Umgjörð dómsdagsmyndar – Leiðsögn Guðrúnar Harðardóttur sagnfræðings

Næstkomandi þriðjudag, 22. janúar klukkan 12:05 verður Ausið úr viskubrunnum í Þjóðminjasafni Íslands.
Guðrún Harðardóttir sérfræðingur í byggingasögu kynnir fyrir gestum hugmyndir fræðimannanna Selmu Jónsdóttur, Kristjáns Eldjárns og Harðar Ágústssonar um upphaflega staðsetningu dómsdagsmyndar Bjarnastaðahlíðarfjala. Einnig segir hún frá fyrstu dómkirkjunni á Hólum í Hjaltadal.
Fjalirnar frá Bjarnastaðahlíð má sjá á sýningunni Á efsta degi – býsönsk dómsdagsmynd á Hólum sem nú stendur yfir í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Þar er sett fram endurgerð dómsdagmyndarinnar samkvæmt tilgátu Harðar Ágústssonar.

Guðrún mun gefa gestum innsýn inn í hvað liggur að baki tilgátunnar um að myndin hafi upphaflega verið í dómkirkju þeirri sem Jón biskup Ögmundsson lét reisa skömmu eftir að hann kom til stóls á Hólum árið 1106. Sagt er frá því í Jóns sögu að hann fór til Noregs í beinu framhaldi af vígsluförinni og aflaði sér þar kirkjuviðar. Allar líkur eru á að hann hafi lagt línurnar um gerð dómkirkjunnar en hann fékk Þórodd Gamlason ,,er þá þótti einhver hagastur vera“ til að smíða hana.
Þetta er áttunda sérfræðileiðsögnin í röðinni Ausið úr viskubrunnum í vetur en sérfræðileiðsagnir Þjóðminjasafnsins hafa notið mikilla vinsælda.  Fólk er hvatt til að fjölmenna.