Hugvísindi á krepputímum

Þann 22. september nk. heldur Sagnfræðingafélag Íslands málþingið Hugvísindi á krepputímum. Staða, hlutverk og sóknarfæri með þátttöku Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra, Viðars Hreinssonar framkvæmdastjóra ReykjavíkurAkademíunnar og Írisar Ellenberger formanns Sagnfræðingafélagsins.
Ráðstefnan mun opna hina árlegu hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins en yfirskrift haustmisseris er Hvað er kreppa?
Málþingið verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Það hefst kl. 12.05 og stendur yfir í rúman klukkutíma.
Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.

Allar stéttir og fræðasvið eru uggandi yfir þeirri efnahagslægð sem nú ríkir og yfirvofandi niðurskurði í ríkisútgjöldum. Sá ótti er þó e.t.v. nokkuð annars eðlis innan hugvísindanna þar eð fræðasviðið naut ekki góðs af hagsæld síðasta áratugar til jafns við margar aðrar fræðagreinar. Gríðarleg áhersla hefur verið lögð á tengsl fræða við atvinnulífið og ekki er laust við að ofangreindar áherslur hafi ýtt hugvísindum út á jaðarinn, enda eru tengingar fræðasviðsins við atvinnulífið oft ekki augljósar.
Því eru ýmsar þeirra spurninga sem brenna á hugvísindafólki um þessar mundir tengdar samdrætti og hagræðingu í menntakerfinu. Hugvísindafólk spyr sig nú: Verða fyrri áherslur enn við lýði eða verður tekin meðvituð ákvörðun um að breyta ríkjandi stefnu? Mun yfirvofandi niðurskurður bitna jafnharkalega á hugvísindum og öðrum fræðasviðum, jafnvel þótt hagsæld síðustu ára hafi skilað sér í takmarkaðri mæli til hugvísinda en til margra annarra greina? Er e.t.v., þvert á móti, ástæða til að efla hugvísindi þar sem það er þeirra hlutverk að skapa þær þá umræðu og þær hugmyndir sem þarf til að takast á við og skilja það hrun hagkerfis, hugmyndafræði, heimsmyndar, siðferðis og gilda sem er að eiga sér stað? Einnig mætti spyrja hvort öflug hugvísindi geti ekki lagt lið nýrri uppbyggingu, uppbyggingu hins skapandi samfélags.
Á ráðstefnunni Hugvísindi á krepputímum verður hugvísindafólki boðið til beinnar samræðu við menntamálaráðherra. Að loknum stuttum erindum frá frummælendunum þremur verður orðið gefið laust. Gestum og frummælendum gefst þar tækifæri til að ræða saman um stöðu hugvísinda í nútíð og framtíð.
Málþingið verður haldið í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Það hefst kl. 12.05 og stendur yfir í rúman klukkutíma. 
Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.