Tómas af Aquino: Um lög

Tómas af Aquino var einn mesti hugsuður kirkjunnar á miðöldum og jafnframt einn merkilegasti heimspekingur vesturlanda fyrr og síðar og ná áhrif hans langt út fyrir raðir kristinna manna. Um lög er sá hluti af höfuðritverki Tómasar, Summa Theologiæ, sem fjallar um eðli laga og er enn í dag grundvallarrit bæði í lögfræði og heimspeki.

Í ritinu veltir Tómas því m.a. fyrir sér hvort lögum sé ætíð skipað til almannaheilla, hvort til séu eilíf lög, hvort til séu lög lostans og hvort lög manna skuldbindi samvisku manna. Í heimspeki sinni styðst Tómas mjög víða við verk Aristótelesar, ekki síst siðfræði hans. Það var fyrst og fremst fyrir tilstilli Tómasar að Aristóteles varð heimspekingur kirkjunnar á miðöldum. Fyrir tíma Tómasar höfðu kristnir hugsuðir, t.d. Ágústínus kirkjufaðir, einkum litið til Platons en haft litlar mætur á Aristótelesi.
Garðar Gíslason hæstaréttardómari skrifar ítarlegan og fróðlegan inngang að bókinni þar sem hann segir frá ævi Tómasar og gerir grein fyrir meginhugmyndum hans um eðli laga. Þýðandi er Þórður Kristinsson kennslustjóri HÍ.