Ísland í síðari heimsstyrjöldinni – Sýning

10. maí nk. verða 70 ár liðin frá því að Bretar hernámu Ísland. Atburður þessi hafði mikil áhrif á íslenskt samfélag í mörgu tilliti, ekki síst í höfuðstað landsins, Reykjavík.
Í tilefni þessa ætlar Minjasafn Reykjavíkur í samstarfi við námsleið í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands og Kvikmyndasafn Íslands, að standa fyrir sýningu. Leitast verður við að varpa ljósi á hernám Breta, komu Bandaríkjamanna sumarið 1941, bandarískt herbúðarlíf og íslenskt samfélag frá sjónarhóli hermanna.
Sýningin verður í Fógetastofum, Aðalstræti 10 og hefst 10. maí kl. 17.

Hernám Breta og hervernd Bandaríkjamanna
Þann  10.  maí  árið  1940  hernámu  Bretar  Ísland  og rúmu ári síðar tóku Bandaríkjamenn  við  hervernd  á landinu. Koma breska og bandaríska hersins hafði  í  för  með  sér  gífurlegar breytingar á íslensku samfélagi og þess gætti ekki hvað síst í höfuðstaðnum, Reykjavík.
Ísland  var herlaust land. Stjórnvöld höfðu kosið að standa utan við átökin og lýst yfir ?ævarandi hlutleysi?.  Því ákváðu Bretar að hernema landið, en reyna  að  stuðla  að  friðsamlegri  sambúð við Íslendinga með margvíslegum ívilnunum.
Meðal  fyrstu  verka Breta var að handtaka þýska ræðismanninn. Vegum til og frá  Reykjavík  var  lokað og herinn tók á sitt vald hernaðarlega mikilvæga staði.  Bretar  komu  upp  hernaðarmannvirkjum  víða og byggðu meðal annars herflugvöll í Reykjavík.
Árið  1941  var gerður samningur milli Íslands og Bandaríkjanna um hervernd landsins.  Bandaríkin  áttu  ekki  aðild að stríðinu á þessum tíma, en áttu mikilla   hagsmuna   að   gæta   varðandi  siglingar  og  hernaðarumsvif  á Atlantshafi.  Öflugur  bandarískur  floti  kom  til Íslands 7. júlí 1941 og land- og flugher kom sér einnig fyrir á landinu.
Herbúðalíf og íslenskt samfélag
Líf  hermanna  í herbúðunum var ekkert sældarlíf. Bretabraggarnir voru ekki byggðir  fyrir  íslenskt  veðurfar  og  var  því  oft  kalt og næðingssamt. Bandarísku  hermennirnir  vönduðu meira til sinna bragga og aðbúnaður allur var  mun  betri.  Herbúðalífið einkenndist af tilbreytingarleysi og hermenn eyddu drjúgum tíma við bréfaskriftir, lestur og aðra tómstundaiðju.
Yfirmaður  ljósmyndadeildar  bandaríska  hersins,  Samuel Kadorian, kom til Íslands  árið  1943  og   var á landinu til stríðsloka, árið 1945. Hann tók fjölda mynda hér á stríðsárunum, sem veita einstaka sýn á íslenskt samfélag og veru bandarískra hermanna á landinu í síðari heimsstyrjöldinni.