Síðasta rannsóknarkvöld vetrarins á vegum Félags íslenskra fræða verður haldið nk. fimmtudag, 24. apríl (sumardaginn fyrsta), eins og áður í húsi Sögufélagsins, Fischersundi 3, kl. 20.00.

Dr. Aðalheiður Guðmundsdóttir erindi sem hún nefnir: „Gangið hægt um gleðinnar dyr“ – Um skemmtanasiði Íslendinga fyrr á öldum í tilefni af nýútkominni danssögu Norðurlanda, Norden i Dans

Í fyrirlestrinum verður rakin saga dans og dansleika (þ.e. hinnar svokölluðu gleði) á Íslandi allt frá 12. öld til 18. aldar. Rætt verður um viðhorf yfirvaldsins til skemmtanalífs landsmanna og þær aðgerðir sem beint var gegn samkomunum. Hingað til höfum við leitað heimilda um viðhorf til gleðinnar í opinberum skrifum menntamanna og í umkvörtunum andlegra yfirvalda sem gagnrýndu þátttakendur dansleikanna fyrir siðleysi. En hvað hefur alþýðan sjálf um málið að segja? Í fyrirlestrinum verður lögð áhersla á raddir þeirra sem sjálfir tóku þátt í dansleikum og tjáðu sig um þá í danskvæðum – einkum vikivakakvæðum, sem flutt voru við vikivakadans, leikkvæðum og dansþulum. Samkvæmt því sem þar kemur fram höfðu þeir sem kvörtuðu undan frjálslegu háttalagi dansfólksins nokkuð til síns máls, enda snúast kvæðin mjög um samdrátt kynjanna og jafnvel lauslæti. Sagt verður frá ódönnuðum dansdömum, drykkjuskap, kossum og fleiru sem ber á góma í kveðskap dansfólksins.
 
Aðalheiður Guðmundsdóttir (adalh@hi.is) er rannsóknarstöðustyrkþegi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og stundakennari við Háskóla Íslands.
 
Aðgangur að rannsóknarkvöldum Félags íslenskra fræða er ókeypis og öllum heimill.