Maí 1968 – áhrif í dag (26.05.2008)

Fyrirlestur og umræður í Alliance française, Tryggvagötu 8, miðvikudaginn 28. maí kl. 20:00.
Franski blaðamaðurinn Eric Aeschimann heldur fyrirlestur um uppreisnina í Frakklandi í maí 1968 í tilefni af því að í þessum mánuði eru fjörutíu ár liðin frá þeim sögulegu atburðum. Mjög líflegar umræður hafa átt sér stað í Frakklandi og víðar um áhrif þessa tímabils á nútímann og hátt á annað hundrað bækur hafa verið gefnar út þar sem efnið er reifað frá margvíslegu sjónarhorni. Í fyrirlestrinum fer Eric Aeschimann yfir þessa umræðu og reynir að svara spurningunni hverju atburðirnir breyttu, nú þegar fjórir áratugir eru liðnir frá þeim, og ekki síst hvers vegna enn stafar ljómi af þessum viðburðum í dag.

Eric Aeschimann er blaðamaður við stórblaðið Líbération og hefur haft með höndum ritstjórn og vinnslu á greinaflokki um “mai 68” sem hefur verið birtur í Liberation undanfarna mánuði. Hann er auk þess höfundur tveggja skáldsagna og bóka um efnahags- og stjórnmál.
Fyrirlesturinn flytur hann á frönsku, en hann verður túlkaður á íslensku. Að fyrirlestri hans loknum verða umræður með þátttöku Viðars Þorsteinssonar heimspekings og nokkurra manna og kvenna sem sum hver urðu sjálf vitni að atburðunum, Sigurðar Pálssonar, Gérard Lemarquis og Dominique Plédel. Umræðum stýrir Torfi H. Tulinius prófessor.
Aðgangur er ókeypis og öllum heimill aðgangur meðan húsrúm leyfir.
Þessi kvöldstund er skipulögð í samvinnu við Háskóla Íslands og með aðstoð Sendiráðs Frakkland.