókinni er fjallað um hugtakið og fyrirbærið hnattvæðingu út frá margvíslegum sjónarhornum, m.a. stjórnmálum, menningu, kynjamun og tungumálum. Ritstjórar eru Valur Ingimundarson, Kristín Loftsdóttir og Irma Erlingsdóttir.

Greinarnar í bókinni eru eftir íslenska og erlenda höfunda, en þær eru að hluta til byggðar á erindum sem flutt voru á alþjóðlegri ráðstefnu um hnattvæðingu við Háskóla Íslands. Meðal höfunda er pólski félagsfræðingurinn Zygmunt Bauman. Bókin er liður í alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem skipulagt er af GERM (Groupe d‘Études et de Recherches sur les Mondialisations). þetta er rannsóknarhópur um hnattvæðingu, sem Evrópusambandið styrkir, en þátttakendur eru fræðimenn, háskólar og stofnanir. Hugtakið „hnattvæðing“ hefur verið notað til þess að lýsa síauknu flæði, hvort sem er á sviði hugmynda, menningar, hagfræði/viðskipta eða hreyfanleika fólks. Hnattvæðing hefur, rétt eins og þjóðernishyggja og nútímavæðing, verið umdeilt fyrirbæri og haft víðtæk þjóðfélagsleg áhrif. Greinasafninu er skipt í fjóra samtengda hluta. Í fyrsta hlutanum er m.a. fjallað um togstreituna milli hins hnattræna og staðbundna og endurmótun pólitískra valdatengsla milli „hins vestræna og hinna“, „stríðið gegn hryðjuverkum“ og átakastjórnun. Í öðrum hluta er lögð áhersla á menningarhugtakið og flæði sjálfsmynda í tengslum við afmarkanir hnattvæðingar í rými. Áhrif hnattvæðingar á mismunun, t.d. hvað varðar breytur eins kyn, stétt og þjóðerni, eru tekin fyrir í þriðja hluta. Að lokum, í fjórða hluta, er fjallað um hnattvæðingu út frá tungumálafræð og þýðingum í fjölmiðlavæddum og „hröðuðum“ heimi. Bókin á erindi við alla sem hafa áhuga á þeim fjölþættu málefnum sem tengjast hnattvæðingu.