Alþýðumenning á Íslandi 1830-1930. Ritað mál, menntun og félagshreyfingar

Bókin hefur að geyma tíu ritgerðir eftir sjö fræðimenn sem flestir eru sagnfræðingar, auk inngangsritgerðar og niðurlagskafla eftir Inga Sigurðsson og Loft Guttormsson, ritstjóra bókarinnar.

Bókin er ávöxtur rannsóknarverkefnis sem unnið hefur verið að undanfarin ár. Hér er leitast við að varpa ljósi félagslegrar menningarsögu á þróun íslensks þjóðfélags til nútímalegra hátta á þeim hundrað árum er fylgdu á eftir því tímabili sem vanalega er kennt við upplýsinguna, hina fjölþjóðlegu hugmyndastefnu. Í brennidepli er ritvæðing samfélagsins samfara bættri alþýðumenntun og eflingu félagshreyfinga. Stóraukin útgáfa bóka, tímarita og blaða á síðari hluta tímabilsins bar með sér strauma nýrra hugmynda sem breyttu á róttækan hátt viðhorfum fólks til lífsins og tilverunnar. Með ört vaxandi skriftarkunnáttu breyttust auk þess samskiptahættirnir: sendibréf og handskrifuð blöð urðu útbreiddir miðlar upplýsinga, frétta og tilfinningalegrar tjáningar. Þannig eru leidd margvísleg rök að því að síðasti fjórðungur 19. aldar hafi markað glögg skil í þróun íslensks þjóðfélags og menningar.
Höfundar ritgerðanna eru: Eiríkur Þormóðsson, Erla Hulda Halldórsdóttir, Hulda S. Sigtryggsdóttir, Ingi Sigurðsson, Jón Jónsson, Loftur Guttormsson og Ólafur Rastrick.
Ritið er 18. bindi í ritröðinni Sagnfræðirannsóknir – Studia historica, sem Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands gefur úr. Ritstjóri er Gunnar Karlsson.