Kirkjur Íslands 11. og 12. bindi

Út eru komin 11. og 12. bindi ritraðarinnar Kirkjur Íslands. Kirkjur Íslands er grundvallarrit um friðaðar kirkjur á Íslandi þar sem horft er þær frá sjónarhóli byggingarlistar, stílfræði og þjóðminjavörslu. Í máli og myndum er fjallað um kirkjurnar sjálfar ásamt kirkjugripum og minningarmörkum.
Bókaflokkurinn opnar sýn inn í mikilvægan þátt í menningarsögu okkar Íslendinga heima í héraði, því kirkjan er ekki aðeins musteri trúar, heldur einnig sýnileg táknmynd þess besta í byggingar- og listasögu þjóðarinnar á hverjum tíma. – Þetta eru glæsilegar listaverkabækur.

Hér er fjallað um hinar 16 friðuðu kirkjur í Kjalarnessprófastsdæmi. Formáli fyrir verkinu er í 11. bindi og viðeigandi skrár fyrir bæði bindin í því 12. Hér er því um eitt heildstætt verk að ræða og er gefið út með styrk frá Kjalarnessprófastsdæmi.
 
Höfundar efnis eru Gunnar Kristjánsson, Þór Magnússon, Júlíana Gottskálksdóttir, Jón Þ. Þór, Gunnar Bollason, Guðmundur L. Hafsteinsson og Þorsteinn Gunnarsson.
 
Landakirkja er með elstu kirkjum landsins, teiknuð af danska húsameistaranum G.D. Anthon og reist 1774-1778. Hún á marga gripi frá 17. öld og altaristöflu eftir danska málarann G.T. Wegener. Krýsuvíkurkirkja, smíðuð 1857, ein minnsta kirkja landsins og tilheyrir húsasafni Þjóðminjasafns. Kirkjuvogskirkja er elst kirkna á Suðurnesjum; í henni er altaristafla eftir Sigurð Guðmundsson málara, eins og raunar einnig á Hvalsnesi og Kálfatjörn. Í Útskálakirkju, sem Einar Jónsson forsmiður smíðaði, er kaleikur og patína eftir Ásbjörn Jacobsen gullsmið, en smíðisgripi hans má sjá í fleiri kirkjum prófastsdæmisins. Kirkjurnar á Hvalsnesi og í Njarðvík reisti Magnús Magnússon steinsmiður; á Hvalsnesi er laskaður legsteinn sem séra Hallgrímur Pétursson mun hafa meitlað og sett dóttur sinni Steinunni. Kálfatjarnarkirkja er meistaraverk Guðmundar Jakobssonar forsmiðs, fagurlega máluð hið innra af N.S. Berthelsen. Í Keflavíkurkirkju, sem teiknuð er af Rögnvaldi Ólafssyni húsameistara, er altaristafla eftir Ásgrím Jónsson listmálara.
 
Bessastaðakirkja var að mestu reist 1777-1795. Greint er frá húsameistaranum sem fram að þessu hefur verið óþekktur. Upphaflegar innréttingar eru varðveittar á Þjóðminjasafni. Í kirkjunni er tígulegt minningarmark yfir Pál Stígsson hirðstjóra. Brautarholtskirkja og kirkja sú er áður stóð á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, Saurbæjarkirkja, eru báðar smíðaðar af Eyjólfi Þorvarðarsyni, forsmið frá Bakka. Við endurvígslu hennar í Vindáshlíð 1959 var henni gefið nafnið Hallgrímskirkja í Vindáshlíð. Í Brautarholti er prédikunarstóll frá 1664, í Lágafellskirkju altaristafla eftir Sigurð Guðmundsson málara. Í Reynivallakirkju, sem Einar Jónsson forsmiður smíðaði, er skírnarfat úr tini frá 1704 og kertastjakar frá svipuðum tíma. Saurbæjarkirkja er önnur elsta steinsteypukirkja landsins, reist 1904, en innansmíðin er frá 1856; hún á merka gripi frá 17. öld, m.a. kertastjaka og hurðarhring. Fríkirkjan í Hafnarfirði er síðasta tvílofta timburkirkjan sem reist var á landinu. Í Hafnarfjarðarkirkju, sem Rögnvaldur Ólafsson húsameistari teiknaði, eru fagrir altarisgripir eftir Leif Kaldal gullsmið.
 
Bækurnar eru prýddar fjölda ljósmynda, sem ljósmyndararnir Ívar Brynjólfsson á Þjóðminjasafni og Guðmundur Ingólfsson, Ímynd, hafa tekið, ásamt teikningum af kirkjunum.
 
Ritstjórar eru Þorsteinn Gunnarsson og Jón Torfason, ritnefnd skipa Þorsteinn, Margrét Hallgrímsdóttir og Karl Sigurbjörnsson.
 
Útgefendur eru ÞJÓÐMINJASAFN ÍSLANDS,  HÚSAFRIÐUNARNEFND, BISKUPSSTOFA  og KJALARNESSPRÓFASTSDÆMI.
Meðútgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag og annast dreifingu.