Tilvist, trú og tilgangur eftir dr.dr. Sigurjón Árna Eyjólfsson

Meginþema bókarinnar eru áleitnar spurningar sem mannkyn hefur glímt við:
Er Guð til? Hver er tilgangur lífsins?
Guðfræðingar hafa um aldir leitað í smiðju til heimspekinnar til þess að skýra samband Guðs og manns. Í þessari bók er fjallað um nokkrar helstu kenningar um tilvist Guðs, allt frá guðssönnunum Anselms frá Kantaraborg til guðsafneitunar Nietzsches.
Lýst er tengslum guðfræði og heimspeki, inntak trúarhugtaksins er útskýrt, auk þess sem fjallað er um þá tilvistartúlkun sem löngum hefur sett mark sitt á evangelísk-lútherska guðfræði.

Efnisskipan bókarinnar, trú, tilvist og loks tilgangur – er í samræmi við það sjónarmið guðfræðinnar að öll íhugun hennar sé í raun eftir á, eða í ljósi trúarinnar. Frumforsenda hennar er að Guð sé sá sem veki trúna og að í sambandi við hann öðlist líf mannsins tilgang.
Dr. dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson er héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og stundakennari við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi í guðfræði við Háskólann í Kiel og frá guðfræðideild H.Í. Sigurjón hefur áður sent frá sér viðamiklar bækur um guðfræðileg málefni sem Bókmenntafélagið gaf einnig út: Þetta eru bækurnar Guðfræði Marteins Lúthers, Kristin siðfræði í sögu og samtíð og Ríki og kirkja – uppruni og þróun þjóðkirkjuhugtaksins. Þá hefur Sigurjón ritað inngang að Lærdómsritunum Um ánauð viljans eftir Martein Lúther og Um holdgun Orðsins eftir Aþanasíus frá Alexandríu.