Saga Íslands IX. bindi

Í þessu bindi er hin almenna saga rakin frá lokum 18. aldar til ársins 1874. Greint er frá endalokum Alþingis og stofnun Landsyfirréttar, en þessir atburðir, ásamt því að biskupsstólarnir í Skálholti og á Hólum eru lagðir niður, marka upphaf nútímaríkis á Íslandi. Sögunni lýkur síðan við þjóðhátíðarárið 1874. Bókin skiptist í þrjá meginkafla.

Höfundur fyrsta meginkaflans er Anna Agnarsdóttir prófessor og nefnist hann Aldahvörf og umbrotatímar. Þar er gerð grein fyrir áðurnefndum tímamótum og í framhaldi af því stöðu Íslands í Napóleonsstyrjöldunum 1800-1814, en þá lendir Ísland á áhrifasvæði Bretlands og tengslin við Danmörku slakna. Ríkisgjaldþrot verður 1813, verðbólga og vöruskortur fylgir, skipt er um mynt. Einstakur atburður verður árið 1809 þegar ævintýramaðurinn Jörgen Jörgensen gerir byltingu á Íslandi með fulltingi enskra kaupmanna og lýsir yfir sjálfstæði Íslands. Loks er greint frá skólamálum, þar á meðal latínuskólanum á Bessastöðum og Hausastaðastóla, og viðgangi Reykjavíkur sem höfuðstaðar Íslands.
Næsti meginkafli er eftir Gunnar Karlsson prófessor og ber hann heitið upphafsskeið þjóðríkismyndunar. Þar er gerð grein fyrir íbúum landsins, atvinnuvegum og þjóðarhag. Þessu næst er stjórnmálasagan rakin, en þar verða þáttaskil um 1830 þegar pólitísk vakning verður meðal Hafnar-Íslendinga fyrir áhrif júlíbyltingarinnar í Frakklandi. Eftir það snýst sagan um stjórnskipuleg tengsl Danmerkur og Íslands og eru þar þrír áfangar mikilvægastir, stofnun eða endurreisn Alþingis 1843, afnám einveldis 1848 og stöðulögin 1871 ásamt stjórnarskránni 1874. Þá er greint frá þróun lýðræðis, þar á meðal kosningum til Alþingis, lýðræðisstarfi almennings og viðgangi verslunarfrelsis. Loks er sagt frá hvernig almennum mannréttindum var háttað, þar á meðal réttindum kvenna, og einstaklingsbundnum réttindum almennings.
Bókmenntasögukaflann ritar Þórir Óskarsson bókmenntafræðingur og fellur sú saga vel að því tímabili sem er viðfangsefni þessarar bókar. Upphafið markast af náttúru- og ættjarðarljóðum Bjarna Thorarensen, en með þeim berast fyrstu straumar rómantísku stefnunnar til Íslands sem annars er talin ná hingað til lands um 1830. Því er lýst hvernig rómantíska stefnan átti þátt í að efla þjóðarvitund Íslendinga og þjóðfélagslega virkni. Síðan fylgja sérstakir kaflar um skáldskapar- og fagurfræði, kveðskap, sagnagerð og leikritun, þjóðsagnasöfnun og þýðingar sem verða mikilvægur þáttur í bókmenntum Íslendinga. Þessum meginkafla lýkur við árið 1882, en þá birtist fyrsta og eina hefti tímaritsins Verðandi en við útkomu þess er miðað upphaf raunsæisstefnunnar í bókmenntum Íslendinga.
Ritstjórn: Sigurður Líndal og Pétur Hrafn Árnason
Ritið er 516 blaðsíður.