Norrænn heimsendir – Dómsdagsmyndin frá Hólum og Völuspá, ráðstefna í Þjóðminjasafni Íslands 2.-3. maí 2008

Dagana 2.-3. maí verður haldin ráðstefna um Völuspá í Þjóðminjasafni Íslands. Efnt er til hennar í tengslum við sýninguna Á efsta degi – býsönsk dómsdagsmynd frá Hólum sem nú stendur yfir í Þjóðminjasafninu. Til sýnis eru brot útskorinna fjala, líkast til úr stórri býsanskri eða austrænni dómsdagsmynd sem prýtt hefur dómkirkju Jóns helga Ögmundssonar biskups á Hólum í Hjaltadal.
Á sýningunni er reynt er að endurskapa myndina samkvæmt tilgátuteikningu Harðar Ágústssonar listmálara

Myndin tilheyrir helgimyndahefð austurkirkjunnar sem á rætur í opinberunarritum ýmissa trúarbragða þar sem sagt er frá hamförum, stríðum og ragnarökum, jafnan í tengslum við uppgjör mannkyns á efsta degi. Þessi stef birtast á sérstakan hátt í Völuspá sem löngum hefur verið talið merkasta Eddukvæðið. Fræðimenn eru þó ekki á einu máli um uppruna þess og merkingu né að hve miklu leyti það er heiðið eða kristið.
Á ráðstefnunni fjalla íslenskir og erlendir fræðimenn um nýjustu rannsóknir á Völuspá og hugsanleg tengsl hennar við það myndefni sem blasað hefur við kirkjugestum á vesturvegg fyrstu dómkirkjunnar á Hólum. Hugarheimur kvæðisins verður kynntur með myndum, tali og tónum. Flutt verður tónlistar-drama byggt á Völuspá, Söngur völvunnar, sem Sverrir Guðjónsson hefur skapað í samvinnu við sænska tónskáldið og spunameistarann Sten Sandell.
Spádómur völvunnar sem fjallar um sköpun heimsins, ragnarök og nýtt upphaf er víða sýnilegur í nútímasamfélagi okkar. Yggdrasill veslast upp og hinn dimmi dreki flýgur yfir með líkin í fjöðrunum í lok ljóðsins. En þar er jafnframt von um nýtt upphaf og þau skilaboð flytur Söngur völvunnar: Vonin um nýtt upphaf og bjarta framtíð er handan við hornið, ef við höfum þor til þess að takast á við hið alvarlega ástand sem blasir við veröldinni í dag.
Ráðstefnan Dómsdagsmyndin frá Hólum og Völuspá er mikill viðburður sem getur orðið listamönnum, fræðimönnum og öðru áhugafólki hvatning til sköpunar. Jafnframt er það von þeirra sem að ráðstefnunni standa að hún muni stuðla að frekari þverfaglegum rannsóknum og umræðum um Völuspá.
Ráðstefnan er haldin á vegum Stofnunar Árna Magnússonar, Þjóðminjasafns Íslands og Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Ráðstefnustjóri er Pétur Pétursson prófessor, Háskóla Íslands.
Skráning á ráðstefnuna, kvöldverð og hátíðardagskrá
Tilkynna ber um þátttöku til Ásdísar Guðmundsdóttur skrifstofustjóra Guðfræðideildar H.Í. Sími: 354 5254348. Netfang: asdisg@hi.is.
Skráningargjald er 3000 ísl. kr. Innifalin eru ráðstefnugögn, kaffi og aðgöngumiði að tónlistargjörningnum Söngur völvunnar.
Tilkynna þarf sérstaklega um þátttöku í miðaldakvöldverði og hátíðardagskrá á Grand Hóteli Reykjavíkur sem kostar 4000 ísl. kr.
Athugið að fjöldi þátttakenda er takmarkaður.
Greiðsla
Greiðið ráðstefnugjaldið og miðaldakvöldverðinn á reikning 137-26-85, kt. 600169-2039. Merkið Dómsdagsráðstefnan.
Frekari upplýsingar veita Pétur Pétursson petp@hi.is og Sigrún Kristjánsdóttir sigrunk@thjodminjasafn