Spurningaskrá um heimatilbúið, viðgert og notað

Þjóðminjasafn Íslands vinnur nú að söfnun heimilda um heimatilbúið, viðgert og notað. Tilgangurinn með þessari spurningaskrá er að kanna hvort og í hvaða mæli fólk gerir við búshluti, fatnað eða annað heima hjá sér, hvað það býr til sjálft og hversu mikið það notar hlutina eða endurnýtir. Þjóðminjasafnið vill hvetja fólk til að leggja söfnuninni lið og varðveita þannig mikilvæga þekkingu sem annars er hætt við að færi forgörðum.
Unnt er að sækja spurningaskrána á heimasíðu Þjóðminjasafnsins, www.thjodminjasafn.is og senda svör í tölvupósti á netfangið agust@thjodminjasafn.is.
Nánari upplýsingar veitir Ágúst Ó. Georgsson á ofangreint netfang eða í síma 530 2200.

Á þessu ári eru 50 ár síðan Þjóðminjasafn Íslands hóf söfnun heimilda um þjóðhætti með spurningaskrám. Spurt hefur verið um lífshætti, siði og venjur fyrr á tímum en einnig úr samtímanum. Svör heimildarmanna eru varðveitt í skjalasafni stofnunarinnar og slegin inn í stafrænan gagnagrunn minjasafna, Sarp.