Miðaldastofa: Veislur og konungsvald í Noregi á miðöldum

Fimmta miðaldastofa vetrarins verður haldin nk. fimmtudag. Í fyrirlestri
sínum fjallar Viðar Pálsson um Ágrip, Fagurskinnu og Heimskringlu og rýnir
í þá mynd sem þar er dregin upp af pólitískum samskiptum á 9. og 10. öld.
Miðaldastofa er haldinn í stofu 207 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Veislur voru snar þáttur í pólitísku umhverfi Noregs á miðöldum, og ófust
inn í vöxt og viðgang konungsvalds og ríkisvalds. Konungasögur virðast
gera ráð fyrir því að veislur hafi frá fyrstu tíð verið mikilvægt,
pólitískt tæki höfðingja, smákonunga og ríkiskonunga í Noregi, en þó er
ekki alltaf gott að sjá hvað höfundar sagnanna eiga nákvæmlega við þegar
þeir tala um eða vísa til veislna, eða hvernig virkni þeirra þróaðist með
gagngerum breytingum á pólitískri umgjörð samfélagsins. Þó má greina allar
meginlínur, og stundum smærri atriði.
Í fyrirlestrinum verður þetta efni tekið til umfjöllunar, og einnig spurt
um vægi þess vitnisburðar sem nefndar  heimildir veita um svo fjarlæga
fortíð, og í hverjum atriðum hann sé líklegastur til þess að gefa skakka
mynd og í hverjum rétta.
Viðar Pálsson er MA í sagnfræði frá Kaliforníuháskóla í Berkeley og
doktorskandídat við sama skóla; hann er einnig stundakennari við MR og HÍ.