Mannlíf við Sund – býlið, byggðin og borgin – endurútgefin

Út er komin á ný bókin Mannlíf við Sund – býlið, byggðin og borgin, eftir Þorgrím
Gestsson. Hún kom upphaflega út árið 1998 en hefur nú verið ófáanleg í nokkur ár.

Í Mannlífi við Sund er sögð saga hinnar fornu Laugarnesjarðar frá landnámi til
ársins 1930 eða svo. Laugarnes var í upphafi næsta jörð fyrir austan hina fornu
Reykjavík, eða Vík, og náði þvert yfir Seltjarnarnes, milli Viðeyjarsunds og
Fossvogs. Öldum saman, í það minnsta frá 1200, var Laugarnes kirkjustaður og
höfuðból sveitarinnar fyrir austan Reykjavík, á innra Seltjarnarnesi, með Rauðará á
aðra hönd en Klepp og Bústaði á hina.
Í Laugarneslandi er Kirkjusandur þar sem starfræktar voru fiskverkunarstöðvar frá
því á sinni hluta 19. aldar og langt fram á þá 20. Steingrímur Jónsson
Skálholtsbiskup reisti biskupsbústað á Laugarnestanga á fyrri hluta 19. aldar en um
aldamótin 1900 byggðu danskir Oddfellowar holdveikraspítala þar í grenndinni,
stærsta timburhús sem reist hafði verið á Íslandi.
Bæjarstjórn Reykjavíkur keypti Laugarnesjörðina á seinni hluta 19. aldar og eftir
það var beitiland jarðarinnar notað fyrir fénað bæjarmanna og heitu laugarnar í
Laugamýri, sem hafa að líkindum verið tilefni nafngiftarinnar á fyrsta landnámsbýli
Íslands, Reykjavík, voru opnaðar almenningi, hvort tveggja til tauþvotta og baða.
Sundskóli hóf starfsemi sína í lóni norðan við Þvottalaugarnar vorið 1824 en á þeim
slóðum var síðar gerð torfsundlaug, sem varð undanfari sundlaugarinnar sem nefnd var
Laugarneslaugar, eða aðeins Sundlaugarnar, og þær laugar voru aftur fyrirrennari
Laugardalslaugarinnar.
Ólafur og Pétur Þorgrímssynir, synir síðustu bændanna í Laugarnesi, stofnuðu
Strætisvagna Reykjavíkur árið 1930, sem segja má að marki tímamót í þróun
Reykjavíkur frá smábæ til borgar, og með því lýkur jafnframt þessari bók. Ennfremur
er í ráði að höfundur hefjist með haustinu handa við að afla efnis í framhald
þessarar bókar þar sem fjallað verður um þróun byggðar í Laugarnesi frá 1930 til
okkar daga.