Hausthefti Skírnis – Tímarits Hins íslenska bókmenntafélags

Hausthefti Skírnis – Tímarits Hins íslenska bókmenntafélags, er komið út

Heftið er óvenju efnismikið að þessu sinni, og má segja að það sé gert til að heiðra minningu Tómasar Sæmundssonar og Jónasar Hallgrímssonar, en í ár eru 200 ár liðin frá fæðingu þeirra félaga sem í skrifum sínum og störfum sameinuðu áhuga á bókmenntum, náttúru, stjórnmálum og íslenskri sem erlendri menningu. Er tímamótanna minnst með nokkrum greinum í heftinu: Sigurður Líndal varpar nýju og óvæntu ljósi á ágreining Tómasar Sæmundssonar og Jóns Sigurðssonar um leiðir í sjálfstæðisbaráttunni, en Guðmundur Hálfdanarson skoðar menningarlega þjóðernishyggju Fjölnismanna með gagnrýnum hætti. Páll Valsson freistar þess að tengja hugsun Jónasar við kappræðuefni samtímans í grein í Skírnismálum og þá ræðir Sveinn Yngvi Egilsson náttúrusýn Jónasar eins og hún birtist í kveðskap hans.
   
Af öðrum stærri greinum í heftinu má nefna umfjöllun Jóns Sigurðssonar um stöðu Íslands á tímum hnattvæðingar og ítarlega grein eftir Magnús Þór Snæbjörnsson þar sem hann tekur Draumaland Andra Snæs Magnasonar á orðinu sem „sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð” og gagnrýnir hana út frá kenningum heimspekingsins Slavoj Zizeks. Það er einnig gagnrýninn undirtónn í grein Páls Skúlasonar fyrrverandi háskólarektors um kreppu háskóla og kjarna háskólastarfs. Gunnar Karlsson sagnfræðingur skrifar loks heimspekilega hugleiðingu um tilviljunina, besta vin fornfræðingsins.
Tvær greinar eru um bókmenntir í hausthefti Skírnis: Kristín Unnsteinsdóttir segir frá fjórum sagnakonum úr Fljótshlið og Jóhann Páll Árnason skrifar um Oswald Spengler í Alþýðubók Halldórs Laxness. Þau Sjón, Þórdís Björnsdóttir og Vésteinn Lúðvíksson eiga frumsamið bókmenntaefni í heftinu, en Úlfhildur Dagsdóttir og Susanne Lettow skrifa ritdóma. Myndlistarmaður Skírnis að þessu sinni er Matthew Barney, sem hefur sterk tengsl við Ísland og gerði forsíðuna sérstaklega fyrir þetta hefti, en Ólafur Gíslason ritar forvitnilega grein þar sem raktir eru þræðir milli kvikmyndar Barneys. Drawing Restraint 9,  og ítalskra endurreisnarbókmennta. Í listum er sérhver hlekkur við annan áfastur rétt eins og í samfélagi þjóðanna, svo notað sé orðalag Tómasar Sæmundssonar.
Skírnir er 275 blaðsíður að stærð. Ritstjóri er Halldór Guðmundsson en útgefandi er Hið íslenska bókmenntafélag.