Stjórnarráð Íslands 1964-2004

Í tilefni af eitt hundrað ára afmæli Stjórnarráðsins er ritið Stjórnarráð Íslands 1964-2004, 1. og 2. bindi, komið út og gert er ráð fyrir að 3. bindi komi út á haustdögum. Ritið er hugsað sem framhald á tveggja binda verki Agnars Kl. Jónssonar, Stjórnarráð Íslands 1904-1964, sem kom út árið 1969.

Í tilefni af eitt hundrað ára afmæli Stjórnarráðs Íslands er komið út ritið Stjórnarráð Íslands 1964-2004, 1. og 2. bindi. Ákvörðun um samningu ritsins var tekin af stjórnvöldum árið 1999. Ritstjórn skipuðu Björn Bjarnason (formaður), Heimir Þorleifsson og Ólafur Ásgeirsson, en ritstjóri er Sumarliði R. Ísleifsson sagnfræðingur.
Fyrsta bindið nefnist Skipulag og starfshættir, og eru aðalhöfundar þess Ásmundur Helgason lögfræðingur og Ómar H. Kristmundsson
stjórnsýslufræðingur; auk þeirra eiga Gunnar Helgi Kristinsson, Kristjana
Kristinsdóttir, Ingibjörg Sverrisdóttir og Sumarliði R. Ísleifsson kafla í
bindinu. Hér er rakin þróun Stjórnarráðsins frá stofnun þess og fram til
1969 þegar ný lög voru sett um Stjórnarráðið. Þá eru raktar breytingar sem
síðan hafa orðið á skipulagi Stjórnarráðsins sem og á hugmyndum um hlutverk þess. Gefið er yfirlit yfir sögu allra ráðuneyta, gerð grein fyrir hlut Stjórnarráðsins í laga- og reglusetningu sem og hvernig eftirliti Alþingis með starfsemi framkvæmdavaldsins hefur breyst á tímabilinu.
Annað bindið nefnist Saga ríkisstjórna og helstu framkvæmdir til 1983. Höfundar þessa bindis eru Ólafur Rastrick sagnfræðingur, sem skrifar um viðreisnartímabilið (fram til 1971), og Sumarliði R. Ísleifsson sem skrifar um tímabilið 1971-1983. Í hvorum hluta er rakin stjórnmálaþróun og helstu verkefni ríkisstjórna, mennta- og velferðarmál, atvinnu- og umhverfismál sem og utanríkismál. Hér er m.a. fjallað um stjórnarmyndanir, samskipti innan ríkisstjórna og einkenni á stjórnarstefnu hvers tíma. Í þriðja bindi verksins, sem kemur út síðar á árinu, verður tímabilinu frá 1983 og til þessa dags gerð skil.