Hver var W.G. Collingwood? Málþing í tengslum við sýninguna Sögustaðir – í fótspor W.G. Collingwoods

Laugardaginn 27. nóvember verður haldið málþing í Þjóðminjasafni Íslands í
tengslum við sýningu Einars Fals Ingólfssonar Sögustaðir – í fótspor W.G.
Collingwoods og samnefnda bók sem kom út s.l. vor. Á þinginu munu dr.
Matthew Townend, prófessor í miðaldafræðum við háskólann í York, og Þóra
Kristjánsdóttir listfræðingur og sérfræðingur hjá Þjóðminjasafni Íslands,
fjalla um fornfræðinginn og listamanninn W.G. Collingwood, ævistarf hans
og Íslandsferðina árið 1897. Að auki mun Einar Falur segja frá samtali
þriggja tíma, eins og það birtist í Sögustöðum.
Þingið stendur kl. 13-15 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
Málþingið er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands og the
English-Speaking Union á Íslandi.

W.G. Collingwood kom til landsins árið 1897 til að mála myndir af stöðum
sem koma fyrir í Íslendingasögunum og um leið skapaði hann merkar
heimildir um íslenskan samtíma. Á árunum 2007-2009 naut Einar Falur
Ingólfsson leiðsagnar Collingwoods á ferð sinni milli íslenskra sögustaða.
Hann hefur farið milli staða þar sem breski listamaðurinn vann og stuðst
við myndverk hans og skrif. Í verkum þeirra birtast myndir af stöðum sem
oft láta lítið yfir sér en eru hlaðnir sögulegri merkingu.
Dr. Matthew Townend hefur stundað rannsóknir á lífi og ferðum W.G.
Collingwood og gaf nýverið út bók sem greinir frá ævi og störfum hans.
Þóra Kristjánsdóttir listfræðingur hefur um árabil miðlað af þekkingu
sinni um listir fyrri alda á Íslandi. Hún hefur starfað við Þjóðminjasafn
Íslands frá árinu 1987.
Á sýningunni Sögustaðir – í fótspor W.G. Collingwoods sem nú stendur í
Bogasal Þjóðminjasafns Íslands má sjá úrval ljósmynda Einars Fals auk
hluta þeirra rúmlega 300 verka sem Collingwood málaði hér á landi, en stór
hluti myndanna frá ferð hans er varðveitur í Þjóðminjasafninu.
Dagskrá:
13:00   Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður setur þingið
13:10   Þóra Kristjánsdóttir: Íslandsleiðangur Collingwoods og dr. Jóns
Stefánssonar sumarið 1897
13:30   Dr.Matthew Townend: W.G. Collingwood and the Vikings
14:15   Einar Falur Ingólfsson: Þrír tímar og tilraun til að tengja þá
saman
        – Um samtalið milli verka okkar Collingwoods.
15:00   Kaffi/Coffee
Fundarstjórn: Þorbjörg Br. Gunnarsdóttir
Fyrirlestrar verða ýmist á ensku eða íslensku. Útdráttur erinda á íslensku
og ensku liggur frammi í fyrirlestrasal.
Þóra Kristjánsdóttir:
Íslandsleiðangur Collingwoods og Jóns Stefánssonar sumarið 1897
Í erindinu mun Þóra tala stuttlega um Collingwood og ferð hans um Ísland
með Jóni Stefánssyni sumarið 1897, rekja upphaf ferðarinnar og kynni
þeirra félaga. Að auki mun Þóra greina frá þeim um 200 myndum eftir
Collingwood sem til eru í Þjóðminjasafni Íslands, en það eru bæði
vatnslitamyndir, teikningar og ljósmyndir.
Matthew Townend:
W.G. Collingwood and the Vikings
Í fyrirlestrinum er leitast við að setja pílagrímsferð W.G. Collingwoods
til Íslands árið 1897 í samhengi við rannsóknir hans á víkingatímanum.
Rannsóknir Collingwoods endurspeglast ekki einungis í útgefnum fræðiritum
um sagnfræði, fornleifafræði og textafræði heldur einnig í skáldsögum,
höggmyndum og, síðast en ekki síst, málverkum. Erindið mun veita yfirsýn
yfir ævistarf Collingwoods og veita innsýn í bæði fræða- og listaferil
hans.
Einar Falur Ingólfsson:
Þrír tímar og tilraun til að tengja þá saman
– Um samtalið milli verka okkar Collingwoods.
Í erindinu veltir Einar Falur fyrir sér nálgun W.G. Collingwoods í
vatnslitamyndum og ljósmyndum sem hann skapaði í Íslandsheimsókninni
sumarið 1897 og ber þær saman við ljósmyndirnar sem hann tók sjálfur á
sömu stöðum rúmri öld síðar, þegar hann ferðaðist milli staðanna sem
Collingwood vann á og lét hann vísa sér á myndefnin. Einar Falur veltir
fyrir sér muninum á huglægri og hlutlægri nálgun þeirra sem og samtali
þriggja tíma; tíma sögualdar, sem Collingwood leitaðist við að
endurspegla, tímanum í lok 19. aldar eins og hann birtist í myndum
Collingwoods, og loks samtíma okkar sem hann vinnur sjálfur með.