Málstofu í hagsögu í Háskóla Íslands, vor 2008

Á vormisseri 2008 verður farið af stað með málstofu í hagsögu í Háskóla Íslands og er stefnt að því að gera hana að föstum lið í starfi skólans ef undirtektir verða góðar. Kennarar í hagfræðiskor og sagnfræðiskor standa að málstofunni og munu undirritaðir sjá um undirbúning hennar. Málstofan er opin öllum áhugamönnum um hagsögu og vonumst við eftir þátttöku sem víðast að.

Málstofunni er ætlað að vera umræðuvettvangur fyrir hvers konar hagsöguleg
viðfangsefni á hvaða tímabili sem er. Þar geta menn kynnt eigin
rannsóknir, tekið verk annarra fræðimanna til skoðunar, fjallað um
fræðikenningar sem tengjast hagsögu, o.s.frv. Á eftir framsögum verður tími
fyrir fyrirspurnir og almenna umræðu.
Gert er ráð fyrir að málstofan verði tvisvar í mánuði (fer eftir framboði á
efni), á fimmtudögum kl. 16.00-17.30.
Við köllum nú eftir efni á málstofuna og viljum kanna, viðtakandi góður,
hvort þú hafir áhuga á að leggja fram efni í málstofunni. Áhugasamir eru
vinsamlegast beðnir að hafa samband við okkur við fyrstu hentugleika.
Með kveðju,
Guðmundur Jónsson                Sveinn Agnarsson
prófessor í sagnfræði               aðjúnkt, fræðimaður á Hagfræðistofnun
s.: 525 4208                              s.: 525 5210
gudmjons@hi.is                        sveinnag@hi.is