Skipalestir á stríðsárunum – Hlutverk Íslands í heimssögunni

Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Alþjóðaver efna í samvinnu við sex erlend sendiráð til ráðstefnu og minningaratburða í Reykjavík 9-13 júlí 2008
Vísindamenn og eftirlifendur ræða mikilvægi skipalestanna fyrir sigur í Seinni heimsstyrjöldinni og hernaðarlegt mikilvægi Íslands
Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Alþjóðaver standa dagana 9.-13. júlí fyrir ráðstefnu og minningaratburðum um skipalestir Bandamanna til Rússlands í Seinni heimsstyrjöldinni. Skipalestirnar, sem söfnuðust saman á Íslandi, voru mikilvægur þáttur í sigri Bandamanna.
Dagskráin hefst um borð í breska herskipinu HMS Exeter við Miðbakka miðvikudaginn 9. júlí en skipið kemur sérstaklega til Íslands af þessu tilefni. Alþjóðleg sagnfræðiráðstefna verður haldin á Háskólatorgi 10-11 júlí og efnt verður til fleiri minningaratburða um helgina.
Þetta er í fyrsta sinn sem eftirlifendum frá þátttökuríkjum Skipalestanna er boðið til samræðu við sagnfræðinga með þessum hætti. Margir eftirlifendurnir munu heimsækja Ísland í fyrsta sinn síðan þeir tóku þátt í þessum sögulegu atburðum fyrir meira en sextíu árum. Sagnfræðingar frá Bretlandi, Rússlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Noregi og Ástralíu varpa ljósi á sögu siglinganna og mikilvægi þeirra. Þá fjallar Þór Whitehead prófessor um hernaðarlegt mikilvægi Íslands.

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson er verndari ráðstefnunnar og minningaratburðanna. Landsbankinn er styrktaraðili. Atburðirnir eru haldnir í samvinnu við sendiráð Rússlands, sendiráð Bretlands, sendiráð Bandaríkjanna, sendiráð Kanada, sendiráð Noregs og sendiráð Danmerkur á Íslandi.
Í tilefni af ráðstefnunni verður sett upp sérstök sýning um sögu Skipalestanna. Á henni verða myndir úr fórum þeirra sem þátt tóku í siglingunum til Rússlands á stríðsárunum, myndir frá söfnum frá nokkrum löndum, kort og málverk.
Skipalestir sem fluttu vistir og vopn frá Bandaríkjunum og Evrópu til Austurvígstöðvanna í gegnum Ísland í Seinni heimsstyrjöldinni eru vanmetinn þáttur í heimssögunni og sögu Íslands. Djarfir sjómenn frá mörgum löndum réttu hjálparhönd til þeirra sem áttu í harðri varnarbaráttu gegn hersveitum nasista.
Fjölþjóðlegur floti safnaðist saman á Íslandi, sigldi á haf út og átti fyrir höndum langa siglingu og stöðugar árásir kafbáta Þjóðverja. Þeir sem komust á leiðarenda sýndu ótrúlega þrautseigju og hugprýði. Í Rússlandi er þess minnst með stolti og þakklæti hvernig bandamenn komu til hjálpar þegar allar bjargir virtust bannaðar. Siglingarnar kostuðu miklar mannfórnir en þar sem um var að ræða sjómenn en ekki hermenn hefur í mörgum tilfellum hlutur þessara afreksmanna fallið í skugga af viðurkenningum til hermanna.
Þeir sem þátt tóku í siglingunum hafa átt samskipti og haldið hópinn. Um nokkurra ára skeið hafa samtök, sem stofnuð voru í Rússlandi til að halda minningu skipalestanna á lofti, litið til Íslands sem vöggu lestanna og óskað eftir samstarfi til að rækta minningu þessara mikilvægu atburða.
Hugmynd að minningaratburðum um skipalestirnar má rekja til Péturs H. Ólafssonar sjómanns sem sigldi með skipalestunum til Rússlands á stríðsárunum. Hann hefur í seinni tíð verið afar virkur í starfi eldri borgara. Pétur var nýverið sæmdur heiðursmerki Rússa og hefur tekið þátt í minningaratburðum einkum með Rússum og Bretum en einnig fulltrúum fleiri þjóða.
Dagskrá ráðstefnunnar og nánari upplýsingar má sjá á heimasíðu Hugvísindastofnunar, www.hugvis.hi.is/page/Convoys
 
Nánari upplýsingar veita Kristján Guy Burgess framkvæmdastjóri Alþjóðavers í síma 699 0351, kgb@global-center.org og Eliza Reid verkefnisstjóri í síma 893 4173 eliza@elizareid.com