Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850-1903

 Í bókinni fjallar Erla Hulda Halldórsdóttir sagnfræðingur um mótun kyngervis kvenna á Íslandi á síðari hluta 19. aldar. Til grundvallar liggur umræða sem hófst í landsmálablöðunum árið 1870 um hvaða menntun hæfði konum og hinu svokallaða kvenlega eðli. Þótt umræðan hafi á yfirborðinu snúist um viðeigandi menntun kvenna þá snérist hún í raun um samfélagslegt hlutverk þeirra. Auk hinnar opinberu umræðu er byggt á upplifun kvenna eins og hún birtist í sendibréfum þar sem fram kemur togstreita milli ríkjandi hugmynda um hlutverk kvenna og löngunar þeirra til þess að stíga út fyrir ‘sitt gólf’.

Ein meginniðurstaða bókarinnar er sú að kvennaskólunum, sem stofnaður voru á áttunda áratug 19. aldar, hafi verið ætlað að endurskilgreina hlutverk kvenna í samfélaginu í anda ríkjandi hugmynda um konur sem mæður og húsmæður en ekki að opna þeim leið út í almannarýmið. Á þann hátt var brugðist við nútímavæðingu, kvenfrelsiskröfum og öðrum breytingum sem taldar voru ógna heimilinu sem hornsteini samfélagsins og kvenlegu eðli. Reyndin varð þó sú að kvennaskólarnir urðu hvort tveggja í senn vettvangur uppbrots og samsemdar, staðir þar sem kyngervi kvenna og sjálfsverund var endurskilgreind í takt við nýja tíma. Annars vegar til andófs við ríkjandi gildi og birtist í því sem kallað var ókvenlegt og er í rannsókinni skilgreint sem úrhraks-kvenleiki eða ómynd, en hins vegar í anda styðjandi kvenleika sem samþykkti og studdi forræði hins karllega. Þannig urðu kvennaskólarnir, umræðan um menntun og misvísandi orðræður um hlutverk og eðli kvenna hreyfiafl breytinga, bæði samfélagslegra og hugmyndafræðilegra um aldamótin 1900.
Bókin er doktorsverkefni Erlu Huldu Halldórsdóttur við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Hún er gefin út í samstarfi Sagnfræðistofnunar, Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum og Háskólaútgáfunnar.