Hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins: „Þversögn andófsins“

Jón Ólafsson heimspekingur flytur erindið „Þversögn andófsins“ á morgun þriðjudaginn 3. mars kl. 12:05 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands sem ber yfirskriftina Hvað er andóf?
Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.

Frjálslynd lýðræðishyggja samtímans gerir ráð fyrir að tjáningarfrelsi séu grundvallarréttindi. Það þýðir að rétturinn til að tjá hverskyns óánægju, andúð eða andstöðu er sjálfsagður hluti stjórnmálaþátttöku og margir taka þátt í stjórnmálum með því að mótmæla eða í þeim tilgangi að láta í ljós andstöðu við ákvarðanir eða fyrirætlanir hins opinbera. Viðbrögð við andófi bera hinsvegar allt öðru sjónarmiði vitni. Þegar rætt er um leiðir og aðferðir til að koma andúð á framfæri kemur í ljós að miklar efasemdir ríkja um flestar aðferðir við andóf og mótmæli og yfirvöld hafa sterka tilhneigingu til að líta svo á að mótmæli séu til marks um að eitthvað hafi farið úr böndunum; mótmæli megi þola að vissu marki, en þó séu í eðli sínu árás á samfélagið. Þannig er staða andófsins í frjálslyndum samfélögum þversagnakennd; það er viðurkenndur hluti af stjórnmálaþátttöku en um leið er það talið sjúkleikamerki.
Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.