Hvað er kreppa? – Hvað er dómur sögunnar?

Dagskrá hádegisfyrirlestra Sagnfræðingafélags Íslands í vetur er komin út og verður send til allra félaga í vikunni ásamt fréttabréfi félagsins.
Sem fyrr verður veturinn tvískiptur. Hvað er kreppa? er yfirskrift haustsins og eiga stjórnmál og efnahagsmál þar eðlilega stærstan sessinn. Þar er þó einnig að finna erindi um ímyndarkreppu og matarmenningu á krepputímum. Hádegisfyrirlestraröðinni verður fylgt úr hlaði þann 22. september með málþingi um stöðu, hlutverk og framtíð hugvísinda á krepputímum með þátttöku Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra, Viðars Hreinssonar framkvæmdastjóra ReykjavíkurAkademíunnar og Írisar Ellenberger.

 Á vormisseri verður breytt um stefnu og litið inn á við. Yfirskrif vormisserisins verður Hvað er dómur sögunnar? Þá munu fræðimenn fjalla um hvernig hið illskilgreinda fyrirbæri dómur sögunnar hefur leikið viðfangsefni þeirra. Um leið er hlutverk sagnfræðinga við „dómnefndarstörfin“ tekið til umfjöllunar. Sigurður Gylfi Magnússon opnar dagskrá vormisseris þann 19. janúar í erindi þar sem hann heldur því fram að dómur sögunnar sé alltaf rangur. Í kjölfarið verður hugað að eftirmælum þriggja sögufrægra einstaklinga, tækninýjunga á 18. öld, víkinga og braggahverfa.
Það er því spennandi vetur framundan. Hádegisfundirnir fara sem fyrr fram annan hvern þriðjudag kl. 12:05-13:00 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands.
 
Dagskrá vetrarins
Haustmisseri 2009 – Hvað er kreppa?
 
22. september 
Hugvísindi á krepputímum. Staða, hlutverk og sóknarfæri
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra
Viðar Hreinsson framkvæmdastjóri Reykjavíkurakademíunnar
Íris Ellenberger formaður Sagnfræðingafélagsins 
 
6. október 
Sólveig Ólafsdóttir: Íslenskur kreppukostur 
 
20. október 
Skúli Sæland: Ímyndarkreppa Skálholts og viðreisn þess um miðja síðustu öld 
 
3. nóvember 
Sigrún Davíðsdóttir: Kreppan og kunningjaþjóðfélagið 
 
17. nóvember 
Guðmundur Jónsson: Velferðarríkið og efnahagskreppur á Íslandi 
 
1. desember 
Guðmundur Hálfdanarson: Er íslenskt fullveldi í kreppu?
 
 
Vormisseri 2010 – Hvað er dómur sögunnar?
 
19. janúar 
Sigurður Gylfi Magnússon: Dómur sögunnar er ævinlega rangur!
 
2. febrúar 
Úlfar Bragason: „Útlent vald oss yfir dynur – Ísland hefur jarl!“ eftirmæli Gissurar 
Þorvaldssonar 
 
16. febrúar
Jón Yngvi Jóhannsson: „Eg var ekki falur neinu valdi“. Gunnar Gunnarsson og dómur sögunnar
 
2. mars  
Hrefna Róbertsdóttir: Gamall eða nýr tími á 18. öld?
 
16. mars 
Katla Kjartansdóttir: Vandræðalegir víkingar. Ímynd, arfur og tilfinningar
 
30. mars
Eggert Þór Bernharðsson: Dómi snúið? Viðhorf til braggasögunnar
 
13. apríl
Guðni Th. Jóhannesson: Gunnar Thoroddsen og dómur sögunnar