Refsingar á Íslandi – Ausið úr viskubrunnum í Þjóðminjasafni Íslands 15. apríl klukkan 12:05

Þriðjudaginn 15. apríl klukkan 12:05 mun Árni Björnsson ganga með gestum um grunnsýningu Þjóðminjasafnsins og skoða gripi sem vitna um opinberar refsingar á Íslandi. Í safninu eru nokkrir slíkir: öxi og höggstokkur, gapastokkur og svarthol. Árni Björnsson kynnir munina og setur þá í sögulegt samhe

Opinberar refsingar þekktust ekki á Íslandi fyrr en landsmenn urðu þegnar Noregskonungs, enda ekkert framkvæmdavald í landinu. Þá eru refsingar leiddar í lög. Samt eru ekki ýkja mörg dæmi um refsingar fyrr en kemur fram yfir siðaskipti á 16. öld. Ástæðan kann að vera sú að dómabækur hafi ekki verið færðar eða að þær hafi glatast. Síðan um 1600 eru á hinn bóginn til talsverðar heimildir og refsigleðin virðist mest á 17. og 18. öld.
Dauðarefsingar voru henging, hálshögg, drekking, brenna og jafnvel kviksetning. Aðrar refsingar voru einkum húðstrýking, brennimerking, limalát, gapastokkur og hegningarvinna. Árni segir þó að sumar refsingar sem tíðkuðust erlendis, eins og ‘hjól og stegla’, hafi af ‘tæknilegum’ ástæðum seint eða ekki verið viðhafðar á Íslandi.
Um þetta og margt fleira geta gestir fræðst á þriðjudaginn kemur.
Sérfræðileiðsögn Þjóðminjasafnsins, Ausið úr viskubrunnum, fjallar um afmarkaða þætti grunnsýningarinnar eða sérsýningar. Leiðsögnin er ætluð almenningi og allir eru velkomnir.