Slavoj Žižek: Óraplágan

Nýtt rit í flokki Lærdómsrita Bókmenntafélagsins er komið út. Óraplágan er einstök vitsmunaleg rússíbanareið þar sem vísunum í alþekktar kvikmyndir og hversdagsleg menningarfyrirbæri er blandað saman við kenningar merkustu heimspekinga á listilegan hátt, þannig að úr verður fræðilegt dýnamít sem á engan sinn líka í samtímanum. Slóvenski heimspekingurinn Slavoj Žižek er í hópi þekktustu samfélagsrýna samtímans og vakti mikla athygli þegar hann sótti Ísland heim í mars á þessu ári. Hér birtist loks fyrsta rit hans á íslensku.

Þess má geta, að Slavoj Žižek mun verða gestur Hins íslenska bókmenntafélags hérlendis í lok janúar næstkomandi og flytja fyrirlestra, sem nánar verða auglýstir síðar. Eins og getið var hér að ofan var hann hér í vor og hélt fyrirlestra m.a. í Listaháskólanum fyrir fullu húsi áheyrenda. Það er því ekki ólíklegt að margir muni hafa áhuga á þessari bók. Í haust-hefti Skírnis er áhugaverð grein eftir Magnús Þór Snæbjörnsson sem gagnrýnir Draumalandið Andra Snæs út frá kenningum Žižeks.
Haukur Már Helgason þýddi. Inngangur er eftir Andra Fannar Ottóson og Steinar Örn Atlason.