Hugvísindaþing 4. og 5. apríl í Aðalbyggingu HÍ

Hugvísindaþing verður haldið í Aðalbyggingu Háskólans næstkomandi föstudag og laugardag. Að því standa Hugvísindastofnun og Guðfræðistofnun. Fyrirlestrar á þinginu verða á áttunda tuginn, þar sem fræðimenn innan Háskólans og utan kynna rannsóknir sínar á viðfangsefnum – gátum – sem spanna hið víða svið hugvísindanna.

Rannsóknarverkefnið “Tilbrigði í setningagerð” heldur nokkurs konar uppskeruhátíð með málstofu sem spannar báða dagana og ber hið ískyggilega nafn “Íslenskan öll?” og sagnfræðingar bjóða upp á hlaðborð til heiðurs Gísla Gunnarssyni prófessor. Á vegum kennara í spænsku, frönsku og ensku er fjölbreytt málstofa sem nefnist “Við landamærin” og sex bókmenntafræðingar standa að málstofunni “Staðir og Staðleysur: Erindi um íslenskar nútímabókmenntir”. Fyrirlestrar um nám og kennslu annars máls verða í tveimur málstofum, “Kennsla annars máls” og “Annarsmálsfræði – Ný fræðigrein á Íslandi”. Sömuleiðis verður fjallað um fornbókmenntir í tveimur málstofum, “Njála: myndmál, merking og mannlýsingar” og “Veislur og brennur: sagnfræði og skáldskapur í fornsögum”. Heimspekingar bjóða upp á málstofuna “Úr sögu heimspekinnar” og “Náttúran í ljósi fyrirbærafræði og austrænnar heimspeki”, þar sem rannsóknarverkefni sem fékk Rannís-styrk nú í ársbyrjun er kynnt. Austrænir straumar koma einnig við sögu í málstofunni “Trú, menning, samfélag” þar sem segir frá Skriðuklaustri, trú og húmanisma í ljóðum Snorra Hjartarsonar og austrænum áhrifum á trúarlíf Íslendinga á 20. öld.
Stökum fyrirlestrum hefur verið raðað saman í málstofur eftir efni, þannig hefur “Ísland og umheimurinn” að geyma þrjá fyrirlestra sem eiga það sameiginlegt að fjalla á einn eða annan hátt um Ísland og umheiminn, um útlendinga á Íslandi og Íslendinga í útlöndum, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, fjögur erindi undir yfirskriftinni “Íslenskt mál og samfélag” fjalla um tungumálið frá ólíkum sjónarhornum og þrjú erindi undir yfirskriftinni “Á slóðum húmanista” eiga það sameiginlegt að tengjast húmanisma eða húmanistum, hvert á sinn hátt.
Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar, stendur fyrir málstofu um hlýnun og umhverfi. Þar verður rakin hálfrar aldar saga viðhorfa og forsagna um vistkreppu, auðlindaþurrð og hlýnun, gróðurhúsaáhrif og loftslagsbreytingar verða útskýrð og gerð grein fyrir áhrifum hlýnunar á lífríki jarðar og Íslands.
Þýðingasetur Háskóla Íslands stendur fyrir málstofu um þýðingar á vettvangi Evrópusambandins í tengslum við þingið.
Hugvísindaþing hefst kl. 13 föstudaginn 4. apríl og þráðurinn verður tekinn upp kl. 12 daginn eftir. Málstofa Þýðingaseturs er milli kl. 11 og 12 á laugardeginum.
Dagskrána er að finna á heimasíðu Hugvísindastofnunar: http://www.hugvis.hi.is/

Allir velkomnir.